Miðbæjarskipulagið: íbúasamráð grundvallaratriði

Það er mikilvægt að vernda hjarta bæjarins og bæjarmyndina, segir fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði.

Á fundi skipulags- og byggingaráðs í dag bókaði fulltrúi Samfylkingarinnar að hefja bæri ferlið við endurskoðun miðbæjarskipulagsins á nýjan leik þar sem áhersla verði á virkt og opið íbúasamráð frá upphafi. Fulltrúar Bæjarlistans og Viðreisnar tóku undir það á fundinum. Fulltrúar meirihlutans minntu á að drög að skýrslu starfshóps um skipulag miðbæjarins lægju til umsagnar á vef Hafnarfjarðarbæjar og að umsagnarfrestur væri til 4. október 2019. 

Frá því drög að skýrslu starfshóps um skipulag miðbæjarins birtust á vef Hafnarfjarðar þann 20. ágúst sl. hefur mikil umræða farið fram um innihald hennar. Á íbúafundi sem haldinn var 17. september kom fram veruleg gagnrýni á þær hugmyndir sem er að finna í skýrslunni. Fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn hafa sagt að um misskilning sé að ræða og ekki standi til að byggja á þeim hugmyndum sem mest hefur verið rætt um eftir að drög að skýrslunni voru birt. 

Rétt að hefja ferlið á nýjan leik 

Einar Pétur Heiðarsson, varafulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði

Einar Pétur Heiðarsson, varafulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði, segir að í svona veigamiklum málum sé íbúasamráð algjört grundvallaratriði. „Við í Samfylkingunni leggjum mikla áherslu á samráð og samtal við íbúa í stórum skipulagsmálum. Því miður virðist hafa tekist þannig til með þessa vinnu að skynsamlegra er að hefja ferlið upp á nýtt. Ég held að fólk muni eiga erfitt með að treysta ferlinu ef haldið verður áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það er líka algjör forsenda þess að vel takist til að vinnan njóti trausts íbúanna. Mín sýn er sú að við eigum að byrja á því að leita til íbúanna með opnum vinnufundum og sjá hvaða áherslur koma þar fram og svo væri það verkefni kjörinna fulltrúa að taka afstöðu til þeirra hugmynda og leita svo í framhaldinu til fagaðila um að útfæra hugmyndir íbúa. Við verðum einfaldlega að vanda okkur í þessari vinnu því það er svo mikið undir, sjálft hjarta bæjarins og bæjarmyndin. Þess vegna bókaði ég á fundi ráðsins í dag og hvatti til þess að ferlið yrði hafið á nýjan leik með það að markmiði að virkt og opið íbúasamráð yrði í forgrunni vinnunnar frá upphafi,” sagði Einar Pétur Heiðarsson í samtali við vefinn um þetta stóra mál sem hefur svo sannarlega hreyft við íbúum. Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: