Verðum að horfa til framtíðar í málefnum leikskólans

„Það er ekki endalaust hægt að nota leikskólann til atkvæðaveiða rétt fyrir kosningar og láta hann síðan blæða þess á milli. Við ætlum að berjast fyrir leikskólann því við vitum hvað þarf að gera til að leikskólinn verði í fararbroddi skólastiganna og eftirsóttur starfsvettvangur.“

Svava Björg Mörk, Sigríður Ólafsdóttir og Sverrir J. Sverrisson eru leikskólakennarar með áralanga reynslu af starfi með börnum og stjórnun á sviði leikskólamála. Þau eru líka öll í framboði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar sem fram fara þann 26. maí nk. Við hittum þau og ræddum stöðu leikskólans, framtíðarsýnina og brýnustu áskoranir sveitarfélaga í þessum málaflokki.

Samfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að tryggja öllum börnum leikskóladvöl frá 12 mánaða aldri. Ætlunin er að ná þessu markmiði á næsta kjörtímabili með markvissum aðgerðum sem meðal annars miða að því að styrkja innviði skólanna og bæta starfsaðstæður og kjör þeirra sem þar starfa. Eitt af því sem Samfylkingin hefur sett á oddinn er að hefja strax uppbyggingu nýs leikskóla í Suðurbæ, opnun ungbarnaleikskóla og fjölgun ungbarnadeilda. En hvað segir fagfólkið, hvernig verður þessu markmiði best náð og hvernig ætti að forgangsraða aðgerðum þannig að leikskólinn mæti sem best þörfum barna í Hafnarfirði?

Við byrjum á spurningunni sem eflaust kemur upp í huga margra þegar málefni leikskólans eru til umræðu og áherslur stjórnvalda sem miða að því að „brúa bilið“ milli fæðingarorlofs og leikskóla. Er pláss fyrir fleiri börn í leikskólunum og hverjir eiga að sinna þeim börnum sem bætast við með lægri inntökualdri?

Þetta er greinilega spurning sem fagfólkið í leikskólanum hefur reynslu af því að svara og ræða því að hún vekur upp miklar umræður við borðið. Svava Björg segir að margir óttist um leikskólann og finnist varla á það bætandi eins og staðan er í dag að fjölga börnum á meðan ekki sé hægt að sinna þeim börnum sem eru til staðar.

„Til þess að leikskóli teljist góður þurfa aðstæður og umhverfi fyrir bæði börn og fullorðna að vera þannig að öllum líði vel. Umræðan í samfélaginu er stundum þannig að fólki fallast hendur við tilhugsunina um að starfa í leikskóla. Rætt er um álag, of lítið rými og skort á starfsfólki svo fátt eitt sé nefnt. Það er eðlilegt að fólk spyrji hvernig við í Samfylkingunni ætlum að ná þessu markmiði og standa við loforðið um að sinna börnum frá 12 mánaða aldri?“

Þetta eru eðlilegar spurningar segir Svava Björg og bætir við. „Ef við ætlum að ná þessu markmiði þá verðum við að huga að undirstöðunum og byggja markvisst upp. Við verðum að draga úr álagi með því að huga að stærð barnahópa, endurskoða útreikninga leikrýmis á barn og stytta vinnuvikuna. Þessir þrír liðir hafa margföldunaráhrif á vellíðan allra í leikskólanum. Með því að auka rými og fækka heildarfjölda barna í leikrými getum við búið til starfs- og námsumhverfi sem fólki líður vel í.“

Sverrir segir að það sé grundvallaratriði að hlusta á starfsfólk leikskólanna.

“Ef við viljum að eitthvað breytist verðum við að hlusta á sjónarmið fagfólks sem á hverjum degi mætir til vinnu í leikskólunum. Sjónarmið þeirra sem eru í eldlínunni og þekkja á eigin skinni hverjar daglegar áskoranir leikskólans eru. Það samtal er ómetanlegt ef virkilegur vilji er til að taka á hlutunum og finna lausnir. Lausnir fyrir börn, fyrir foreldra og ekki síst fyrir starfsfólk skólanna sem á hverjum degi er að mæta þeim áskorum og kröfum sem hver dagur í leikskólanum býður uppá.”

Sigríður, eða Sigga eins og hún er venjulega kölluð, segir mikilvægt að greina stöðu leikskólans og vinna þannig að úrbótum þar sem þeirra er þörf.

„Leikskólastarfið getur verið erfitt og stundum koma álagstímar, þar sem sumir leikskólar glíma við starfsmannaveltu og veikindi. Mikil starfsmannavelta getur verið mjög íþyngjandi og staðið í vegi fyrir uppbyggingu faglegs starfs. Aðrir álagsþættir eru til dæmis allt of mörg börn í allt of litlu rými. Á fagmáli heitir það barngildi á hvert skilgreint leikrými. Þessir þættir eru dæmi um eitthvað sem veldur streitu bæði hjá börnum og starfsfólki. Streita og álag verður síðan oft til þess að starfsfólk veikist frekar en ella og er frá vinnu, sem veldur undirmönnum, sem enn frekar eykur álag, sem getur birst í veikindum og þannig heldur sjóboltinn áfram að rúlla og stækka. Þess vegna er svo mikilvægt að huga að starfsaðstæðum barna og fullorðinna í leikskólum.“

Leikskólinn grunnur að því sem síðar kemur í lífinu

Næst berst talið að stöðu leikskólans almennt og þróun síðustu ár og áratugi. Er leikskólinn eins og við þekkjum hann í dag eitthvað svipaður og hann var fyrir t.d. 30 árum?

Sigríður segir leikskólann hafa allt aðra og ríkari þýðingu í lífi íslenskra barna í dag en hann gerði fyrir nokkrum áratugum, þó ekki væri nema vegna þess að ólíkt því sem áður var sækja langflest íslensk börn leikskóla í dag og flest þeirra eru í leikskóla í að lágmarki þrjú ár áður en grunnskólaganga hefst.

„Við sem komum að leikskólamálefnum alla daga vitum hvað leikskólaganga barna er mikilvægur þáttur í eflingu þroska þeirra, enda er leikskólinn skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Við þekkjum það frá eigin störfum auk þess sem margar rannsóknir sýna að börn sem hafa gengið í leikskóla eru að jafnaði betur stödd hvað varðar þætti sem teljast til undirstoða góðs gengis í grunnskóla og raun í lífinu öllu. Þættir eins og hljóðvitund, orðaforði, hreyfiþroski og síðast og ekki síst félagsþroski. Við vitum þó að til þess að þessir þættir nái að blómstra og til að leikskólaganga verði góð þá þarf að byggja upp innra starf leikskólanna og gera þá að ákjósanlegum starfsvettvangi.“

Svava Björg segir að of lítið sé rætt um þau börn sem ekki skila sér inn í leikskólann og stöðu þess hóps.

„Það gleymist líka stundum að það eru ekki öll börn sem skila sér inn í leikskólana. Það er ákveðið hlutfall barna sem ekki ganga í leikskóla og það vekur upp spurningar um jafnan rétt og jöfn tækifæri barna. Í einu orðinu tölum við nefnilega um leikskólann sem fyrsta skólastigið og leikskólinn er sannarlega orðinn órjúfanlegur hluti af uppvexti og þroska meginþorra allra barna en það er eftir sem áður hópur sem ekki fær notið þess að vera í leikskóla. Við þurfum líka að skoða ástæður þess og hvort það sé almennt eðlilegt að eitthvað sem við skilgreinum orðið sem hluta af skólakerfinu sé háð greiðslu skólagjalda.“

Ekki endalaust hægt að nota leikskólann til atkvæðaveiða rétt fyrir kosningar

Sverrir segir að það þurfi að breyta um kúrs. „Stefna sem gengur út á halda niðri launum og einkennist af endalausum sparnaði og síendurteknum niðurskurði, er ekki stefna sem gengur upp til framtíðar. Við verðum breyta um kúrs og setja okkur markmið um uppbyggingu sem miðar fjölbreyttu og faglegu starfi.“ Svava Björg fagnar því að Samfylkingin vilji leggja áherslu á þetta skólastig og leggja við hlustir, og Sigga og Sverrir taka undir það.

„Það er ekki endalaust hægt að nota leikskólann til atkvæðaveiða rétt fyrir kosningar og láta hann síðan blæða þess á milli. Við ætlum að berjast fyrir leikskólann því við vitum hvað þarf að gera til að leikskólinn verði í fararbroddi skólastiganna og eftirsóttur starfsvettvangur.

 Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: