Frítt í sund fyrir yngri en 18 ára frá næstu áramótum?

Sigrún Sverrisdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði og varabæjarfulltrúi, vonast til þess að frítt verði í sund frá næstu áramótum fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri.

Á fundi bæjarstjórnar þann 12. desember 2018, við síðari umræðu um fjárhagsáætlun þessa árs, lagði Samfylkingin til að ungmgmennum að 18 ára aldri yrði gefinn kostur á að nýta sér sundlaugar bæjarins þeim að kostnaðarlausu. Fræðsluráð hefur nú samþykkt tillöguna þannig að frítt verði í sund fyrir yngri en 18 ára frá næstu áramótum og jafnframt vísað henni til fjárhagsáætlunarvinnu næsta árs í bæjarstjórn. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði fagnar því að tillagan hafi verið samþykkt í ráðinu og vonast til þess að bæjarstjórn muni einnig samþykkja tillöguna við gerð fjárhagsáætlunar. 

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhóps í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem lengi hefur fylgst með heilsu, svefni og andlegri líðan íslenskra ungmenna, kemur m.a. fram að töluvert dregur úr hreyfingu hjá 15 – 17 ára unglingum. Sigrún Sverrisdóttur, fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði, segir að í ljósi þessara upplýsinga hafi m.a. verið ákveðið að leggja tillöguna fram í bæjarstjórn. „Við vildum hvetja ungt fólk til hreyfingar og töldum það vænlega leið að bjóða því frítt í sund. Rannsóknir sýna að það dregur úr hreyfingu hjá 15 – 17 ára unglingum og við töldum mikilvægt að bregðast við þeim upplýsingum. Þess vegna ákváðum við í Samfylkingunn að leggja það til að þau gætu nýtt sér sundlaugar bæjarins gjaldfrjálst,“ segir Sigrún um ástæður þess að tillagan var lögð fram. 

Boltinn hjá bæjastjórn 

Sigrún Sverrisdóttir, varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í Fræðsluráði.

Nú liggur málið hjá bæjarstjórn sem á eftir að taka afstöðu til þess í tengslum við fjárhagsáætlun næsta árs. Sigrún vonar að það verði staðið við að börn og ungmenni fram að 18 ára aldri fái frítt í sund frá næstu áramótum. „Nú er fræðsluráð búið að samþykkja tillögu okkar fyrir sitt leyti og vísa henni til bæjarstjórnar. Ég á ekki von á öðru en að bæjarstjórn muni taka við boltanum frá fræðsluráði og samþykkja tillöguna. Samfylkingin mun að minnsta kosti fylgja því fast eftir í fjárhagsáætlunargerðinni að tillagan verði staðfest til þess að tryggja það að frítt verði í sund fyrir ungmenni að 18 ára aldri strax í byrjun næsta árs. Hafnarfjörður á að standa undir nafni sem heilsueflandi og barnvænt samfélag og þess vegna leggjum við í Samfylkingunni áherslu á þetta mál,” segir Sigrún að lokum í samtali við vefinn. Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: