Gjótur – höfnuðu tillögu um kynningarfund

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í skipulags- og byggingaráði, harmar að meirihlutinn hafi ekki samþykkt tillögu um opinn íbúafund.

Meirihlutinn í skipulags- og byggingaráði hafnaði tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar og Viðreisnar um að halda kynningarfund vegna deiliskipulagstillögu fyrir Gjótur á Hraunum. Þeir telja að deiliskipulagstillagan víki það mikið frá fyrirliggjandi rammaskipulagi að mikilvægt sé að bærinn haldi kynningarfund svo íbúar geti kynnt sér málið frá fyrstu hendi og tekið upplýsta afstöðu til tillögunnar. Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði harmar að meirihlutinn hafi ekki fallist á að halda kynningarfund um málið og stuðla þannig að virku íbúalýðræði í bænum. 

Á fundi bæjarstjórnar í maí var samþykkt að vísa deiliskipulagstillögu fyrir uppbyggingu á reit sem liggur að Reykjavíkurvegi, Hjallahrauni og Helluhrauni í lögbundið kynningarferli. Um er að ræða reit á svæði sem nefnt er Hraun vestur og hefur stundum verið nefnt fimm mínútna hverfið vegna nálægðar sinnar við almenningssamgöngur og alla þjónustu. 

Umsagnarfrestur framlengdur og mikilvægt að kynna málið vel 

Umsagnarfrestur hefur verið framlengdur til 23. september og telur Stefán Már Gunnlaugsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulagsráði og varabæjarfulltrúi, fulla ástæðu til að nota tímann til að kynna málið vel fyrir bæjarbúum. Við töldum víst að meirihlutinn myndi vilja kynna málið betur fyrir bæjarbúum í ljósi áherslu hans á virkt íbúasamráð. En því miður sá meirihlutinn ekki ástæðu til þess að nýta tækifærið og kynna það betur fyrir bæjarbúum. Ekki síst vegna þess að svo virðist sem deiliskipulagstillagan víki verulega frá fyrirliggjandi rammaskipulagi sem samþykkt hefur verið fyrir svæðið,” sagði Stefán Már um stöðu málsins núna. 

Samráð við íbúa og mikilvægt að skerða ekki lífsgæði þeirra sem fyrir eru 

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Stefán Már minnir á að mikil og vönduð undirbúningsvinna hefur farið fram vegna framtíðaruppybyggingar á þessu svæði og þetta sé mjög spennandi verkefni. Hraun vestur er spennandi þéttingarverkefni hér í Hafnarfirði og það skiptir miklu máli að vel takist til með skipulagið og uppbygginguna á svæðinu. Þess vegna er svo mikilvægt að við vöndum okkur sérstaklega í þessari deiliskipulagsvinnu. Þessi tillaga mun vera fordæmisgefandi fyrir aðrar fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. Og við í Samfylkingunni leggjum áherslu á lýðræðislega þátttöku íbúa, aukið aðgengi fólks að ákvarðanatöku og samráði við íbúa áður en ákvarðanir eru teknar og viljum ekki að þétting byggðar skerði lífsgæði þeirra íbúa sem fyrir eru,” segir Stefán Már. 

Að lokum hvetur Stefán Már alla bæjarbúa til þess að kynna sér skipulagsbreytingarnar á vef Hafnarfjarðarbæjar. Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: