Mikill meirihluti barna og ungmenna 6 – 18 ára nýtir frístundastyrkinn

 

Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í íþrótta- og tómstundanefnd, segir mikilvægt að tryggja öllum öllum börnum og ungmennum tækifæri til þess að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf. Mynd fengin af vef Hafnarfjaðarbæjar.

Á síðasta fundi íþrótta- og tómstundanefndar var yfirlit vegna notkunar frístundastyrks 2019 lagt fram. Þar kom fram að mikill meirihluti barna og ungmenna á aldrinum 6 – 18 ára nýtir sér frístundastyrkinn. Að meðaltali er hvert barn í 1,56 íþrótt og heildarstyrkur bæjarins hefur aldrei verið hærri. Fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni segir ánægjulegt hve vel frístundastyrkurinn er nýttur af börnum og ungmennum í bænum. Hún segir jafnframt mikilvægt að greina þessar tölur betur og sérstaklega sé mikilvægt að skoða hvort einhverjir hópar í samfélaginu fari á mis við þessa mikilvægu þjónustu.

Samkvæmt upplýsingum sem lagðar voru fram á síðasta fundi íþrótta- og tómastundanefndar kemur fram að fjölgun hafi verið á milli ára hjá þeim sem nýta sér frístundastyrk bæjarins. Á síðasta ári nýttu  69% barna og ungmenna sér styrkinn og heildarstyrkur bæjarins var á síðasta ári rúmar 158 milljónir. Frístundastyrknum var komið á fót í Hafnarfirði árið 2003 og var Hafnarfjörður fyrst sveitarfélaga til þess að taka upp þetta kerfi. Síðan þá hafa flest sveitarfélög á landinu bæst í hópinn.

Ánægjulegar niðurstöður en mikilvægt skoða stöðu einstakra hópa

Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í íþrótta- og tómstundanefnd.

Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í íþrótta- og tómstundanefnd, segir það mjög ánægjulegt hversu hátt hlutfall barna og ungmenna 6 -18 ára nýti frístundastyrkinn. Að hennar mati sýni það hversu mikilvægur styrkurinn er fyrir iðkendur og að það hafi verið mikið framfaraskref þegar Samfylkingin hafði forgöngu um það frístundastyrkurinn yrði að veruleika eftir að hafa tekið við stjórnartaumunum árið 2002. „Þetta eru mjög ánægjulegar tölur sem voru kynntar á síðasta fundi íþrótta- og tómstundaráðs. Það getur verið kostnaðarsamt að stunda íþróttir og tómstundir og margar fjölskyldur finna fyrir því. Þess vegna er mikilvægt að samfélagið styðji við bakið á börnum og ungmennum til að stunda sín áhugamál. Það er einfaldlega góð fjárfesting fyrir samfélagið. Þó þessar tölur gefi ánægjulega vísbendingar um þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi þá megum við ekki sofna á verðinum. Mér finnst mikilvægt að þessar tölur verði greindar ennþá betur og þá með sérstöku tilliti til þess hvort það eru einhverjir sérstakir hópar sem ekki nýta sér frístundastyrkinn og eru ekki að stunda skipulagt frístundastarf. Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að við skoðum hvort börn og ungmenni af erlendu bergi brotin nýti sér þetta úrræði í sama hlutfalli og önnur börn og ungmenni. Það er skylda okkar að vera vakandi og vera með augun opin til þess að halda áfram að þróa og bæta gott kerfi svo við getum við bakið á öllum börnum og ungmennum í bænum,“ sagði Sigríður að lokum í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: