Frístundastyrkur: Bæjarstjórn vísar málinu aftur til fræðsluráðs vegna ófullnægjandi undirbúnings

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, er ósáttur við málsmeðferð meirihlutans á tillögu Samfylkingarinnar um hækkun frístundastyrks.

Fræðsluráð samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum tillögu Samfylkingarinnar að hækka frístundastyrki úr 4.000 kr. á mánuði í 4.500 kr. eða um 6.000 kr. á ársgrundvelli og vísaði málinu til bæjarstjórnar. Meirihlutinn í bæjarstjórn auk fulltrúa Miðflokks, Viðreisnar og Bæjarlistans samþykktu hins vegar að vísa málinu aftur til fræðsluráðs á þeim forsendum að málið hefði ekki verið nógu vel undirbúið hjá fræðsluráði. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn frestunartillögunni þar sem um fjárhagsáætlunartillögu var að ræða og frestunin þýði að engin trygging sé fyrir því að þessi hækkun muni skila sér til barna og ungmenna á næsta ári. Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fagnar samþykkt tillögunnar í fræðsluráði en lýsir yfir miklum vonbrigðum með að bæjarstjórn hafi ekki samþykkt tillöguna á fundi hennar í dag.  

Ætlað að efla allt íþrótta –og forvarnarstarf

Meginmarkmið frístundastyrksins, sem komið var á haustið 2002 í Hafnarfirði, er að stuðla að því að börn með lögheimili í Hafnarfirði geti tekið þátt í skipulögðu frístundastarfi óháð efnahag fjölskyldna og tryggja þannig aðgengi allra barna og ungmenna að þessari mikilvægu starfsemi. Frístundastyrknum er einnig ætlað að efla allt íþrótta – og forvarnarstarf í bænum sem og að koma í veg fyrir óæskilegt brottfall í eldri aldurshópum iðkenda.

Áhugaleysi meirihlutans

Friðþjófur Helgi Karlsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fagnar þeim vilja sem fram kemur í samþykkt fræðsluráðs í síðustu viku. Það kom honum því verulega á óvart að ekki væri búið að undirbúa málið nógu vel svo bæjarstjórn gæti afgreitt tillöguna á fundi sínum í dag. „Það er ekki annað hægt en að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þessi vinnubrögð meirihlutans og lýsir áhugaleysi af hans hálfu. Þessi tillaga okkar í Samfylkingunni var tillaga til fjárhagsáætlunar og því hefði að sjálfsögðu átt að afgreiða hana með fjárhagsáætlun á fundi bæjarstjórnar í dag. Ef meirihluti Sjálfstæðis – og Framsóknarflokks hefði haft minnsta áhuga á að afgreiða þetta með fjárhagsáætlun í dag þá hefði hann einfaldlega blásið til aukafundar í fræðsluráði. Það hefur nú verið blásið til aukafundar af minna tilefni. En það læðist að manni sá grunur að það hafi einfaldlega ekki verið meiri áhugi til þess að klára málið á fundi bæjarstjórnar í dag vegna þess að tillagan kom frá Samfylkingunni. Núna er engin trygging fyrir því að þessi hækkun verði að veruleika á næsta ári,“ segir Friðþjófur Helgi um málsmeðferð bæjarstjórnar í dag.

Iðkendur geti tekið þátt óháð efnahag

Friðþjófur Helgi telur einnig mikilvægt að halda á lofti markmiðunum með frístundastyrknum þegar honum var komið á fót árið 2002. „Það voru jafnaðarmenn í Hafnafirði sem höfðu forystu um að koma á fót frístundastyrknum á sínum tíma. Markmiðið var að tryggja að öll börn og ungmenni í Hafnarfirði hefðu aðgang að skipulögðu íþrótta – og tómstundastarfi óháð efnahag og þetta er markmiðið sem við verðum að standa vörð um. Ég hef satt að segja nokkrar áhyggjur af hækkandi æfingagjöldum hjá félögunum. Bærinn á að hafa eitthvað um þessi mál að segja enda erum við að styrkja félögin með margvíslegum hætti og gera þjónustusamninga við mörg þeirra. Æfinga – og iðkendagjöld mega ekki vera þröskuldur fyrir börn og ungmenni efnaminni fjölskyldna til að taka þátt í skipulögðu íþrótta – og tómstundastarfi í Hafnarfirði og þess vegna eru það vonbrigði að bæjarstjórn hafi heykst á því að samþykkja tillögu Samfylkingarinnar í dag,“ segir Friðþjófur Helgi um málið sem rætt hefur verið í fræðsluráði og bæjarstjórn að undanförnu.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: