Ungmennahús opnað á nýjan leik

Margrét Gauja Magnúsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, gleðst yfir því að búið að sé að opna ungmennahús á nýjan leik í bænum.

Í síðustu viku var ungmennahús opnað á nýjan leik í Hafnarfirði í gömlu skattstofunni á Suðurgötu. Árið 2003 var ungmennahús opnað í gamla bókasafninu en síðar færðist starfsemin upp í Setberg. Árið 2016 var starfsemi ungmennahúss hætt. Í upphafi árs 2018 ályktaði ungmennaráð Hafnarfjarðar um mikilvægi ungmennahúss. Minnihlutinn í bæjarstjórn hafði þá mótmælt lokuninni harðlega og lagt fram tillögu um undirbúning opnunar ungmennahúss í gömlu skattstofunni. Þeirri tillögu var hafnað af þáverandi meirihluta í bæjarstjórn. Fyrrum bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fagnar því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nú loksins snúið við blaðinu og lagst á sveif með Samfylkingunni og öðrum flokkum sem barist hafa fyrir tilurð ungmennahúss í bænum.

Árið 2003 var opnað samfélagshús í gamla bókasafninu og var það ekki síst að þakka áhuga og frumkvæði Stefáns Karls Stefánssonar heitins. Hugmyndin var sú að þar gæti verið samkomustaður fyrir ungt fólk í samfélaginu sem væri að fóta sig í lífinu. Þar gæti það komið saman, myndað tengsl við önnur ungmenni og fundið hugmyndum sínum farveg. Sú starfsemi samræmdist mjög vel hugmyndafræðinni um ungmennahús. Síðar færðist starfsemin upp í Setberg og var ungmennahús starfrækt þar til ársins 2016 þegar þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar ákvað að loka því. 

Lokunin mikið óheillaskref

Margrét Gauja Magnúsdóttir, sem var bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði frá 2006 – 2018, taldi það mikið óheillaskref þegar starfseminni var hætt árið 2016 og hún ásamt félögum hennar í bæjarstjórn mótmælti lokuninni ákaft. „Það er auðvitað ánægjulegt að það sé verið að endurvekja starfsemi ungmennahúss í gömlu skattstofunni og það er algjörlega í samræmi við þá tillögu sem við í Samfylkingunni ásamt VG lögðum fram til fjárhagsáætlunar 2018 en var hafnað af þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar,“ sagði Margrét Gauja í samtali við vefinn.

Baráttan skilaði sér

Margrét Gauja Magnúsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi og núverandi hótelstýra á Hótel Skaftafelli í Freynsnesi Öræfum.

Margrét Gauja bendir á að starfsemi ungmennahúss megi rekja allt aftur til ársins 2003 í Hafnarfirði. „Þetta er að mínu mati mjög mikilvæg starfsemi í samfélagi eins og Hafnarfirði og það er brýnt að krakkar eldri 16 ára eigi sér samastað í bænum – eins konar griðastað. Þess vegna urðu það okkur í minnihlutanum á síðasta kjörtímabili gríðarleg vonbrigði þegar ungmennahúsinu var lokað 2016. Við mótmæltum því harðlega fyrir daufum eyrum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar. En í dag fögnum við því að barátta okkar hefur skilað árangri og það er von mín og vissa að starfsemin eigi eftir að blómstra á þessum nýja stað í bænum enda metnaðarfólk sem mun stýra starfseminni sem ég hef mikla trú á. Ég segi bara; til hamingju Hafnarfjörður,“ segir Margrét Gauja að lokum í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: