Húsnæðisvandinn krufinn

Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, fer yfir áherslur borgarinnar í húsnæðismálum á síðustu árum undir forystu Samfylkingarinnar. Friðþjófur Helgi Karlsson, fundarstjóri og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, fylgist með.

Húsnæðisvandinn hefur mikið verið til umræðu að undanförnu. Hafnarfjörður hefur ekki verið nein undantekning í þeim efnum. Af þeim sökum hélt Samfylkingin í Hafnarfirði opinn fund um húsnæðismál sl. mánudag á Strandgötunni. Markmið fundarins var að leita svara við því hverjar orsakir húsnæðisvandans eru, til hvaða aðgerða verði að grípa og hvort þær aðgerðir eigi að byggja á félagslegum lausnum eða markaðslausnum. Frummælendur á fundinum voru þau Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs Íbúðafélags, Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Fín mæting var á fundinn og góðar umræður spunnust um málefnið að loknum erindum. Fundarstjóri var Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Íbúðafélagið Bjarg – eitt stærsta byggingarverkefnið í dag  

Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs Íbúðafélags, ásamt fundarstjóranum Friðþjófi Helga Karlssyni, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs Íbúðafélags, reið á vaðið á fundinum og fór yfir starfsemi félagsins, tilgang þess og markmið. Bjarg Íbúðafélag var stofnað árið 2016 af ASÍ og BSRB og meginmarkmið félagsins er að tryggja aðgengi að öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði. Bjarg er sjálfseignarstofnun og er rekin án hagnaðarsjónarmiða.

Í máli Björns kom fram að félagið miði að því að bjóða tekjulágum fjölskyldum upp á öruggt og gott húsnæði. Fyrst og fremst er horft til þess hóps sem á í vandræðum með að fóta sig á markaði en á ekki rétt á því að sækja um félagslegt húsnæði hjá sveitarfélögunum. Allt kapp er lagt á það að halda leiguverðinu niðri en það byggist á byggingakostnaði, fjármagnskostnaði og rekstrarkostnaði félagsins.  30% stofnvirðis bygginga á vegum Bjargs er fjármagnað með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum.  Stofnframlög sveitarfélaga koma að mestu í gegnum niðurfellingu gjalda eins og gatna – og lóðagjalda.

Fram kom í erindi Björns að þegar allt væri saman tekið þá værui verkefnin á vegum Bjargs eitt stærsta byggingaverkefni sem er í gangi í dag. Í dag eru erum um 230 íbúðir komnar í byggingu og áætlanir gera ráð fyrir tæplega 1.400 íbúðum víðs vegar um landið á næstu árum og byggingarmagnið er um 100.000 fermetrar.  Þar af er gert er ráð fyrir 1000 íbúðum í Reykjavík og búið er að úthluta félaginu þróunarreit í Hamranesi í Hafnarfirði fyrir 150 íbúðir.

Fundarmenn hlýða á umræður.

Björn lagði áherslu á að félagið leitar alltaf allra leiða til þess að halda leiguverði niðri. Reynt er að byggja eins hagkvæmt og mögulegt er. Það má t.d. sjá á því að allar lóðir sem félagið fær í dag eru án bílakjallara vegna þess að þeir hækka leiguverðið til muna. Mikilvægt er fyrir Bjarg að byggingarréttargjöld í sveitarfélögum séu hagstæð og hvetjandi fyrir félög og einstaklinga til þess að byggja litlar og hagkvæmar íbúðir en í sumum sveitarfélögum virkar byggingarréttargjaldið í raun öfugt og hvetur til byggingar stærri íbúða.

Um mitt næsta ár verður flutt inn í fyrstu íbúðirnar á vegum Bjargs Íbúðafélags og í framhaldi af því væntir félagið þess að afhenda að meðaltali eina blokk á mánuði í fjögur ár. Engar framkvæmdir á vegum félagsins eru farnar af stað í Hafnarfirði en félagið fékk nýlega úthlutað þróunarreit í Hamranesi fyrir 150 íbúðir. Björn er bjartsýnn á að sú vinna muni ganga vel og að framkvæmdir geti hafist um leið og Hamranes línurnar verða farnar. Það er mikilvægt að bæjaryfirvöld haldi áfram að þrýsta á um að það gerist sem allra fyrst.

Rangar áherslur ríkisstjórnarinnar

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fer yfir áherslur Samfylkingarinnar á þingi í húsnæðismálum. Við hlið hans er Friðþjófur Helgi Karlsson, fundarstjóri og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Að loknu erindi Björns steig í pontu Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og gerði grein fyrir áherslum þingflokks Samfylkingarinnar í húsnæðismálum. Í máli hans kom fram að vandinn á húsnæðismarkaðnum fælist aðallega í framboðsvanda, þ.e. að það vantar fleiri íbúðir á markaðinn sem henta bæði tekjulágum einstaklingum og ungu fólki. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að byggja upp öruggan og sanngjarnan leigumarkað því í dag eru 50 þús. manns á leigumarkaði sem er mjög ótryggur og dýr.

Á Alþingi hefur Samfylkingin lagt fram tillögur í átta liðum til þess að mæta húsnæðisvandanum. Þær felast m.a. í því að stjórnvöld komi að uppbyggingu í það minnsta 5.000 leiguíbúða á næstu árum og að skyldur verði settar á sveitarfélögin varðandi uppbyggingu félagslegs húsnæðis til þess að jafna byrðar sveitarfélaga. Samfylkingin vill einnig beita sér fyrir hækkun húsnæðis – og vaxtabóta í samræmi við launaþróun og að skerðingar verði minnkaðar. Tillögurnar fela einnig í sér að lagt verði fram frumvarp á Alþingi um breytingu á húsaleigulögum sem miði að því að tryggja húsnæðisöryggi og réttindi leigjenda.

Ágúst Ólafur hefur miklar áhyggjur af áherslum ríkisstjórnar í fjárlögum næsta árs. Þar er gert ráð fyrir lækkun vaxtabóta frá því sem hafði verið áætlað fyrir núverandi ár og skerðingar eru auknar hjá millitekjufólki þegar kemur að barnabótum. Margt fólk sem áður fékk þessar bætur, sem skiptu það miklu máli, hefur í dag misst réttinn til þeirra. Ágúst Ólafur lagði áherslu á að þetta væri eitthvað sem Samfylkingin vildi breyta en VG í ríkisstjórn virðist ekki hafa áhug á að breyta þessu. Fram kom í máli þingmannsins að ástæðan fyrir því að verkalýðshreyfingin legði svona mikla áherslu á húsnæðismál í komandi kjaraviðræðum væri vegna þess að Íslandi er dýrt samfélag. Og þá erum við komin að fílnum í herberginu sem helst er aldrei rætt um – gjaldmiðlinum. Örmyntin sem við búum er einmitt ein aðalástæðan fyrir því að Ísland er dýrt samfélag og þetta verðum við að þora að ræða að mati Ágúst Ólafs.

Í þessu samhengi má ekki gleyma ójöfnuðinum og misskiptingunni í samfélaginu. Staðan er þannig að 1% þjóðarinnar, þ.e. ríkasti hluti hennar, á meiri hreinar eignir en 80% þjóðarinnar og 5% efnamesti hópurinn á jafn mikið og hin 95% þjóðarinnar sagði Ágúst Ólafur. Þessi staða er grafalvarleg en hvað gerir ríkisstjórnin? Í fjárlögum næsta árs eru veiðigjöld lækkuð um þrjá milljarða og fjármagnstekjuskattur skilar tveimur milljörðum minna á næsta ári miðað við það sem fjármálaáætlun gerði ráð fyrir. Á sama tíma er mikill vandi í grunnþjónustu velferðarþjónustunnar sem ríkisstjórnin virðist ekki geta tekist á við. Ágúst Ólafur sagði að lokum að í fjárlagafrumvarpi næsta árs kæmu hægri áherslur ríkisstjórnarinnar berlega í ljós. Þar eru skattstofnar illa nýttir og breytingar á þeim miðist fyrst og fremst að hagsmunum eigna – og hátekjufólks á meðan velferðarkerfið væri svelt og ójöfnuðurinn og misskiptingin í samfélaginu vex hröðum skrefum. Samfylkingin leggur til aðra leið, leið sem miðar að því að standa vörðum verferðarkerfið, skattkerfið nýtt sem jöfnunartæki og leið þar sem stefnt er að því að bæta almannahag.

Aldrei meira byggt í Reykjavík

Aldrei meira byggt í Reykjavík en núna. Rúmlega 2.300 íbúðir í byggingu í Reykjavík í september á þessu ári en 122 í Hafnarfirði á sama tíma.

Þá var komið að fulltrúa Reykjavíkur en Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gerði grein fyrir áherslum borgarinnar í húsnæðismálum á síðustu árum undir forystu Samfylkingarinnar. Í hennar máli kom fram að það er ekkert sem skiptir meira máli í dag en að byggja upp sanngjarnan húsnæðismarkað. Einnig gerði hún grein fyrir markmiðum aðalskipulags borgarinnar og helstu uppbyggingarsvæðum innan Reykjavíkur í dag.

Í hennar máli kom fram að áður en húsnæðiskreppan skall á var Reykjavík að vinna markvisst að húnsæðismálum. Þar var verið að vinna að þéttingu byggðar og skipulagi byggðarinnar með markvissum hætti. Ástæðurnar fyrir því að unnið er að þéttingu byggðar í Reykjavík eru margvíslegar. Áhrifin af þéttingunni eru bæði bein og óbein en mikilvægast er að með þéttingu byggðar er hægt að nýta betur þá innviði sem fyrir eru, t.d. skóla og almenningssamgöngur. Kristín Soffía taldi líka að þéttingarverkefnin hefðu sýnt fram á að sú uppbygging tæki yfirleitt styttri tíma en uppbygging á nýjum stöðum einmitt vegna þess að ekki þyrfti að fara í mikla innviðauppbyggingu.

Fundargestir voru á öllum aldri.

Að sögn Kristínar Soffíu þá leggur Reykjavík mikla áherslu á fjölbreytta uppbyggingu húsnæðis í borginni og þess vegna er reynt að vinna með öllum þegar kemur að íbúðauppbyggingu. Niðurstaðan er sú að aldrei hefur verið meira byggt í Reykjavík en nú en því miður hafa ekki önnur sveitarfélög fylgt með að mati Kristínar Soffíu. Reykjavík leikur mikilvægt hlutverk á húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu en borgin getur ekki gert þetta ein – önnur sveitarfélög þurfa líka að sinna sínu hlutverki. Hvað íbúðir í byggingu varðar þá voru í september á þessu ári rúmlega 2.300 íbúðir í byggingu í Reykjavík en í Hafnarfirði voru þær 122 talsins. Frá síðustu talningu Samtaka Iðnaðarins fjölgaði íbúðum í byggingu um 629 í Reykjavík en þeim fækkaði í Hafnarfirði um 28.

Einnig er byrðunum mjög misskipt á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að framboði á félagslegum íbúðum. Þar dregur Reykjavík einnig vagninn. Ef samanburður er gerður á félagslegum íbúðum í Reykjavík og Hafnarfirði kemur í ljós að í Reykvík eru um tuttugu félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa en í Hafnarfirði eru þær átta á hverja þúsund íbúa. Ennþá verri er staðan er í bæjarfélögum eins og Garðabæ og Seltjarnarnesi þar sem varla er félagslegt húsnæði á vegum sveitarfélagsins í boði. Í Garðabæ eru tæplega tvær félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa og á Seltjarnarnesi eru þær rúmlega þrjár. Að mati Kristínar Soffíu þá er afar mikilvægt að fleiri sveitarfélög standi sína vakt þegar kemur að því að bjóða upp á félagslegt húsnæði fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki eignast eða leigt eftir öðrum leiðum. Það er ein af höfuðskyldum sveitarfélaga að sjá fólki fyrir húsnæði sem af einhverjum ástæðum er ekki í aðstæðum til að verða sér út um húsnæði með öðrum leiðum, s.s. með kaupum eða leigu á markaði.

Að lokum lagði Kristín Soffía áherslu á að undir forystu jafnaðarmann í Reykjavík er nú unnið að því að skapa öruggan og sanngjarnan húsnæðismarkað þar sem aðalskipulag borgarinnar er grunnurinn. Til þess að ná þessu markmiði þá er samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög eins og Bjarg algjört lykilatriði. Meginmarkmiðið er að Reykjavík á að vera borg fyrir alla hópa samfélagsins sem leggur áherslu á sjálfbærni og stendur jafnfætis öðrum borgum í nágrannalöndum okkar.

Þegar erindum var lokið gafst fundarmönnum færi á því að koma með fyrirspurnir til frummælenda. Óhætt er að segja að fundarmönnum hafi legið margt á hjarta því fjölmargar fyrirspurnir komu fram og mjög líflegar umræður sköpuðust um húsnæðismálin sem og um það fjárlagafrumvarp sem liggur fyrir Alþingi núna. Fundarmenn voru allir sammála um mikilvægi þess að grípa aðgerða til að taka á húsnæðisvandanum. Þeir voru líka allir sammála um ókosti fjárlagafrumvarpsins og lýstu yfir miklum áhyggjum af áherslum ríkisstjórnarinnar.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: