Félagslegum íbúðum í Hafnarfirði fækkað síðustu þrjú ár

Samkvæmt tölum frá Varasjóði húsnæðismála fækkaði félagslegum íbúðum í Hafnarfriði um eina á síðasta ári og um þrjár frá 2015 til ársbyrjunar 2018.

Í fréttaskýringu Kjarnans þann 7. nóvember sl. kemur fram að samkvæmt nýjum tölum frá Varasjóði húsnæðismála fjölgaði félagslegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu um 96 í fyrra. Mest var fjölgunin í Reykjavík en þar fjölgaði um 68 íbúðir. Í Kópavogi fjölgaði félagslegum íbúðum á síðasta ári um 44 en í Hafnarfirði fækkaði þeim um eina. Í ársbyrjun þessa árs voru 20 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa í Reykjavík, í Kópavogi var það hlutfall 13 íbúðir en í Hafnarfirði var það átta íbúðir á hverja þúsund íbúa. Garðabær og Hafnarfjörður voru einu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þar sem félagslegum íbúðum fækkaði á síðasta ári skv. úttekt Varasjóðs húsnæðismála. Sigurbjörg Anna Guðnadóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í Menningar – og ferðamálaefnd, spyr sig hvort Hafnarfjörður ætli fylgja fordæmi Reykjavíkur eða Garðabæjar þegar kemur að félagslegum lausnum í húsnæðismálum.

Í sögulegu ljósi kemur fram að frá byrjun árs 2015 til upphafs þessa árs hefur félagslegum íbúðum fjölgað um 10,5% á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík hefur staðið undir langmestri af þeirri fjölgun en þar fjölgaði félagslegum íbúðum á þessu tímabili um 271 en heildarfjölgunin á tímabilinu á svæðinu var 313 íbúðir. Í Kópavogi fjölgaði þeim um 49 en í Hafnarfirði og Mosfellsbæ fækkaði þeim um þrjár frá ársbyrjun 2015 til ársbyrjunar 2018. Fram kemur að á þessu tímabili þá fækkaði félagslegum íbúðum á Seltjarnarnesi um tvær en fjölgaði um eina í Garðabæ.

Tekur 16 ár að tæma núverandi biðlista

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í Menningar – og ferðamálanefnd.

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í Menningar – og ferðamálanefnd, skrifaði grein í Fjarðarfréttir fyrir skemmstu um húsnæðisvandann í Hafnarfirði. Þar komst hún að þeirri niðurstöðu að það muni taka Hafnarfjörð 16 ár að tæma núverandi biðlista eftir félagslegu húsnæði miðað við að á síðustu fimm árum hafi verið keyptar að meðaltali 4,2 íbúðir inn í félagslega kerfið en það kom fram í svörum við fyrirspurn Samfylkingarinnar um félagslegar íbúðir í Fjölskylduráði í september á þessu ári. „Staða húsnæðismála í Hafnarfirði er mikið áhyggjuefni. Og það er ekki heldur uppörvandi að verða vitni að því hversu lítinn áhuga þeir sem nú fara með stjórn mála í bænum sýna þessum mikilvæga málaflokki. Við sjáum hversu fáar íbúðir eru í félagslega kerfinu hér og hvað þeim hefur fjölgað lítið á síðustu árum og nú fáum við fregnir af því að þeim hafi fækkað á síðasta ári og á síðustu þremur árum. Við sjáum líka að framkvæmdir á vegum Bjargs Íbúðafélags eru ekki hafnar í bænum og það virðist vera langt í að framkvæmdir á þeirra vegum fari í gang. Að lokum sjáum við svo að í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þá er mjög lítið af íbúðum í byggingu í Hafnarfirði. Hafnarfjarðarbær rekur því lestina þegar kemur að húsnæðismálum út frá hinum ýmsu mælikvörðum,“ segir Sigurbjörg Anna um málið.

Mun Hafnarfjörður fylgja Reykjavík eða Garðabæ?

Í fréttaskýringu Kjarnans 7. nóvember um úttekt Varasjóðs húsnæðismála kemur fram að þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skeri sig úr hvað félagslegar íbúðir varðar. Þetta eru Garðabær, Seltjarnarnes og Mosfellsbær en þar eru félagslegar íbúðir á bilinu 2 – 3,5 á hverja þúsund íbúa. Sigurbjörg Anna veltir fyrir sér hvort Hafnarfjörður ætli fylgja fordæmi Reykjavíkur eða Garðabæjar þegar kemur að félagslega íbúðakerfinu. „Þegar maður sér þessar tölur þá er kannski rétt að velta fyrir sér hvort Hafnarfjörður ætli að stilla sér upp með Reykjavík eða Garðabæ í þessum málum. Það er engin spurning í mínum huga að við eigum að fara sömu leið og Reykjavík í húsnæðismálum og uppfylla skyldur sveitarfélagsins með því að sjá fólki fyrir húsnæði. Ég held að Hafnfirðingar hafi ekki áhuga á því að bærinn haldi áfram á þeirri leið að lækka álögur sem helst nýtast eigna – og hátekjufólki en leggja minni áherslur á félagslegar lausnir, t.d. í húsnæðismálum. Það er leið Sjálfstæðismanna í Garðabæ og mér sýnist að síðustu tveir meirihlutar undir forystu Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði stefni í sömu átt – því miður,“ segir Sigurbjörg Anna að lokum í samtali við vefinn.

 

Uppfært: Komið hefur fram að þar sem Hafnarfjarðarbær sendi Varasjóði húsnæðismála rangar upplýsingar vegna ársins 2017 var það ekki rétt að félagslegum íbúðum hefði fækkað árið 2017. Hið rétta er að félagslegum íbúðum fjölgaði um 10 á milli áranna 2016 og 2017. Það hefur nú verið leiðrétt á vef Kjarnans.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: