Kynntist Þórbergi og fékk brennandi áhuga á heimspeki

Eygló Jónsdóttir, rithöfundur og ljóðskáld, á góðri stundu við Hvaleyrarvatn.

Eygló Jónsdóttir var að gefa út ljóðabókina Áttun nú fyrir jólin. Hún hefur verið virk í samstarfshópi friðarhreyfinga í rúm 30 ár, er formaður búddistasamtakanna SGI, kennir ensku í Flensborg en kann ekki fyrir sitt litla líf að elda.

Hvar ólst þú upp?

,,Ég er fædd á Sólvangi og alin upp á Selvogsgötunni með Hamarinn í bakgarðinum og hef búið í Hafnarfirði lengstan hluta ævinnar. Ég gekk í Öldutúnsskóla og fór svo í Flensborg. Það er eitthvað ljóðrænt við það að maður skuli alltaf leita aftur heim því eftir kennaranámið fór ég að kenna fyrst í Öldutúnsskóla og síðan í Flensborg.“

Um hvað fjallar bókin þín?

Ljóðabók Eyglóar, Áttun, sem kom út fyrir skemmstu.

Ljóðabókin heitir Áttun og kom út nú í haust. Hún fjallar um ferðalög, bæði bókstafleg og huglæg. Bókin varð til á ferðalagi og í henni leyfi ég mér að kanna ókunnugt landslag og nýjar víddir í sjálfri mér. Bókin er nokkurs konar uppgjör mitt við erfiða lífsreynslu eftir bankahrunið, slys sem ég lenti í og erfið veikindi sem fylgdu í kjölfarið. Ég skrifaði hana sem hluta af lokaverkefni í meistaranámi mínu í ritlist.

Af hverju ákvaðstu að fara í meistaranám í ritlist?

Ég hef starfað sem kennari svo til alla mína starfsævi. Fyrst í grunnskóla en færði mig síðan yfir í framhaldsskóla árið 2001. Ég var alltaf með í huga að fara í meistaranám eftir grunnnám í KÍ og síðan í HÍ og leitaði reglulega að einhverju spennandi til að læra en fann aldrei neitt. Það var ekki fyrr en ég rak augun þetta nám að ég ákvað að sækja um námsleyfi.

Þetta var stórkostlegur tími og eiginlega ljúfsárt að klára námið. Ég hefði alveg viljað taka miklu fleiri áfanga. Þarna fann ég ljóðskáldið og rithöfundinn í mér upp á nýtt og hef verið að skrifa sleitulaust síðan. Þarna kynntist ég líka dásamlegu fólki sem margt hvert hefur látið verulega til sín taka á ritvellinum undanfarin misseri, og ekki síst dásamlegum kennurum. Þar á meðal kynntist ég Sigurði Pálssyni sem var annar leiðbeinandinn minn í meistaranáminu. Þessi maður var ekki bara stórkostlegt skáld, heldur hafði hann þannig nærveru og eldmóð fyrir því sem hann var að kenna að hver tími varð eins og ævintýri, stórkostlegt ferðalag um víddir ljóðsins og tilverunnar. Maður kom kannski dauðþreyttur í tíma en fór alltaf fullur af krafti og áhuga heim.

Hvernær kviknaði áhugi þinn á ljóðum og skáldskap?

Mamma hafði áhuga á ljóðum og fagurbókmenntum og hún las mikið fyrir okkur krakkana. Ég las síðan allt sem var til á heimilinu þegar ég var barn og unglingur, meira að segja Stríð og friður eftir Tolstoy. Ljóðformið hefur alltaf heillað mig og ég kann ennþá öll ljóðin úr gömlu skólaljóðunum sem við vorum látin læra utan að í skóla. Þegar ég les ljóð sem höfða til mín er það eins og að upplifa nýja töfra og dýpt í tilverunni.

Þegar ég var 15 ára fékk ég í hendurnar bókina Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson. Sú bók hafði gríðarleg áhrif á mig. Hún vakti upp áhuga minn á lífinu og tilverunni, bókmenntum, stjórnmálum og ekki síst andlegum málefnum. Eins og ég upplifði hann, þá var Þórbergur stöðugt að leita sannleikans í tilverunni, var alveg einstaklega einlægur og hafði mikinn húmor fyrir sjálfum sér. Ég drakk í mig allar bækurnar hans og varð síðan svo lánsöm að hitta sjálfan meistarann þegar ég var 16 ára gömul að vinna sem gangastúlka (eins og það var kallað þá) á Vífilstöðum.

Þórbergur var þá orðinn veikur en hann var meira en til í að spjalla við unglinginn um bækurnar sínar og ekki laust við að hann væri bara nokkuð upp með sér að einhver unglingsstelpa væri svona upprifin yfir skrifum hans. Á Vífilstöðum kynntist ég líka góðri vinkonu Þórbergs, Kristínu Guðmundardóttur, en Þórbergur skrifaði henni einmitt mörg bréf í gegnum tíðina. Þetta var mjög vel gefin og sköruleg kona sem gaman var að tala við. Þegar hún vissi um áhuga minn á verkum Þórbergs lánaði hún mér bunka af bréfum sem hann hafði skrifað henni. Þórbergur var með alveg einstaklega fallega og fíngerða rithönd sem auðvelt var að lesa svo ég þóttist heldur betur komin í feitt þegar ég fékk þennan fjársjóð í hendurnar. En stuttu eftir að Kristín lánaði mér bréfin dó hún á Vífilsstöðum. Ég var gjörsamlega miður mín, bæði að missa hana en einnig af ótta við að einhver myndi halda að ég hefði stolið bréfunum hans Þórbergs frá henni. Ég laumaðist með bréfin í vinnuna og tókst að koma þeim fyrir hjá öðrum hlutum, sem þessi öðlingskona skildi eftir sig, án þess að nokkur vissi af.

Þórbergur hefur þá haft mikil áhrif á þig?

Eygló les upp úr nýju bókinni sinni.

Já, og kynni mín af Þórbergi höfðu miklu víðtækari áhrif en bara varðandi bókmenntaáhugann. Hann kveikti þessa óslökkvandi löngun til að leita svara við heimspekilegum spurningum er varða lífið og tilveruna. Sú vegferð leiddi mig að heimspekikenningu búddismans sem kennd er við Lótus sútruna. Þarna fann ég kenningu sem boðaði helgi lífsins, jafnrétti, virðingu fyrir öllu lífi og umhverfinu og fjallaði um takmarkalausa möguleika allra manna til að birta sína jákvæðu eiginleika og hafa jákvæð áhrifi á umhverfi sitt. Ég kynntist þessari grein búddisma og búddistasamtökunum Soka Gakkai International, í London árið 1978 þegar ég dvaldi þar sem aupair. Það sem heillaði mig ekki síst við samtökin var að þau taka kjarnann úr kenningum búddismans og gera þær aðgegnilegar nútíma manninum. Soka Gakkai hefur skýrt og einfalt markmið, að vinna að friði og hamingju allra manna, óháð þjóðerni, kyni, kynhneigð eða hverju sem er. Og gera það í takt við það samfélag sem við búum í hvert og eitt okkar.

Eftir að ég kynnist þessari stórmerkilegu lífsspeki var ekki aftur snúið. Ég stofnaði samtök SGI á Íslandi þegar ég kom heim frá London, ásamt tveimur systrum mínum sem einnig heilluðust af þessari búddísku sýn á lífið. En þau hafa nú verið starfrækt í 38 ár og eru með menningarsetur á Laugarvegi 178. Þau málefni sem við höfum helst látið okkur varða eru friðar-, menntunar-, menningar- og umhverfismál.

Í hverju felst sú starfsemi?

SGI samtökin um allan heim hafa starfað með öðrum friðarhreyfingum í áratugi m.a. að útrýmingu kjarnorkuvopna. Við höfum átt gott og mikið samstarf með ICAN sem hlaut friðarverðlaunin Nóbels í fyrra og við erum aðildarsamtök að Sameinuðu þjóðunum.

Hér á Íslandi hefur SGI starfað með öðrum friðarhreyfingum til að vekja fólk til vitundar um friðar- og afvopnunarmál. Við tökum þátt í að undirbúa friðargönguna 23. desember og kertafleytinguna í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjanna í Hiroshima og Nagasaki ásamt samstarfshópi friðarhreyfinga. Og nú í haust vorum við með sýningu í Kringlunni sem heitir frá Stríðsmenningu til friðarmenningar í samvinnu við Friðardaga í Reykjavík og tókum þátt í málþingi Húmanista um hvort ,,betra samfélag væri mögulegt“.

Ég trúi því að friður geti orðið að veruleika. Það er hægt að finna leiðir til að leysa öll ágreiningsmál. Sumum gæti fundist þetta full mikil bjartsýni svona ef við skoðum ástandið í heiminum í dag. En eins og einhver sagði ,,það eru mennirnir sem sköpuðu þessi vandamál og því er það ekki ofar þeirra getu að leysa þau.“ Ofbeldi og stríð leysa engin vandamál þau skapa bara ný og valda þjáningu og dauða saklausra barna. Samræður á jafnréttisgrundvelli er leiðin að friði og áhrifamáttur einstaklingsins er gríðarlega mikilvægur. Það þarf stundum bara eina manneskju til að rísa upp og segja „nei, nú er nóg komið.“ Við þekkjum þetta úr sögunni frá fólki eins og Gandhi, Rósu Parks og Martin Luther King, sem öll hafa verið baráttuhetjur og hvatning mín í gegnum tíðina. Ég trúi því að hver og einn beri ábyrgð á þessari jörð og velferð barna okkar og afkomenda. Við þurfum að stöðva ofbeldi hvar sem það birtist, hvernig sem það birtist, í orði eða verki. Hættulegasta fólkið er kannski það sem horfir á ofbeldið og gerir ekkert, segir ekkert. Þess vegna held ég stöðugt áfram að vekja athygli á friðarmálum og tala fyrir málefnum friðar og mannréttinda.

Hvernig halda búddistar jól?

Það er eflaust mismunandi eftir hverjum og einum. Jólin eru gömul heiðin hátíð. Kristnir halda líka sína helgi á jólunum og fleiri trúarbrögð halda einnig sína hátíð á þessum tíma. Í augum búddista er nýjársdagur einn aðal hátíðisdagur ársins. Mér finnst ekkert sjálfsagðara en að halda hátíð á þessum myrkasta tíma ársins til að færa smá gleði og birtu inn í sálina. Mín jól hefjast í friðargöngunni kl 18:00 á Hlemmi. Síðan eru þetta svona hefðbundin íslensk fjölskylduhátíð hjá mér. Börnin mín og fjölskyldur þeirra eru hjá okkur hjónunum á aðfangadag. Við byrjum á því að biðja saman fyrir friði í heiminum, með því að kyrja möntruna Nam mjóhó rengi kjó sem er okkar búddíska bæn. Síðan er borðaður góður matur sem eiginmaðurinn sér alfarið um (enda kann ég ekki að elda), jólapakkarnir opnaðir og við njótum þess að eiga góða stund saman. Á nýjársdag koma svo búddistasamtökin saman og halda stóran hátíðarfund með menningardagskrá, hvatningu og góðum veitingum.

Hvað fleira er framundan hjá þér í ritlistinni?

Auk þess að starfa sem kennari við Flensborgarskólann, þá er ég formaður SGI á Íslandi og hef starfað í ritnefnd Mannúðar í 10 ár. Þetta er tímarit sem SGI gefur út og fjallar um friðar og mannúðarmál og möguleika manneskjunnar til að bæta og breyta heiminum á jákvæðan hátt. Það er einstaklega gefandi að vinna að þessu tímariti. Þar að auki hef ég nýlokið við að skrifa smásögusafn sem ég vonast til þess að gefa út á næsta ári.

 

 Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: