Ætlum að láta Borgarlínu verða að veruleika

Einar Pétur Heiðarsson verkefnastjóri skipar níunda sæti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Hann er ötull talsmaður bættra almenningssamgangna og mikilvægi Borgarlínu. En hvað er Borgarlína og skiptir hún máli fyrir íbúa í Hafnarfirði?

Einar Pétur Heiðarsson verkefnastjóri skipar níunda sæti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Einar segir Borgarlínu í raun vera betri strætó, kerfi sem aki í sérrými með örari ferðatíðni sem myndi gera almenningssamgöngur að hagkvæmari og raunhæfari kosti fyrir alla. „Þetta skiptir máli fyrir margar fjölskyldur hér í firðinum. Það er mun ódýrara að kaupa árskort í strætó en að reka heimilisbíl númer tvö eða þrjú. Ætli munurinn sé ekki einn á móti fimmtán (kr. 72.000.- fyrir árskort í strætó á móti kr. 1.100.000.- fyrir rekstur og afskriftir á ódýrum fólksbíl samkvæmt FÍB).“

„En Borgarlínan er annað og meira. Hún er grundvallarhugsun í skipulagsmálum alls höfuðborgarsvæðisins. Borgarlínan er forsenda þess að hægt sé að skipuleggja fjölmenn íbúðahverfi án þess að bílastæði fylgi hverri einustu íbúð eins og lagt er til í rammaskipulagi vestur hraunsins eða 5 mínútna hverfisins eins og það hefur verið nefnt. Í því hverfi er gert ráð fyrir allt að 7.000 íbúum sem er um 10% af allri fjölgun íbúa höfuðborgarsvæðisins fram til ársins 2040. Borgarlínan er ein forsenda þess að hægt sé að byggja upp slíkt hverfi með hagkvæmum íbúðum sem þó eru tengdar kjarna atvinnusvæðisins með öflugum almenningssamgöngum.“

Einar segir Borgarlínuverkefnið hluta af langtímahugsun í skipulagsmálum. „5 mínútna hverfið og Borgarlínan eru hvort um sig dæmi um langtímahugsun og samvinnu í skipulagsmálum sem þarf að ná þvert á flokka og yfir mörg kjörtímabil. Nú er það formlega orðið ljóst að sjálfstæðismenn í Reykjavík eru á móti þessu stóra og metnaðarfulla verkefni og félagar þeirra í Hafnarfirði treysta sér ekki til að lýsa yfir fullum stuðningi við það heldur. Með því eru þeir í raun að ganga gegn margra ára vinnu allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þeir standast ekki þá freistni að snúa stóru hagsmunamáli fjöldans upp í stökkpall fyrir sérhagsmuni frambjóðenda sinna. Þannig pólitík vinnur gegn öllu sem heitir langtímahugsun í skipulagsmálum og það er vont fyrir allt samfélagið. Við verðum að reyna að halda stjórnmálunum á ögn yfirvegaðri og betri stað. Við í Samfylkingunni ætlum að halda ótrauð áfram í þessu samstarfi við hin sveitarfélögin og byggja áfram á þeirri vönduðu og góðu vinnu sem hefur verið unnin á þessu sviði. “Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: