Hækkun frísundastyrkja: Fræðsluráð að engu haft

Tillaga um hækkun frístundastyrks hefur velkst um í bæjarkerfinu undanfarna mánuði. Tafir og hringlandaháttur, segir fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

Við fjárhagsáætlunargerð síðasta haust lagði Samfylkingin til að frístundastyrkir barna og ungmenna yrðu hækkaðir a.m.k. til jafns við nágrannasveitarfélögin. Tillögunni var vísað til fræðsluráðs. Á fundi fræðsluráðs þann 5. des. 2018 samþykkti ráðið einróma að frístundastyrkurinn hækkaði úr 4.000 kr. á mánuði í 4.500 kr. eða um 6.000 kr. á ári. Á bæjarstjórnarfundi sjö dögum seinna lagði formaður fræðsluráðs til að málinu yrði vísað aftur til fræðsluráðs til kostnaðargreiningar og frekari úrvinnslu. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði telur málsmeðferð meirihlutans einkennast af hringlandahætti sem kunni að stafa af takmörkuðum vilja meirihlutans á að tillögur frá Samfylkingunni nái fram að ganga.

Á síðasta fundi fjölskylduráðs kom hækkun frístundastyrks til eldri borgara til umræðu. Fræðsluráð hafði vísað málinu til umsagnar hjá fjölskylduráði enda hafði fjölskylduráð fyrir ári síðan samþykkt að frístundastyrkir fyrir eldri borgara ættu að fylgja þróun frístundastyrkja fyrir börn og ungmenni. Á fundinum ákvað meirihluti fjölskylduráðs að fresta ákvörðun í málinu fram á mitt ár. Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, lagði fram bókun á fundinum þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum yfir því að málinu hafi ekki verið lokið á fundinum.

Hringlandaháttur og tafir

Árni rúnar Þorvaldsson fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði.

Árni Rúnar segir að hringlandaháttur hafi einkennt meðferð meirihlutans á málinu frá því Samfylkingin lagði tillöguna fram. „Það er einstaklega klaufaleg málsmeðferð að fræðsluráð samþykki einróma tillögu um 6.000 kr. hækkun á ársgrundvelli en svo leggi formaður fræðsluráðs til á næsta bæjarstjórnarfundi að málinu verði vísað aftur í ráðið  til frekari greiningar. Hvað gerðist í millitíðinni er erfitt að segja en það er helst að það læðist að manni sá grunur að það hafi runnið upp fyrir meirihlutanum að með þessu væri verið að samþykkja tillögu Samfylkingarinnar og það gengi ekki. Þess vegna hafi formanni fræðsluráðs verið falið að hafna sinni eigin samþykkt á bæjarstjórnarfundi.“

 

Hætta á því að hækkunin komi ekki til framkvæmda á þessu ári

Frá þeim tíma hefur málinu verið vísað til umsagnar í fjölskylduráði og Árni Rúnar segir að nú sé málið fast þar og áhersla lögð á að finna leiðir til þess að tefja það eins og hægt er. „Nú hefur fjölskylduráð ákveðið að fresta afgreiðslu málsins fram á mitt ár svo hægt verði að kanna svigrúmið til hækkana þá. Það staðfestir einfaldlega varnaðarorð bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar um að með því að hafa einróma samþykkt fræðsluráðs að engu þá væri engin trygging fyrir því að hækkun frístundastyrksins myndi taka gildi á þessu ári,“ segir Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði að lokum um málið.

 Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: