Niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn hafnað

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra vill ekki niðurgreiða strætókort fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra hafnaði tillögu Samfylkingarinnar um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri á fundum umhverfis- og framkvæmdaráðs og bæjarráðs í vikunni. Tilgangur tillögunnar er að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum og hvetja til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum sem styður við umhverfissjónarmið. Meirihlutinn taldi ekki ástæðu til niðurgreiðslu á strætókortum þar sem starfandi væri frístundabíll hjá sveitarfélaginu fyrir 1. – 4. bekk og að þegar væri ódýrt í strætó fyrir börn og ungmenni. 

Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun þann 13. nóvember lagði Samfylkingin fram tillögu um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri. Þá lá fyrir kostnaðarmat á tillögunni og lagt var til að farið yrði í vinnu við útfærslu tillögunnar. Samþykkt var að vísa tillögunni til umsagnar í umhverfis- og framkvæmdaráði og bæjarráði. 

Telja fargjöld lág og að frístundabíll jafni aðgengi 

Tillögunn var hafnað af fulltrúum meirihlutans bæði umhverfis- og framkvæmdaráði og bæjarráði. þeir telja að nú þegar sinni frístundabíllinn fyrir 1. – 4. bekk því hlutverki að jafna aðgengi barna og ungmenna að tómstunda- og íþróttastari í bæjarfélaginu. Auk þess segir meirihlutinn að nú þegar séu fargjöld í strætó lág fyrir börn og ungmenni og þau ættu því að ekki að vera hamlandi þegar kemur að nýtingu á strætó innan bæjarins.  

Aukin nýting almenningssamgangna styðji við umhverfissjónarmið 

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarráði og umhverfis- og framkvæmdaráði, bæjarfulltrúarnir Adda María Jóhannsdóttir og Friðþjófur Helgi Karlsson, mótmæltu ákvörðun meirihlutans með bókunum. Í þeim lýstu þau yfir vonbrigðum með að fulltrúar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefðu ekki áhuga á að skoða mögulega útfærslu tillögunnar. Í bókun Samfylkingarinnar í bæjarráði kom m.a. eftirfarandi fram; „Fulltrúi Samfylkingarinnar tekur undir og ítrekar bókun sem lögð var fram af fulltrúa Samfylkingarinnar í umhverfis- og framkvæmdaráði og lýsir vonbrigðum með að ekki sé vilji til að skoða möguleika á útfærslu að niðurgreiðslu á strætókortum til barna og ungmenna. Sú aðgerð er mikilvægt skref í að auka aðgengi að tómstundum ásamt því að stuðla að aukinni notkun á almenningssamgöngum og styðja þar með við umhverfissjónarmið,” segir m.a. í bókun Öddu Maríu í bæjarráði sl. fimmtudag. Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: