Skuldahlutfall Hafnarfjarðar hækkar í fyrsta sinn frá hruni

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar segir það áhyggjuefni að á sama tíma og vísbendingar séu um kólnun hagkerfisins skuli skuldir bæjarsjóðs hækka.

Í bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar við afgreiðslu ársreiknings 2018 kemur fram að skuldir Hafnarfjarðar jukust á síðasta ári. Hlutfall skulda hefur lækkað stöðugt frá hruni en hækkar nú í fyrsta sinn á milli ára. Rekstrarniðurstaða síðasta árs var um 200 milljónum króna lakari en ársins þar á undan. Oddviti Samfylkingarinnar hefur áhyggjur af þessari þróun þar sem bærinn hefur skuldbundið sig til mikilla fjárfestinga og vegna vísbendinga um kólnun í hagkerfinu.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi var ársreikningur 2018 tekinn til afgreiðslu. Í umræðum um ársreikninginn bentu fulltrúar Samfylkingarinnar á að skuldir bæjarins hefðu aukist og í  fyrsta sinn frá hruni hefði skuldahlutfall bæjarins hækkað á milli ára. Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar kemur fram að heildarskuldir og skuldbindingar hækka um 3 milljarða og handbært fé lækkar mikið á milli ára.

Tekjur af lóðasölu standa ekki undir framkvæmdum

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn segir það áhyggjuefni að skuldir séu að aukast hjá bænum á sama tíma og vísbendingar séu um kólnun í hagkerfinu. „Skuldaaukningin á sér vissulega ákveðnar skýringar en það vekur athygli hlutfall skulda fer hækkandi þrátt fyrir að skatttekjur hafi aukist. Við skulum einnig vera minnug þess að fjárhagsáætlun síðasta árs bar þess skýr merki að vera kosningafjárhagsáætlun. Miklu var lofað þar sem gífurlegum fjárfestingum var stillt upp sem munu binda hendur bæjarfélagsins til margra ára. Gert hafði verið ráð fyrir tekjum af lóðasölu á móti þeim framkvæmdum sem lagt var upp með en það hefur ekki gengið eftir eins og til stóð og er lóðasala um 1,5 milljarði undir því sem upphaflega var áætlað. Vísbendingar um kólnun í hagkerfinu á sama tíma og skuldir bæjarins aukast eru því sannarlega áhyggjuefni,“ segir Adda María að lokum um ársreikning síðasta árs hjá Hafnarfjarðarbæ.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: