Vilja að næturstrætó haldi áfram

Óskar Steinn Ómarsson, ungur Jafnaðarmaður, vill tryggja áframhaldandi næturstrætó.
Mynd: Strætó bs.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar vilja að næturstrætó haldi áfram og að þjónustan verði bætt enn frekar. Þetta kemur fram í tillögu sem flokkurinn lagði fram á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær. Tillögunni var vísað áfram til umhverfis- og framkvæmdaráðs. Oddviti Samfylkingarinnar segir að hlusta verði á ungt fólk í bænum sem ítrekað hafi kallað eftir næturstrætó.

Á síðasta ári var ákveðið að fara í tilraunaverkefni með næturstrætó til eins árs. Að óbreyttu leggst þjónustan af um næstu áramót en stjórn Strætó bs. ræðir nú hvort og þá með hvaða hætti þjónustan haldi áfram. Komið hefur fram að nýtingin hafi verið minni en vonast var eftir.

Þörf á meiri og betri kynningu

Óskar Steinn Ómarsson, sem hefur barist fyrir næturstrætó með Ungum jafnaðarmönnum, telur að næturstrætó hafi ekki verið nógu vel auglýstur. „Eitt ár er ekki nógu langur prufutími. Næturstrætó þarf lengri tíma og mun betri kynningu til að fólk byrji að nota þjónustuna almennilega. Þá stendur Hafnarfjarðarleiðin upp úr með um 20% nýtingu svo það er klárlega eftirspurn eftir þessari þjónustu,“ segir Óskar Steinn.

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Mikilvægt að hlusta á unga fólkið

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, segir að bæjarstjórn verði að hlusta á unga fólkið í bænum. „Ungt fólk hefur ítrekað kallað eftir þessari þjónustu og málið var á stefnuskrá flestra flokka í seinustu tveimur sveitarstjórnarkosningum. Það væri  súrt að gefast upp á þessu verkefni nú eftir aðeins eitt ár,“ segir Adda María. „Næturstrætó gagnast líka fleiri hópum samfélagsins og er liður í aukinni þjónustu almenningssamgangna. Í okkar huga er þetta svo ekki síst spurning um öryggi fólks sem er á ferðinni þessum tíma sólarhringsins. Við ættum miklu frekar að skoða hvernig megi bæta þjónustuna enn frekar. Það er gleðiefni að bæjarstjórn hafi samþykkt að vísa tillögunni til umhverfis- og framkvæmdaráðs til frekari úrvinnslu,“ segir Adda María.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: