Tekist á um gjaldskrárhækkanir

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, telur mikilvægt að Hafnarfjörður styðji við lífskjarasamningana og hækki ekki gjaldskrár umfram 2,5%.

Á fundum umhverfis- og framkvæmdaráðs og fjölskylduráðs í þessari viku bókuðu fulltrúar meiri- og minnihluta á víxl um gjaldskrárhækkanir í fjárhagsáætlun næsta árs. Fulltrúar Samfylkingarinnar lýstu yfir vonbrigðum með að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra ætlaði að virða að vettugi tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga um að hækkanir á gjaldskrám á næsta ári væru ekki umfram 2,5%.

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í umhverfis- og framkvæmdaráði, bókaði á þá leið að hann teldi mikilvægt að gjaldskrárhækkanir væru ekki umfram 2,5% líkt og Samband íslenskra sveitarfélaga beindi til sveitarfélaganna í tengslum við gerð lífskjarasamninganna. Í bókuninni sagði líka; „Mikilvægt er að stutt sé við þá samninga og hækkanir á gjaldskrám sveitarfélagsins og þar með talin hækkun á leigu í félagslega íbúðakerfinu hér í Hafnarfirði verði ekki umfram þau 2,5% sem samþykkt var í tengslum við fyrrnefnda lífskjarasamninga.” Einnig hefur komið fram í umræðunni að leigan hækkaði um 10% í maí á þessu ári. 

Tillögur Samfylkingar og Miðflokks felldar í fjölskylduráði 

Árni Rúnar Þorvaldsson fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði.

Á fundi fjölskylduráðs voru tillögur Samfylkingarinnar og Miðflokksins um að hætta við fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir felldar af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækki um 24,5% og að akstursþjónusta fyrir aldraða hækki um rúmlega 100% á næsta ári. Fyrir þjónustuþega sem nýtir alla þá þjónustu sem í boði er þýðir þetta að gjaldskráin í heild hækkar um 14%. Í bókun Árna Rúnars Þorvaldssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í fjölskylduráði kemur m.a. fram; „Samfylkingin harmar að fjölskylduráð skuli ekki taka mið af tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga um að gjaldskrár hækki ekki umfram 2,5% á næsta ári til að leggja sitt af mörkum til lífskjarasamninganna.” Fulltrúi Viðreisnar sat hjá við afgreiðslu tillagna Samfylkingar og Miðflokks. Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: