Frítt í sund fyrir yngri en 18 ára?

Samfylkingin lagði til á síðasta fundi bæjarstjórnar að frítt yrði í sund fyrir yngri en 18 ára.

Tillögu Samfylkingarinnar um að frítt verði í sund fyrir alla að 18 ára aldri var vísað til fræðsluráðs á síðasta fundi bæjarstjórnar. Markmið tillögunnar er að koma til móts við niðurstöður rannsókna sem sýna að töluvert dragi úr hreyfingu ungmenna á aldrinum 15 – 17 ára og að styðja við markmið um heilsubæinn Hafnarfjörð. Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, vonast til þess að tillagan verði samþykkt sem fyrst.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu til við síðari umræðu fjárhagsáætlunar að frítt verði í sund fyrir yngri en 18 ára líkt og samþykkt hefur verið hjá Kópavogsbæ. Ástæðan er sú að samkvæmt nýbirtum niðurstöðum rannsóknarhóps í íþrótta – og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands kemur fram að töluvert dregur úr hreyfingu hjá 15 – 17 ára unglingum. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar telja að það yrði góð hvatning fyrir ungmenni til þess að stunda aukna hreyfingu ef boðið yrði upp á frítt í sund fyrir öll börn og ungmenni að 18 ára aldri.

Viljum hvetja til aukinnar hreyfingar

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, er ánægð með framgang tillögunnar og vonast til að hún verði samþykkt sem fyrst. „Það er ágætt að búið að sé að vísa tillögunni til frekari úrvinnslu í fræðsluráði og við vonum að fræðsluráð vinni hratt og örugglega þannig að þetta geti orðið að veruleika sem allra fyrst. Við viljum með þessari tillögu stuðla að aukinni hreyfingu hjá börnum og unglingum í Hafnarfirði. Eins og rannsóknir sýna þá dregur töluvert úr hreyfingu hjá 15-17 ára ungmennum og það er ekki síst þessi hópur sem við viljum reyna að ná til og hvetja til aukinnar hreyfingar. Við teljum að það að hafa frítt í sund fyrir þennan hóp sé góð hvatning og geti hjálpað til við að auka hreyfingu hjá þessum aldurshóp,“ segir Adda María í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: