Leiga félagslegra íbúða hækkar um 21%

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, gagnrýndi gjaldskrárhækkanir sem boðaðar eru í fjárhagsáætlun næsta árs.

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fer fram í bæjarstjórn í dag. Í umræðunni kom fram að leiga á félagslegum íbúðum muni hækka um 21% á næsta ári. Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, vakti athygli á þessu í ræðu sinni. Samfylkingin lagði fram tillögu um að fallið verði frá gjaldskrárhækkunum umfram það sem mælst er til í tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga. 

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, ræddi það sem hún telur ranga forgangsröðun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra í ræðu sinni um fjárhagsáætlun í dag.  Í stað þess að fullnýta útsvarið þá hefði meirihlutinn ákveðið að auka álögur á aldraða og öryrkja og leigjendur í félagslega íbúðakerfinu. Hún sagði meirihlutann hygla þeim efnameiri með því að fullnýta ekki útsvarið á sama tíma og verið er að sækja aukna fjármuni í vasa aldraðra og öryrkja. Til þess að bregðast við þessu og til þess að reyna að breyta forgangsröðun bæjarstjórnar þá lagði Samfylkingin fram fyrrnefnda tillögu um að fallið yrði frá þessum gjaldskrárhækkunum sem og tillögu um að fullnýta útsvarið. 

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir næsta ár stendur nú yfir í bæjarstjórn. Tvær umræður eru í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun. Síðari umræða mun fara fram um miðjan desember þar sem bæjarstjórn mun taka endanlega afstöðu til fjárhagsáætlunarinnar og þeirra tillagna sem lagðar eru fram í tengslum við fjárhagsáætlun.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: