Athugasemdir vegna Fornubúða: meirihlutinn hafnaði beiðni um frestun

Nyjar höfðustöðvar Hafró í Hafnarfirði? Teikning/Batteríið arkitekta. Mynd fengin af mbl.is.

Fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlista, Miðflokks og Viðreisnar fóru fram á frestun á afgreiðslu á athugasemdum við aðalskipulagsbreytingu á Fornubúðum 5 á fundi skipulags – og byggingaráðs í dag. Ástæðan var sú að þeir töldu að ráðsfulltrúar hefðu ekki haft nægan tíma til þess að kynna sér athugasemdir frá íbúum en þær urðu ekki aðgengilegar fyrr en sama dag og fundurinn var haldinn, þ.e. í morgun. Alls bárust 67 athugasemdir frá bæjarbúum vegna aðalskipulagsbreytingarinnar. Stefán Már Gunnlaugsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags – og byggingaráði, telur athugasemdir bæjarbúa vera mikilvægt innlegg í umræðu um þetta mál og að ráðinu beri að kynna sér vel þau sjónarmið sem þar koma fram svo hægt sé að taka málið til efnislegrar meðferðar. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra höfnuðu beiðni minnihlutans um frestun.

Á fundi skipulags – og byggingaráðs í dag voru lagðar fram athugasemdir íbúa vegna aðalskipulagsbreytingar á Fornubúðum 5 en það er sá reitur þar sem höfuðstöðvar Hafró eiga að rísa. Frá íbúum bárust 67 athugasemdir vegna breytingartillögunnar. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra féllst ekki á það sjónarmið fulltrúa minnihlutans í ráðinu að nauðsynlegt væri að gefa ráðinu nægjanlegan tíma til þess að kynna sér innihald athugasemdanna. Í bókun minnihlutans kom fram að athugasemdirnar hafi ekki legið fyrir fyrr en daginn sem fundurinn var haldinn. Fulltrúar meirihlutans bókuðu á móti að nú fengi skipulagsfulltrúi athugasemdirnar til skoðunar og honum væri falið að taka saman svör við framkomnum athugasemdum.

„Skortur á samráði og íbúalýðræði“

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags – og byggingaráði.

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði, segir miður að meirihlutinn hafi ekki viljað gefa ráðinu betra tækifæri til þess að fara yfir athugasemdirnar. „Íbúasamráð er mikilvægt í allri skipulagsvinnu. Forsenda þess að kjörnir fulltrúar geti tekið afstöðu til innsendra athugasemda er að þeir hafi nægan tíma til þess að rýna þær. Við í Samfylkingunni teljum að athugasemdir bæjarbúa skipti miklu máli almennt og þær eru mikilvægt innlegg í umræðu um þetta mál. Ráðinu ber að kynna sér vel þau sjónarmið sem þarna koma fram og við viljum tryggja að íbúasamráð sé ekki bara upp á punt. Þess vegna voru það okkur í minnihlutanum mikil vonbrigði að Sjálfstæðis – og framsóknarmenn í ráðinu skyldu ekki fallast á beiðni okkar um frestun. En því miður er þetta í takt við annað varðandi skipulagsmál í Hafnarfirði þar sem skortur á samráði og íbúalýðræði einkennir öll vinnubrögð. En í stóru máli eins og þessu borgar sig að vanda til allra verka og flýta sér hægt. Sá flýtir sem einkennir vinnubrögðin í málinu er alls ekki nauðsynlegur og ekki til þess fallinn að tryggja gagnsæ og fagleg vinnubrögð,“ sagði Stefán Már um niðurstöðu fundarins í dag.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: