
Í Hafnarfirði voru 122 íbúðir í byggingu í september sem samsvarar 3% íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt nýrri talningu Samtaka Iðnaðarins (SI) þá voru 4.845 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í september. Það er aukning upp á 18% frá því í mars á þessu ári. Í Hafnarfirði voru 122 íbúðir í byggingu í september sem samsvarar 3% íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðum í byggingu hefur því hlutfallslega fækkað um 19% í Hafnarfirði frá því í mars. Einungis Seltjarnarnes er með færri íbúðir í byggingu en Hafnarfjörður en í greiningu SI er tekið fram að það sé vegna landleysis. Í spá SI um fullbúnar íbúðir á tímabilinu 2018 – 2020 rekur Hafnarfjörður einnig lestina fyrir utan Seltjarnarnes. Spáin gerir ráð fyrir 4% vexti á þessu tímabili í Hafnarfirði á meðan spáin gerir ráð fyrir 8% vexti að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar telur stöðuna algjörlega óásættanlega en að hún endurspegli viðhorf Sjálfstæðisflokksins til húsnæðisvandans. Hann bendir á að skortur á framboði af húsnæði á viðráðanlegum kjörum þýði að ungt fólk geti ekki flutt að heiman og valdi því að fólk festist á erfiðum og ófullburða leigumarkaði.
Flestar íbúðir í byggingu í Reykjavík
Tæplega helmingur allra íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu er í Reykjavík eða 2355 íbúðir. Á sama tíma er þetta hlutfall 3% í Hafnarfirði. Á milli talninga hefur mesta hlutfallslega aukningin á íbúðum í byggingu orðið í Reykjavík eða um 36%. En í Hafnarfirði hefur hins vegar orðið hlutfallsleg fækkun á íbúðum í byggingu upp á 19%. Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í Umhverfis – og framkvæmdaráði, segir það mikil vonbrigði að staðan í Hafnarfirði hafi versnað frá því í mars. „Auðvitað var sú staða sem kynnt var af Samtökum Iðnaðarins hér í mars algjörlega óásættanleg. Þess vegna eru það gríðarleg vonbrigði að staðan hafi ekki batnað síðan þá heldur kemur í ljós að íbúðum í byggingu hefur fækkað hlutfallslega um 19% á þessum tíma. Það er greinilegt að við verðum að spýta í lófana og snúa þessari þróun við,“ segir Friðþjófur Helgi um niðurstöður talningar SI.
Áhuga – og getuleysi Sjálfstæðisflokksins
Í spá SI um fullbúnar íbúðir á tímabilinu 2018-2020 er gert ráð fyrir mestri aukningu í Mosfellsbæ eða 27% fjölgun fullbúinna íbúða. Á eftir Mosfellsbæ kemur Garðabær með tæplega 16% fjölgun og Kópavogur með 13%. Í Reykjavík er gert ráð fyrir u.þ.b. 6% vexti en Hafnarfjörður rekur lestina á meðal þessara sveitarfélaga þar sem gert er ráð fyrir 4% vexti á fyrrnefndu tímabili. Friðþjófur Helgi Karlsson segir stöðuna grafalvarlega og að útlitið sé ekki bjart fyrir fólk sem vill öðlast húsnæðisöryggi í Hafnarfirði. „Vandinn sem blasir við er grafalvarlegur. Ungt fólk getur ekki flutt að heiman og fólk er fast á erfiðum og ófullburða leigumarkaði vegna þess að uppbyggingin er of hæg og það er skortur á íbúðum á viðráðanlegum kjörum. Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði hefur stýrt bænum núna í rúm fjögur ár og hann hefur haft fjölmörg tækifæri til að taka á málunum. Í upphafi síðasta kjörtímabils var staðan í Hafnarfirði hvað varðar lóðaframboð hvað best í Hafnarfirði og þess vegna er það alveg sérstakt rannsóknarefni hvers vegna uppbyggingin hefur verið svona hæg í Hafnarfirði. Getu – og áhugaleysi Sjálfstæðisflokksins veldur því að Hafnarfjörður hefur ekki staðið vaktina í glímunni við húsnæðisvandann,“ segir Friðþjófur Helgi í samtali við vefinn um niðurstöður talningar Samtaka Iðnaðarins.
Íbúðir í byggingu skv. talning SI
Sveitarfélag | Sept. 2017 | Mars 2018 | Sept. 2018 |
Reykjavík | 1,509 | 1,726 | 2,355 |
Kópavogur | 900 | 1,048 | 1,161 |
Garðabær | 607 | 594 | 651 |
Mosfellsbær | 513 | 550 | 541 |
Hafnarfjörður | 170 | 150 | 122 |
Seltjarnarnes | 35 | 25 | 15 |
Samtals höfuðborgarsvæðið | 3,734 | 4,093 | 4,845 |
Heimild: Samtök Iðnaðarins
Spá SI um fullbúnar íbúðir
Sveitarfélag | 2018 | 2019 | 2020 |
Reykjavík | 880 | 941 | 1,199 |
Kópavogur | 490 | 533 | 661 |
Garðabær | 307 | 328 | 240 |
Mosfellsbær | 260 | 330 | 375 |
Hafnarfjörður | 120 | 80 | 210 |
Seltjarnarnes | 27 | 14 | 10 |
Samtals höfuðborgarsvæðið | 2,084 | 2,226 | 2,695 |
Heimild: Samtök Iðnaðarins
Flokkar:Uncategorized