Langur biðtími eftir íbúðum fyrir fatlað fólk

Fatlað fólk þarf að bíða að meðaltali í 6 ár eftir íbúð í Hafnarfirði. Fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði segir bæjaryfirvöld brjóta á mannréttindum þessa hóps.

Í svari Fjölskyldusviðs við fyrirspurn frá fulltrúa Samfylkingarinnar um íbúðir fyrir fatlað fólk kemur fram að 56 einstaklingar eru á biðlista í Hafnarfirði. Af þessum 56 einstaklingum eru 28 í brýnni þörf og tilbúnir að flytja í dag. Einnig kemur fram að flestir á biðlistanum hafi sótt um fyrir fimm árum og að meðalbiðtími eftir íbúð sé 6 ár. Fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði telur stöðuna grafalvarlega og nauðsynlegt sé að bregðast strax við þeim bráðavanda sem blasir við okkur. Samfylkingin mun leggja fram tillögu á næsta fundi bæjarstjórnar um að fela Fjölskylduráði að hefja þegar í stað athugun á því hvernig er hægt að leysa bráðavandann. Mikilvægt er að hraða þeirri vinnu svo hægt verði að gera ráð fyrir nauðsynlegum lausnum í fjárhagsáætlunargerð næsta árs.

Árni Rúnar Þorvaldsson fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði.

Meðalbiðtími 6 ár

Á fundi Fjölskylduráðs þann 17. ágúst sl. lagði fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði fram fyrirspurn um húsnæðismál og málefni heimilislausra í bænum. Hluti fyrirspurnarinnar fjallaði um íbúðir fyrir fatlað fólk. Í svari Fjölskyldusviðs við þeim hluta kemur í ljós að 56 einstaklingar eru á biðlista eftir íbúð og af þeim eru 28 tilbúnir að flytja í dag og eru í brýnni þörf. Biðtíminn er líka langur en meðalbiðtími eftir íbúð fyrir fatlað fólk er 6 ár. Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði, telur stöðuna óásættanlega og nauðsynlegt sé að fara strax í átak til að koma til móts við þennan hóp í bænum. „Það er mikilvægt að setja þessar tölur í raunverulegt samhengi. Á bak við tölurnar eru einstaklingar sem hafa þurft að bíða allt of lengi eftir úrlausn sinna mála og aðstandendur sem hafa þurft að eyða ómældum tíma og vinnu í berjast við kerfið fyrir hönd barna sinna. Fólk á ekki að þurfa að eyða mörgum árum af lífi sínu í slíka baráttu,“ segir Árni Rúnar Þorvaldsson um þessa alvarlegu stöðu.

Áhyggjur af forgangsröðun meirihlutans

Árni Rúnar bendir á að fyrirspurninni hafi verið ætlað að minna okkur á að sjálfstæð búseta fatlaðs fólks er sjálfsögð mannréttindi, sem okkur ber skylda til að uppfylla. Á meðan fatlað fólk bíður árum saman á biðlistum eftir húsnæði við hæfi er verið að brjóta á mannréttindum þess. „Allir eiga rétt á þaki yfir höfuðið og fatlað fólk á á rétt á íbúðum í samræmi við sínar þarfir. Sjálfstæð búseta er öllu fullorðnu fólki mikilvæg. Það eru mannréttindi fatlaðs fólks að geta búið á eigin heimili svo það geti lifað sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar,“ segir Árni Rúnar. Hann telur líka að vandinn sé uppsafnaður vegna þess að ekki hafi verið nægjanlega að gert undanfarin ár á vettvangi bæjarstjórnar í þessum mikilvæga málaflokki. Einnig veldur forgangsröðun núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra honum áhyggjum, þar sem Árni Rúnar telur að nýr meirihluti hafi sett störf bæjarstjórnar í uppnám með óeðlilegum vinnubrögðum og óvandaðri stjórnsýslu í tengslum við annars konar húsnæðisvanda í bænum. „Það er mjög mikilvægt að setja þessi mál á dagskrá í umræðunni til þess að fólk átti sig á stöðunni og hversu alvarlegum og erfiðum aðstæðum margar fjölskyldur eru í vegna hennar. Þá er slæmt til þess að vita að meirihluti bæjarstjórnar er upptekinn við að verja óvandaða stjórnsýslu í tengslum við önnur mál,“ segir Árni Rúnar að lokum.

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Málið sett á dagskrá bæjarstjórnar

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, telur mikilvægt að bregðast strax við til þess að leysa úr vanda þeirra sem eru í brýnni þörf. „Af svörum Fjölskyldusviðs að dæma þá er ljóst að staðan er langt frá því að vera viðunandi og Samfylkingin telur mikilvægt að bæjarstjórn fjalli um málið. Þess vegna munum við leggja fram tillögu á næsta bæjarstjórnarfundi um að fela Fjölskylduráði þegar í stað að hefja athugun á því hvernig er hægt að leysa úr bráðavandanum. Tillagan felur í sér að Fjölskylduráð vinni hratt og örugglega og skili tillögum tímanlega svo hægt verði að gera ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlunarvinnu næsta árs. Það er á ábyrgð bæjarstjórnar að leysa úr þessum vanda og ég tel einsýnt miðað við stöðuna núna í Hafnarfirði að bæjarfulltrúar allra flokka ættu að geta sameinast um að leysa vanda þeirra einstaklinga sem eru í brýnni þörf strax við næstu fjárhagsáætlunargerð. Bæjarstjórn getur ekki setið á hliðarlínunni og beðið eftir því að aðrir leysi vandann, hún verður að hafa frumkvæði í málinu,“ segir Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, að lokum varðandi tillöguna frá Samfylkingunni sem lögð verður fyrir á næsta bæjarstjórnarfundi.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: