Samráð við íbúa um skipulag Flensborgarhafnar að engu haft

Stefán Már Gunnlaugsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Skipulags – og byggingaráði, vill að samráð við íbúa sé virt.

Á fundi Hafnarstjórnar þann 17. október sl. var samþykkt að fella úr gildi skipulagslýsingu Flensborgarhafnar sem staðfest var í Hafnarstjórn 18. febrúar 2016. Hafnarstjórn hvatti svo Skipulags– og byggingaráð og bæjarstjórn til þess að gera slíkt hið sama. Fulltrúi Samfylkingarinnar í Skipulags– og byggingaráði mótmælti því að skipulagslýsingin yrði felld úr gildi á fundi ráðsins í dag vegna þess að þar með yrði samráð við íbúa um gerð skipulagslýsingarinnar að engu haft. Stefán Már Gunnlaugsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Skipulags- og byggingaráði, mótmælir þessum vinnubrögðum harðlega og bendir á að með þessu er að engu höfð sú mikla vinna sem lögð var í skipulagslýsinguna á sínum tíma og unnin var í nánu samstarfi með íbúum, lóðahöfum og öðrum hagsmunaðilum.

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í Skipulags – og byggingaráði.

Í febrúar 2016 staðfesti Hafnarstjórn skipulagslýsingu fyrir Flensborgarhöfn og Skipulags- og byggingaráð og bæjarstjórn staðfestu svo lýsinguna einnig. Þverpólitísk samstaða ríkti um skipulagslýsinguna og víðtækt samráð var haft við íbúa og aðra hagsmunaaðila um gerð hennar. Stefán Már Gunnlaugsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Skipulags- og byggingaráði er ósáttur við að þessi þverpólitíska samstaða sé rofin og að samráðið við íbúana sé að engu haft. „Það hafa engin rök komið fram um að skipulagslýsingin skarist á við fyrirhugaða vinnu við gerð rammaskipulags. Í skipulagslýsingunni er beinlínis gert ráð fyrir samkeppni eða vali á hönnuði til þess að vinna að rammaskipulaginu og það var gert fyrr á þessu ári. Það er þess vegna óskiljanlegt að meirihlutinn skuli vilja fella skipulagslýsinguna úr gildi. Það hvarflar að manni að samráð við íbúana hafi leitt til þess að skipulagslýsingin falli ekki að vilja meirihlutans í bæjarstjórn um uppbyggingu á svæðinu,“ segir Stefán Már um ákvörðun Hafnarstjórnar og Skipulags- og byggingaráðs.

Hugmyndum um íbúalýðræði hafnað

Það bíður nú bæjarstjórnar að staðfesta afgreiðslu Hafnarstjórnar og Skipulags- og byggingaráðs. Ef það gerist þá telur Stefán Már að óvissa sé uppi um framtíðarskipulag á þessum hluta hafnarsvæðisins enda engin skipulagslýsing þá í gildi fyrir svæðið og hönnuðir óbundnir af henni í sinni vinnu. „Það er mjög óheppilegt að meirihlutinn í bæjarstjórn skuli vilja rjúfa þessa sátt sem var um uppbyggingu svæðisins. Núna ríkir óvissa um framhaldið, t.d. hvort sú samstaða og sátt sem náðist í skipulagslýsingunni um lágreista byggð sem falli vel að aðliggjandi byggð haldi gildi sínu í áframhaldandi vinnu. Við vitum heldur ekkert um það hvernig samráði við íbúa verður háttað í framhaldinu og hvort þeim gefist yfir höfuð kostur á því að koma athugasemdum á framfæri. Algjört lykilatriði er að þeir fái tækifæri til þess sem fyrst í ferlinu. Ef það gerist ekki þá er meirihlutinn  að hafna öllum hugmyndum um íbúalýðræði og koma í veg fyrir tækifæri íbúa til þess að hafa áhrif á sitt nærumhverfi og maður veltir fyrir sér hvort áherslur nýs meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um minna vægi samráðs og samvinnu við bæjarbúa séu hér að gera vart við sig,“ segir Stefán Már að lokum í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: