Grínuðust með að gefa út jólaplötu í mörg ár

Dúkkulísur og jólin. Fyrsta jólaplata Dúkkulísanna heitir Jól sko! og kom út núna fyrir jólin. 

Hljómsveitin Dúkkulísur ætti að vera öllum vel kunnug en hún hefur spilað og skemmt þjóðinni í rúm 30 ár og sungið sig inn í hjörtu landsmanna. Nú feta þær nýjar slóðir með fyrstu jólaplötu sinni sem heitir Jól sko! Bærinn okkar ræddi við Öddu Maríu Jóhannsdóttur, slagverksleikara hljómsveitarinnar, um tilurð plötunnar og jólin framundan.

,,Þetta er búið að vera mikil törn, en skemmtileg. Við héldum tvenna tónleika, eina fyrir austan og eina hér í Hafnarfirði og svo erum við búnar að vera að spila hér og þar á alls konar jóla-uppákomum og jóla-hlaðborðum.“ segir Adda María.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að gefa út jólaplötu?

,,Upphafið má líklega rekja til þess að við vorum beðnar, fyrir um 10 árum síðan, að semja jólakveðju fyrir fyrirtæki á Austurlandi sem sendir viðskiptavinum sínum alltaf jólakveðju, og þá lítinn lagstúf. Við höfðum áður gert sumarkveðju fyrir fyrirtækið og vorum nú beðnar um að setja saman jólakveðju. Börkur Vígþórsson, félagi stelpnanna að austan, hefur haft þann sið að láta frumsamin ljóð fylgja í jólakortum fjölskyldunnar ár hvert. Við höfðum samband við hann og báðum um leyfi fyrir því að nota eitt af þessum ljóðum hans og semja við það lítið lag.

Það var svo einhvern tímann eftir þetta sem trommuleikarinn okkar, hún Gugga, stakk upp á því að við gæfum út jólaplötu. Og við hlógum bara fyrst að þessari hugmynd þá. En hún sáði einhverju fræi þarna. Það var svo fyrir tveimur árum, í desember árið 2016, að við hittumst allar í jólaboði, en það gerum gerum við árlega, og fórum þá að ræða þetta og hvort við ættum ekki að prófa að halda jólatónleika. Við vorum nú ekki allar sannfærðar í byrjun, en tókum þessa ákvörðun og úr varð að við skyldum halda jólatónleika árið á eftir.

Þá var ekki aftur snúið og við hófumst strax handa. Í janúar 2017 funduðum við um hvað við vildum gera, hlustuðum á jólalög sem við héldum upp á og langaði til að spila og þar fram eftir götunum. Snemma kom það upp að okkur langaði að gefa út okkar eigið jólalag, sem við gerðum og fengum Pálma Gunnarsson til þess að syngja það með okkur. Þetta er lagið Frostnótt sem kom út fyrir jólin 2017 ásamt laginu Það koma kannski jól, sem er ábreiða. Kristján Hreinsson íslenskaði fyrir okkur texta við Pretenders lag sem við höldum mikið upp á. Við héldum svo jólatónleika jólin 2017 fyrir austan og í bænum og fengum góð viðbrögð sem hvatti okkur til að halda aðra tónleika í ár. Og þar sem fleiri lög fæddust í ferlinu ákváðum við bara að gefa út plötu.“

Svo þetta hefur verið langur aðdragandi?

,,Já, í raun, og svo hefur þetta undið upp á sig. Neistin kviknaði þegar við vorum beðnar um að gera þessa jólakveðju, og svo þróaðist þetta. Þannig að þetta var langur meðgöngutími. En hér erum við tíu árum seinna og alveg rosalega ánægðar með þetta. Við erum í raun búnar að vera að spila jólalög í tvö ár samfleytt. Þessu hafa fylgt fundir, æfingar og auðvitað upptökur. Við tókum öll lögin upp í Hofi, á Akureyri hjá Þorvaldi Bjarna. Þar er alveg súper aðstaða, og hann náttúrulega mikill snillingur. Svo tókum við upp myndband við titillag plötunnar, Jól sko, nú í byrjun desember, sem er komið í dreifingu á youtube. Þetta er búið að vera mikið ævintýri og við erum ánægðar með afraksturinn og stoltar af þessari plötu okkar.“

Platan kemur út á bæði geisladisk og vínyl, hvers vegna tókuð þið þá ákvörðun?

,,Fyrst töluðum við nú um að gefa bara út á vínyl. Okkur fannst það einhvern veginn passa svo vel við okkur. Við erum auðvitað af vínyl kynslóðinni og fyrstu plötur Dúkkulísanna komu út á vínyl. Svo hefur orðið ákveðið “come-back“ í plötuspilurum og fólk farið að grafa upp gamla spilara eða fjárfesta í nýjum. Að endingu ákváðum við þó að gefa út á geisladisk líka. Á plötunni eru sex lög, þrjú frumsamin og þrjár ábreiður sem hafa fengið íslenska texta.“

Hvernig gekk svo að spila fyrir austan?

Dúkkulísur á sviði.

,,Það gekk vel. Það er alltaf gaman að koma austur. Dúkkulísurnar eru náttúrulega þaðan og alltaf skemmtileg stemmning sem fylgir heimsóknum þangað. Þar tókum við upp myndband við titillagið á plötunni. Og það er reyndar saga að segja frá því. Við komum austur í lok nóvember, og rétt sluppum með síðustu vél áður en skall á stormur.  Umboðskonan okkar komst ekki austur fyrr en tveimur dögum síðar því það lá bara allt flug niðri. Við vorum alveg miður okkar því það var bara rok og rigning á Egilsstöðum og alls ekkert jólalegt úti og við sáum ekki fram á hvernig við ættum að geta gert jólamyndband. Við tókum því á það ráð að heita á allar góðar vættir um kvöldið og biðja um snjó. Svo þegar við vöknuðum morguninn eftir þá var farið að snjóa, og það hætti ekki að snjóa í fjóra daga. Okkur tókst því að taka upp jólalegt myndband eftir allt saman og hlæjum að því að þegar sjö konur taka höndum saman þá er allt hægt, líka stjórna veðrinu.

En það runnu á okkur tvær grímur þegar kom að tónleikadeginum þar sem eitthvað af fólki var veðurteppt og komst ekki á tónleikana sökum ófærðar og meira að segja Pálmi Gunnarsson var fastur á Akureyri og gat því ekki verið með okkur. En því var auðvitað bjargað af röggsemi og við fengum Árna Friðriksson, enskukennara við Menntaskólann á Egilsstöðum til að syngja með okkur, sem hann gerði svona ljómandi vel. Við grínuðumst nú með það á tónleikunum að þó við hefðum verið að biðja um snjó þá hefðum við ekki verið að biðja um alveg svona mikinn snjó. Áhyggjur okkar voru þó óþarfar því það var vel mætt í Valaskjálf og margir sem lögðu á sig ferð út í snjóinn og myrkrið til að koma á tónleikana okkar. Svo þetta tókst vel. Tónleikarnir okkar í Bæjarbíó í seinustu viku voru líka afskaplega vel heppnaðir. Það er alltaf gott að spila þar og stemmningin var góð. Og við erum ótrúlega þakklátar öllum þeim sem hafa komið og hlustað á okkur og viðbrögðin sem við höfum fengið.

Áttu þér einhverja skrýtna jólahefð?

Adda María Jóhannsdóttir Dúkkulísa.

,,Jólin fyrir mér eru fyrst og fremst það að vera með fjölskyldunni minni, og hafa alla hjá mér sem mér þykir vænst um. Það er númer eitt, tvo og þrjú. Ég skreyti ekki mikið, vil aðalega hafa ljós og kerti, ekki mikið skraut. En það er eitt sem ég geri alltaf fyrsta desember. Þá pökkum við hjónin niður öllu matarstellinu okkar og tökum upp jólastellið. Þetta tekur svona hálfa dagstund. Svo drekkum við bara og borðum af jólastellinu allan desember og skiptum því svo aftur út eftir þrettándann. Þetta er siður sem mamma mín kom mér upp á og okkur finnst alveg ómissandi.“

 Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: