Sögðu mér bara að hún væri fíkill

Vilborg Harðardóttir, nemi í viðskiptafræði, er aðeins 21 árs gömul og skipar 10. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún þurft að takast á við mikla erfiðleika sem hafa mótað samfélagslega sýn hennar. Móðurmissir, reynsla af heilbrigðiskerfinu og barátta við að byggja sig upp í kjölfar áfalla urðu til þess að hún gekk til liðs við Unga jafnaðarmenn og hellti sér út í það verkefni að breyta samfélaginu og láta rödd sína heyrast.   

Þegar við ræddum við Vilborgu var hún að koma heim af crossfit æfingu og við spurðum hana út í þetta áhugamál sitt.

„Ég er nú bara búin að æfa crossfit í fimm mánuði. Mér finnst þetta mjög gaman en ég er enginn crossfit-gúrú. Ég er bara að gera þetta fyrir mig. Þegar ég kláraði MR þá leið mér bara ekki nógu vel. Ég ákvað að fara að hreyfa mig aftur og það gerði kraftaverk, ekki bara fyrir líkamann heldur fyrir andlegu heilsuna líka. Hafnarfjörður er heilsueflandi bæjarfélag og ég vil sjá að næstu skref verði að styðja betur við heilsueflingu ungs fólks, gera hana ódýrari og aðgengilegri og bjóða upp á áhugaverða og fjölbreytta valkosti þegar kemur að hreyfingu fyrir ungt fólk. Ég var að æfa handbolta hjá FH í alveg 8 ár sem krakki en hætti svo þegar ég varð unglingur. Þetta er víst gríðarlega algengt hjá unglingsstúlkum og ég vil láta skoða að fara af stað með aðgerðaráætlun um hvernig er hægt að koma í veg fyrir brottfall unglingsstúlkna úr íþróttum. Hvernig getum við komið betur til móts við það sem þær þurfa á þessum viðkvæmu árum. Því við vitum að kvíði og þunglyndi eru að hrjá margt ungt fólk í dag. Annað sem tengist þessu, sem við hjá Ungum jafnaðarmönnum höfum verið að berjast fyrir, er ókeypis sálfræðiþjónusta fyrir ungt fólk. Ungt fólk er að glíma við alls konar hluti og snemmtæk íhlutun á þessu sviði breytir ekki bara lífum fólks heldur er hún gríðarlegur sparnaður fyrir framtíðina, til langs tíma litið.“

Samfélag sem ber virðingu fyrir fólki

Vilborg þurfti sjálf, mjög ung, að glíma við aðstæður sem enginn ætti að þurfa að lenda í á lífsleiðinni.

„Þegar ég er 16 ára tók ég eftir miklum breytingum á mömmu. Hún var með mikla verki, ólík sjálfri sér og fór að drekka mikið. Við fórum margsinnis til læknis, inn á bráðamóttöku og mamma var alltaf bara send heim og okkur sagt að hún væri bara fíkill, alki og geðsjúk. Og við fengum enga hjálp, vorum ekki tekin alvarlega og engar almennilegar rannsóknir gerðar. Einu sinni fórum við inn á spítala og þá var hún með 220 í púls og læknarnir sögðu mér bara að hún væri fíkill og eitthvað biluð í hausnum og ég fór bara að trúa þeim. Svo fór hún inn á Vog í meðferð þegar ég var 17 ára og þar fékk hún stórt flogakast. Þá fyrst var farið að rannsaka málið og þá kom í ljós að hún var með heilaæxli, sem var búið að vera lengi og var orðið mjög stórt. Við tók erfið árslöng barátta við krabbameinið og viku fyrir afmælið mitt, ári seinna, dó mamma. Þessi reynsla breytti alveg sýn minni á samfélagið og hvaða breytinga er þörf. Það má segja að þarna hafi ég orðið jafnaðarmaður. Með því að hugsa um deyjandi manneskju sá ég bara hversu miklu þarf að breyta í samfélaginu okkar. Ég kynntist yndislegum hjúkrunarkonum sem hlúðu að okkur, en kerfið sjálft er meingallað. Það eiga allir að fá sömu heilbrigðisþjónustu, góða heilbrigðisþjónustu. Það á enginn að lenda í því að ekki sé tekið mark á þeim, og hann fái ekki lífsnauðsynlegar rannsóknir og sé bara afskrifaður. Og það á enginn að þurfa að hafa áhyggjur af peningum og kostnaði þegar hann er svo í miðri erfiðri krabbameinsmeðferð. Við getum gert betur! Ég vil samfélag sem ber virðingu fyrir og hlúir að fólki.“

Vilborg segir að það hafi verið í kjölfarið á andláti móður sinnar sem hún fékk áhuga á stjórnmálum.

„Þarna fór ég að velta fyrir mér hvað þarf að breyta miklu í samfélaginu. Á þessum tíma lögðu Óskar Steinn og Eva Lín, kjörnir fulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og meðlimir í Ungum jafnaðarmönnum fram tillögu í bæjarstjórn um að setja hinseginfræðslu inn í alla skóla, og þetta var mikið í umræðunni. Ég var rosalega ánægð með að þetta skyldi fara í gegn, því mér hafði sjálfri fundist þegar ég var í grunnskóla, að það hefði verið allt of grunn og lítil fræðsla um þetta mikilvæga málefni sem hvílir á ungu fólki. En það sem meira var, að ég sá þarna hvað er auðvelt að koma á breytingum. Þetta varð hvatning fyrir mig og ég ákvað að ég vildi líka láta rödd mína heyrast. Ég fór að taka þátt í starfi Ungra jafnaðarmanna og lenti einhvern veginn beint inni á landsþingi þar sem ég sagði sögu mína mjög opinskátt og fann hvað það hjálpaði mér að vekja athygli á þessu brotna kerfi.“

En hvert stefnir Vilborg í framtíðinni?

,,Ég stefni að því að klára námið mitt í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Og svo langar mig bara að finna leiðir til að láta rödd mína heyrast og ná mínum markmiðum. Þetta hljómar eins og rosa klisja en mig langar bara að vera besta útgáfan af sjálfri mér. Ég var líka ung þegar ég gerði mér grein fyrir því hvað sjálfsmynd stelpna og kvenna er brengluð og þetta gerði mig að femínista. Síðan hef ég verið að reyna að skora á sjálfa mig og vinna í að vera betri og sterkari manneskja. Crossfitið hefur hjálpað mér að bæta andlega líðan mína heilmikið svo ég ætla að halda áfram í því. Það hefur hjálpað mér við alls konar markmiðasetningu og hefur gefið mér ákveðinn drifkraft. Síðan er ég í hugleiðslu og hef verið að vinna í sjálfri mér. Og svo eru auðvitað kosningarnar framundan. Ég vil vekja athygli á ýmsum málefnum ungs fólks.

Styðjum við öflugt æskulýðsstarf

Vilborg bendir á að húsnæðismálin, geðheilbrigðismálin og æskulýðsstarf sé ofarlega í huga ungs fólks fyrir komandi kosningar.

„Við verðum að tryggja húsnæði fyrir stúdenta og ungt fólk á viðráðanlegu verði. Ég t.d sé ekki fram á að geta flutt að heiman í bráð. Ég vil auðvitað búa í Hafnarfirði þar sem vinir mínir og ættingjar eru, en það er ekkert húsnæði í boði hér. Margt ungt fólk upplifir einmitt mikið vonleysi gangvart þessu og það ýtir jafnvel enn meira undir andlega vanlíðan ungs fólks sem er annað áhyggjuefni. Við verðum að styðja betur við ungt fólk sem er að glíma við erfiðleika, það á ekki að kosta handlegg og fótlegg. Þegar verið er að skera niður þá bitnar það oftast á æskulýðsstarfi, og þá sérstaklega sértæku æskulýðsstarfi. Þegar talað er um kostnað við æskulýðsstarf í excel skjalinu er aldrei sett inn hver sparnaðurinn af góðu, fjölbreyttu æskulýðsstarfi er til langs tíma. Það er aldrei reiknað með inn í myndina allur sá kostnaður sem sparast hjá fjölskylduþjónustunni, Tryggingastofnun, heilbrigðiskerfinu, í atvinnuleysisbótum o.s.fv. þegar einstaklingur nær að blómstra og fóta sig fyrir sakir æskulýðsstarfsins. Það þarf að setja miklu meiri peninga og metnað í þennan málaflokk.“

Það er gríðarlega mikilvægt að rödd ungs fólks fái að heyrast í samfélaginu. Vilborg tekur undir það.

„Ungt fólk veit best hvaða málefni brenna á ungu fólki. Þess vegna verðum við að láta í okkur heyra. Fólk sem er ekki í okkar stöðu á kannski erfitt með að tengja við þær aðstæður sem við erum í. Margir þeirra sem sitja í bæjarstjórn hafa aldrei þurft að standa frammi fyrir því að sjá ekki fram á geta flutt að heiman, sjá ekki fram á að fá laun eftir nám sem duga fyrir því að borga niður námslán og framfleyta sér. Það er líka margt sem er hægt að læra af okkur unga fólkinu. Við erum vel upplýst um alls konar málefni sem snúa að mannréttindum, fordómaleysi og breyttri heimsmynd.“

Kosningabaráttan leggst vel í Vilborgu og við óskum henni góðs gengis í öllu því sem hún mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

 Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: