Tillaga um hraðari fjölgun félagslegra íbúða felld í bæjarstjórn

Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði furðar sig á því að meirihlutinna hafi hafnað því að hraða fjölgun félagslegra íbúða.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði furðar sig á því að meirihlutinn hafi ekki séð ástæðu til þess að fjölga félagslegum íbúðum hraðar því biðlistinn er langur og margir í brýnni þörf. Meirihluti Sjálfstæðis – og Framsóknarflokks og óháðra felldi tillögu Samfylkingarinnar þess efnis og fulltrúar Miðflokks, Viðreisnar og Bæjarlistans sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Á fundi bæjarstjórnar 12. desember sl. lagði Samfylkingin fram tillögu um hraðari fjölgun félagslegra íbúða hjá bænum. Samkvæmt svörum við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingarinnar í fjölskylduráði eru 114 umsóknir á biðlista eftir félagslegu húsnæði og þar af eru 68 í brýnni þörf. Einnig hefur komið fram að í Hafnarfirði eru átta félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa á meðan landsmeðaltalið er 10,5 íbúðir á hverja þúsund íbúa. Í Reykjavík er þetta hlutfall mun hærra eða 15,5 íbúðir á hverja þúsund íbúa.

Fólk í brýnni þörf bíður eftir lausnum

Árni rúnar Þorvaldsson fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði.

Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, telur mikilvægt að þetta mál sé tekið föstum tökum af bæjaryfirvöldum. „Við jafnaðarmenn í bæjarstjórn teljum þetta algjört forgangsmál enda eru húsnæðismál eitt mikilvægasta velferðarmálið og það eru mannréttindi allra að eiga gott heimili. Það er sárt til þess að vita að börn og unglingar í bænum eigi jafnvel ekki öruggt athvarf og þvælist á milli íbúða, hverfa og bæja af efnahagslegum ástæðum. Það er algjörlega ljóst í mínum huga að það verður hraða fjölgun félagslegra íbúða. Margt fólk er í brýnni þörf og bíður eftir lausnum. Og við sjáum það að ef Hafnarfjörður myndi ná landsmeðaltalinu upp 10,5 íbúðir á hverja þúsund íbúa þá myndum við nokkurn veginn tæma núverandi biðlista hjá þeim sem teljast í brýnni þörf. Þess vegna vekur það furðu mína að meirihlutinn í bæjarstjórn hafi lagst gegn því að leggja aukið fjármagn í þessa uppbyggingu. Þar virðist meiri áhugi á að halda útsvari lágu sem eykur misskiptinguna í samfélaginu og veikir tekjustofna bæjarfélagsins en að bregðast við þeirri brýnu þörf sem blasir við í húsnæðismálum. Meiri tíma hefur verið varið í að ræða fundartíma bæjarstjórnar en húsnæðismál sem sýnir að mínu mati áherslur þessa meirihluta og erindisleysu hans,“ segir Árni Rúnar lokum um málið í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: