Bæjarstjórn samþykkir hækkun frístundastyrks

Adda María, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, er ánægð með hækkun frístundastyrks en gagnrýnir vinnubrögð meirihlutans.

Á fundi bæjarstjórnar í gær var samþykkt að hækka frístundastyrk barna og ungmenna um 500 kr. á mánuði. Nú er styrkurinn því 4.500 kr. á mánuði fyrir 6 – 18 ára ungmenni. Samfylkingin lagði til að frístundastyrkurinn yrði hækkaður við síðustu fjárhagsáætlunargerð, eða fyrir tæplega einu ári. Fjölskylduráð ákvað að hækkunin myndi ekki ná til frístundastyrks eldri borgara. Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn kveðst ánægð að tillagan hafi loks verið samþykkt en gagnrýnir hringlandahátt og seinagang meirihlutans í kringum ákvörðunina. 

Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 2019 þann 14. nóvember 2018 lagði Samfylkingin til að frístundastyrkur yrði hækkaður. Tillagan gerði ráð fyrir að styrkurinn myndi hækka a.m.k. til jafns við nágrannasveitarfélögin. Hafnarfjörður hafði dregist aftur úr nágrannasveitarfélögum og því var tillagan lögð fram. Einnig var minnt á að árið 2002 ákvað Hafnarfjörður, fyrst sveitarfélaga á landinu, að byrja með frístundastyrk fyrir börn og ungmenni og síðan hafa mörg sveitarfélög í landinu fylgt fordæmi bæjarins. 

Bæjarstjórn – fræðsluráð – bæjarstjórn – fræðsluráð – fjölskylduráð – fræðsluráð – bæjarstjórn

Bæjarstjórn vísaði tillögu Samfylkingarinnar til umræðu í fræðsluráði. Þar var tillagan samþykkt samhljóða þann 5. desember 2018. Babb kom hins vegar í bátinn þegar bæjarstjórn sneri samþykkt fræðsluráðs við á næsta fundi. Þegar málið kom aftur til umræðu í fræðsluráði í upphafi árs 2019 var því vísað til umsagnar í fjölskylduráði. Fjölskylduráð ályktaði að frístundastyrkur eldri borgara ætti að vera í samræmi við frístundastyrk barna og ungmenna og ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins fram á mitt ár. Málið kom svo ekki aftur til umræðu í fræðsluráði fyrr en 14. ágúst sl. og þá endurflutti ráðið samþykkt sína frá 5. desember 2018 og samþykkti hækkunina aftur. Tveimur dögum seinna ákvað fjölskylduráð hins vegar hækka ekki tómstundastyrk eldri borgara og gekk þar með gegn fyrri samþykkt sinn um að hann ætti að vera til samræmis við frístundastyrk barna og ungmenna. Af því tilefni bókaði fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði að Samfylkingin myndi leggja til hækkun á tómstundastyrk eldri borgara við gerð næstu fjárhagsáætlunar til samræmis við hækkunina sem nú hefur verið samþykkt fyrir börn og ungmenni. 

Ánægð með samþykktina þrátt fyrir hringlandahátt meirihlutans 

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, segir að það sé ánægjuefni að loksins sé búið að samþykkja hækkun frístundastyrksins en gagnrýnir vinnubrögð meirhlutans í málinu og minnir á uppruna frístundastyrksins og sögu hans í Hafnarfirði. „Þessi stuðningur við börn og ungmenni í formi frístundastyrks á sér mikla sögu í Hafnarfirði vegna þess að við vorum fyrsta sveitarfélagið til að fara af stað með hann árið 2002 þegar Samfylkingin tók við stjórnartaumunum. Við eigum þess vegna að hafa metnað til þess að gera vel í þessum málum og styðja við bakið og börnum og ungmennum í skipulögðu æskulýðs – og tómstundastarfi. Um leið og við fögnum því auðvitað að þetta mál er loksins komið á leiðarenda í bæjarkerfinu þá gagnrýnum við hversu langan tíma þetta hefur tekið og þann hringlandahátt sem verið hefur á málinu hjá meirihlutanum. Við munum svo fylgja því eftir við næstu fjárhagsáætlunargerð að frístundastyrkur eldri borgara verði hækkaður til samræmis. Hvað sem seinagangi og einkennilegum vinnubrögðum meirihlutans líður í þessu máli, þá er ánægjulegt að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra hafi loksins séð ljósið og samþykkt tillögu okkar,” segir Adda María oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: