Kaplakriki: Ráðherra telur tilefni til frekari athugunar

Fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlista og Viðreisnar segja að úrskurður Velferðarráðuneytisins feli í sér að ráðherra telji rökstuðning og skýringar meirihlutans á málsmeðferð bæjarstjórnar vegna uppbyggingar í Kaplakriki ófullnægjandi.

Heilbrigðisráðherra telur tilefni til að taka málsmeðferð Hafnarfjarðar vegna kaupa á íþróttamannvirkjum í Kaplakrika til athugunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga um frumkvæðiseftirlit. Þetta kemur fram í úrskurði Velferðarráðuneytisins í tveimur stjórnsýslukærum sem fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlista og Viðreisnar í bæjarstjórn lögðu fram. Þá hefur kærunefnd útboðsmála úrskurðað að bærinn sé skaðabótaskyldur vegna útboðs byggingar knatthúss í Kaplakrika. Nefndin kemst einnig að þeirri niðurstöðu að útboðið hafi ekki staðist lög um opinber innkaup. Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn segir að hvoru tveggja sýni að öll málsmeðferð meirihluta bæjarstjórnar í málefnum varðandi uppbyggingu í Kaplakrika einkennist af flýti, óvandaðri stjórnsýslu og ógagnsæi.

Fyrir skemmstu birti heilbrigðisráðherra úrskurð ráðuneytis síns í tveimur stjórnsýslukærum fulltrúa Samfylkingar, Bæjarlista og Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar vegna málsmeðferðar meirihluta bæjarstjórnar við ákvarðanir um kaup á mannvirkum og byggingu knatthúss í Kaplakrika. Meginniðurstaðan var sú að kærunum var vísað frá þar sem fulltrúar minnihlutans í fjölskipuðu stjórnvaldi eins og sveitarstjórn geta ekki talist aðilar máls að mati ráðuneytisins enda hafi þeir ekki „svo beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af ákvörðuninni,“ eins og segir í úrskurðinum. Ráðherra telur hins vegar tilefni til að taka málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar í málinu til athugunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga um frumkvæðiseftirlit.

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Þögn meirihluta og bæjarstjóra um málið

Fulltrúar þeirra flokka sem kærðu ákvörðun bæjarstjórnar hafa sent frá sér yfirlýsingu um úrskurð ráðuneytisins þar sem fram kemur að „málsmeðferð varðandi uppbyggingu í Kaplakrika einkennist af flýti, upplýsingaskorti, samráðsleysi og eftiráskýringum.“ Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, Adda María Jóhannsdóttir, undrast að ekkert hafi heyrst frá meirihluta bæjarstjórnar eða bæjarstjóra vegna málsins. „Það verður að teljast einkennilegt að meirihlutinn í bæjarstjórn hafi ekki látið neitt frá sér fara varðandi það að heilbrigðisráðherra telur tilefni til þess að taka málsmeðferð bæjarstjórnar til nánari skoðunar í frumkvæðisathugun. Með öðrum orðum þýðir það að rökstuðningur Hafnarfjarðarbæjar er ekki nægjanlegur til að málið falli niður. Bæjarstjóri þegir líka þunnu hljóði sem kemur á óvart enda hefðu flestir talið að bæjarstjóri myndi verja stjórnsýslu bæjarins,“ segir Adda María, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Bærinn skaðabótaskyldur og málið aftur á borði samgöngu – og sveitarstjórnarráðherra

Á síðasta fundi bæjarráðs, þann 22. nóvember, var kynntur úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli ÞG Verk ehf. gegn Hafnarfjarðarbæ. Fyrirtækið kærði bæinn vegna útboðs á byggingu knatthúss í Kaplakrika. Þá ætlaði Hafnarfjarðarbæ að byggja húsið sem átti að vera í 100% í eigu bæjarins. Niðurstaðan af því ferli var að hafna öllum tilboðum en ÞG Verk ehf. var lægstbjóðandi og kærði niðurstöðuna. Niðurstaða kærunefndarinnar er sú að Hafnarfjörður er skaðabótaskyldur gagnvart fyrirtækinu og að málsmeðferð bæjarins hafi ekki staðist lög um opinber innkaup. Adda María Jóhannsdóttir telur þessa niðurstöðu ýta enn frekar undir þá tilfinningu að vandaðir stjórnsýsluhættir víki fyrir flýti og samráðsleysi í þessu máli hjá meirihlutanum. „Allt er þetta á sömu bókina lagt í þessu máli, því miður. Óvönduð vinnubrögð hafa ráðið för frá upphafi og þess vegna er Hafnarfjörður núna í þeirri stöðu að bíða þess að frumkvæðisathugun ráðherra á málsmeðferð bæjarins hefjist og orðinn skaðabótaskyldur vegna gallaðs útboðs sem ekki stóðst lög um opinber innkaup,“ segir Adda María. Hún bendir að lokum á að málið sé nú aftur komið til kasta Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem sagði sig frá kærunum vegna vanhæfis. „Nú bíðum við bara eftir næstu skrefum hjá samgönguráðherra og ríkisstjórninni,“ sagði Adda María að lokum í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: