Óþarfa áhætta tekin með ferðaþjónustu fatlaðs fólks

Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði, vill að bæjarstjórn endurskoði ákvörðun Fjölskylduráðs um ferðaþjónustu fatlaðs fólk.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði greiddi atkvæði gegn því að Hafnarfjörður dragi sig út úr samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um rekstur ferðaþjónustu fatlaðs fólk. Meirihlutinn í Fjölskylduráði, með stuðningi Miðflokksins, samþykkti þetta á síðasta fundi sínum og áheyrnarfulltrúar Viðreisnar og Bæjarlistans lýstu yfir stuðningi við ákvörðunina. Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði, telur ákvörðunina misráðna þar sem engin trygging er fyrir því að Hafnarfirði muni bjóðast betri kjör. Árni telur skynsamlegra að halda áfram að þróa og efla þjónustuna í samstarfi við hin sveitarfélögin fremur en að taka óþarfa áhættu með þessa mikilvægu og viðkvæmu þjónustu.

Aukin og bætt þjónusta markmiðið með samvinnunni – ekki sparnaður

Þegar ákveðið var árið 2014 að hefja samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu með ferðaþjónustu fatlaðs fólks var meginmarkmiðið að auka öryggi þjónustunnar, auka þjónustuna og bæta hana. Eftir byrjunarerfiðleika hjá Strætó á fyrstu árum samstarfsins hefur ánægja notenda með þjónustuna aukist og mikil þekking og reynsla hefur byggst upp hjá Strætó á. Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði, telur ákvörðun meirihlutans illa ígrundaða og að forsendur hennar séu rangar. „Að mínu mati á Hafnarfjörður að halda áfram í samstarfinu við hin sveitarfélögin um þessa viðkvæmu og mikilvægu þjónustu. Einhver hugsanlegur fjárhagslegur ávinningur sem meirihlutinn telur sig geta náð fram með þessu er ekki nægjanlega sterk forsenda fyrir þessari stefnubreytingu. Meginmarkmiðið með samstarfinu á sínum tíma var að efla, auka og bæta ferðaþjónustuna fyrir fatlað fólk. Markmiðið var ekki að spara peninga. Ég óttast að það sé megindrifkrafturinn á bakvið ákvörðun meirihluta Fjölskylduráðs núna, að spara peninga en ekki að bæta þjónustuna“, segir Árni Rúnar Þorvaldsson um ákvörðun Fjölskylduráðs á föstudaginn. Bæjarstjórn mun taka endanlega ákvörðun um málið á fundi sínum á morgun, miðvikudag. Árni Rúnar vonast til þess að bæjarstjórn muni endurskoða ákvörðunina. „Já, ég er þeirrar skoðunar að bæjarstjórn eigi vanda til verka í svona mikilvægu máli og meta allar forsendur þessarar ákvörðunar með sjálfstæðum hætti“.

Ekkert samráð við notendur þjónustunnar

Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði.

Árni Rúnar gerir einnig alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð meirihlutans í málinu. „Ekkert samráð hefur verið haft við notendur í Hafnarfirði um þessa afdrifaríku ákvörðun sem getur haft veruleg áhrif á daglegt líf fjölda fatlaðs fólks í bænum. Engin þjónustukönnun hefur verið gerð á vegum bæjarins til þess að leggja mat á það hvað það er í þjónustunni sem við viljum bæta eða til að kanna hug notenda til þjónustunnar í dag. Bærinn hefur heldur ekki lagt neitt sjálfstætt mat á það hvort honum muni bjóðast betri kjör heldur í útboði á eigin vegum og ekkert hefur enn komið fram sem sannfærir mig um að það verði hægt að bjóða upp á sömu þjónustu fyrir minni peninga, hvað þá ennþá betri þjónustu en nú er í boði. Þetta er alvörumál sem skiptir margt fólk miklu máli og því ber að vanda svona afdrifaríkar ákvarðanir. Það hefur ekki verið gert í þessu máli að mínu mati. Eftir sem áður verður það þjónustan við notendur, öryggi og gæði hennar, sem verður leiðarljós okkar í Samfylkingunni. Það verður ekki gefinn neinn afsláttur á því sjónarmiði hvort sem reksturinn verður á eigin vegum eða ekki. Samfylkingin mun ekki sitja þegjandi undir því ef sá sparnaður sem meirihlutinn telur sig geta náð fram kemur niður á þjónustustiginu. Það munum við ekki sætta okkur við“, segir Árni Rúnar að lokum í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: