Höfnuðu því að setja tillögu um leikskóla í Suðurbæ á dagskrá

Rétt að láta bæjarstjórn taka afstöðu til tillögu um fjölgun leikskólaplássa í Suðurbæ fyrst Fræðsluráð skortir viljann til þess að mati varabæjarfulltrúa Samfylkingarinnar.

Á síðasta fundi Fræðsluráðs óskaði fulltrúi Samfylkingarinnar formlega eftir skýringum á því hvers vegna beiðni hennar um að fá mál á dagskrá var hafnað. Um var að ræða tillögu Samfylkingarinnar um leikskólamál í Suðurbæ sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar 20. júní. Sigrún Sverrisdóttir, varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í Fræðsluráði, telur að með því að hafna því að setja málið á dagskrá og til afgreiðslu í ráðinu sé verið að brjóta samþykktir bæjarfélagsins sem og rétt kjörinna fulltrúa til að fá mál á dagskrá. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að fá tillöguna afgreidda í ráðum bæjarins hefur það ekki verið gert og því telur fulltrúi Samfylkingarinnar í Fræðsluráði að málið verði að fara aftur fyrir bæjarstjórn þar sem Fræðsluráð virðist ófært um að afgreiða málið. 

Sigrún Sverrisdóttir, varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í Fræðsluráði.

Í bæjarstjórn þann 20. júní lagði Samfylkingin til að þegar í stað yrði hafinn undirbúningur að byggingu leikskóla við Öldugötu þar sem skortur væri á leikskólaplássum í Suðurbæ. Einnig var lagt til að tekið yrði til skoðunar að opna ungbarnaleikskóla í gamla Kató við Hlíðarbraut. Samþykkt var að vísa tillögunni til úrvinnslu í Fræðsluráði og Umhverfis – og framkvæmdaráði. Málið hefur komið til umræðu í báðum ráðum þar sem gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á þörfina á fleiri leikskólaplássum í Suðurbæ en tillagan hefur ekki verið afgreidd. Sigrún Sverrisdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í Fræðsluráði, er ekki sátt með þá meðferð sem málið hefur fengið í Fræðsluráði. „Nei, það er einkennilegt að ekki hafi verið hægt að fá málið á dagskrá ráðsins á síðasta fundi til að afgreiða það þar sem öll gögn málsins liggja fyrir. Ég tel að með því að hafna því að taka málið á dagskrá sé meirihlutinn að brjóta samþykktir og á rétti kjörinna fulltrúa. Við í Samfylkingunni teljum það liggja ljóst fyrir að nauðsynlegt sé að hefja uppbyggingu á leikskólaplássum í Suðurbæ sem fyrst en það virðist ekki vera vilji til þess hjá meirihlutanum að taka afstöðu til tillögunnar og afgreiða hana,“ segir Sigrún um vinnubrögð meirihlutans.

Lokun Kató á síðasta kjörtímabili óheillaspor

Um mitt síðasta kjörtímabil urðu talsverðar deilur um lokun leikskólans Kató í Suðurbæ. Minnihlutinn í bæjarstjórn mótmælti þeirri ákvörðun harðlega á þeim tíma þar sem staðan i leikskólamálum í Suðurbæ byði alls ekki upp á fækkun leikskólaplássa í hverfinu. „Að mínu mati voru það mikil mistök að loka Kató á síðasta kjörtímabili. Þegar ákveðið var að loka Kató þurftu 48% barna í Suðurbæ að sækja leikskóla utan hverfisins. Í staðinn fyrir að bregðast við þessum vanda var ákveðið að loka öðrum leikskólanum í hverfinu. Það var mikið óheillaspor og það sætir furðu að nýr meirihluti í bæjarstjórn leiti allra leiða til að svæfa tillögu okkar um fjölgun leikskólaplássa í Suðurbæ og komi sér hjá því að taka afstöðu til tillögunnar. Fyrst Fræðsluráð virðist ekki hafa burði til þess að afgreiða málið þarf sennilega að taka málið aftur upp í bæjarstjórn og láta reyna á afgreiðslu tillögunnar þar,“ segir Sigrún að lokum í samtali við vefinn um leikskólamál í Suðurbæ.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: