Dugar ekki fyrir einum kaffibolla

Tillaga meirihlutans um óbreytta álagningarprósentu útsvars var samþykkt í bæjarstjórn í dag. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn tillögunni og telja að samþykkt hennar auki enn frekar misskiptinguna í samfélaginu.

Á bæjarstjórnarfundi í dag var tillaga meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um óbreytta álagningarprósentu útsvars tekin til umræðu. Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, telur að nær væri að koma til móts við hópa í samfélaginu sem þurfi raunverulega á stuðningi að halda. Stefán Már Gunnlaugsson, vararbæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, telur að þessi ákvörðun meirihlutans með stuðningi fulltrúa Miðflokks og Viðreisnar auki enn frekar á misskiptinguna í samfélaginu og sé til marks um pólitískar áherslur Sjálfstæðisflokksins. Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins, taldi umræðuna ótrúlega og óboðlega.

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Þegar samþykkt var í bæjarstjórn haustið 2016 að lækka útsvarsprósentuna í Hafnarfirði kom fram að ef miðað væri við meðallaun þá myndi lækkunin auka ráðstöfunartekjur um það sem nemur rétt um 200 krónum á mánuði. Tekjur bæjarfélagsins myndu hins vegar lækka sem næmi um 46 milljónum á ári. Því má áætla að bærinn hafi orðið af tæplega 100 milljónum króna í tekjur í kjölfar þessara ákvörðunar 2016. „Það er algjörlega ljóst í mínum huga að þetta eru fjármunir sem skipta verulegu máli í rekstri bæjarins sem hægt væri að nýta í þágu fólks sem þarf á stuðningi að halda, t.d. barnafjölskyldur með börn á leik – og grunnskólaaldri. Sérstaklega þegar haft er í huga að aukningin á ráðstöfunartekjum meðallauna dugar ekki fyrir einum kaffibolla auk þess sem skattalækkanir af þessum toga skila sér alltaf best til þeirra sem mestar hafa tekjurnar,“ segir Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í samtali við vefinn.

Frjálshyggjuleikrit í bæjarstjórn

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði í jómfrúarræðu sinni í bæjarstjórn um þetta mál að það að nýta ekki útsvarsprósentuna til fulls væri ekkert annað en leikrit frjálshyggjunnar í leikstjórn núverandi meirihluta, bara svo Sjálfstæðisflokkurinn geti hreykt sér út á við að hann nýti ekki útsvarshlutfallið að fullu. Hann sagði jafnframt að þetta væri aðgerð sem yki enn á misskiptinguna í samfélaginu og græfi undan því trausti sem nauðsynlegt er að byggja upp. Í jómfrúarræðunni sagði Stefán Már einnig; „Þessi kjarabót fyrir hálaunafólkið kostar

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

bæjarsjóð líklega um 60 milljónir. Er það forgangsmál núna að beita slíkum úrræðum? Væri ekki nær að skoða hvar skóinn kreppir í kjörum fólks og koma til móts við þær aðstæður eins og frekast má til að jafna kjörin og hlúa að þeim sem minnst mega sín? Horfa til öryrkja og láglaunafjölskyldna með auknum afsláttum og öflugri þjónustu. Eða hlúa að barnafjölskyldum með því að taka næstu skref í átt gjaldfrjálsum leik- og grunnskóla. Barnafjölskyldur borga hlutfallslega hæstu skatta í þjóðfélaginu, en þurfa á sama tíma að standa undir fjárfrekum útgjöldum. Nú er ljóst, að 60 milljónir bjarga ekki öllu. En hér er spurning um stefnumótun með skilaboðum um áherslur og forgangsröðun,“ sagði Stefán Már Gunnlaugsson í sinni jómfrúarræðu í bæjarstjórn.

Ótrúleg og óboðleg umræða að mati formanns bæjarráðs

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins, brást við ræðu Stefáns Más Gunnlaugssonar. Hann taldi að þessi stefnumótun bæjarstjórnar um óbreytta útsvarsprósentu væri til marks um vilja meirihlutans til þess að koma til móts við fólk í bænum og væri liður í því að bjóða upp á aðlaðandi samfélag og skapa umhverfi svo nýir bæjarbúar leiti til Hafnarfjarðar. Hann taldi umræðuna ótrúlega og ekki boðlega. „Ég er nú hálf orðlaus yfir þessari ræðu bæjarfulltrúans Stefán Más og kemur mér reyndar á óvart að Samfylkingin skuli tala fyrir því að hækka skatta hér á bæjarbúa en það er nú fátt sem kemur manni á óvart frá þeim ágæta flokki þessa dagana,“ sagði formaður bæjarráðs í ræðu sinni.

Tillagan var að lokum samþykkt með átta atkvæðum meirihlutans og fulltrúa Viðreisnar og Miðflokks. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegni henni og fulltrúi Bæjarlistans sat hjá.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: