Tók þátt í að reka minnsta sveitarfélag landsins

Sigrún Sverrisdóttir hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur. Hún gekk í ungliðadeild björgunarsveitar Hafnarfjarðar aðeins 13 ára gömul og var komin á útkallslista aðeins 18 ára að aldri. Hún hefur komið að rekstri heils sveitarfélags, rekið sundlaug og kennir nú skyndihjálp hjá Björgunarskólanum. Nú er hún komin í framboð og skipar 3. sætið á lista Samfylkingarinnar.

Sigrún er alin upp í vesturbænum og hraunið var hennar ævintýraheimur sem barn.

„Ég er alin upp í vesturbænum í Hafnarfirði. Amma mín, Sigrún Þorleifsdóttir, kölluð Dúna, rak Blómabúðina Burkna og var ég mikið hjá henni sem barn. Helsta leiksvæði okkar krakkanna var svo hraunið í kringum gömlu sundlaugina og í Hellisgerði. Hraunið í Hafnarfirði er náttúrulega ævintýraheimur út af fyrir sig. Og ég var farin að leika mér ofan í gjótum og sprungum löngu áður en ég byrjaði í björgunarsveitinni, kannski áhuginn hafi vaknað þar.“

Sigrún hefur verið virk í starfi björgunarsveitar Hafnarfjarðar og byrjaði í unglingastarfi sveitarinnar þegar hún var 13 ára.

„Ég byrjaði 13 ára í Björgúlfi, unglingadeild björgunarsveitarinnar en Björgúlfur er ein elsta unglingasveit landsins. Þetta voru aðrir tímar. Í þá daga stýrðum við starfinu að mestu leiti sjálf, skipulögðum ferðir sem við fórum í og gerðum ýmsa hluti sem myndu aldrei ganga árið 2018. Ég efast um að foreldrar í dag myndu samþykkja að skutla 13 ára unglingnum sínum upp á heiði og skilja hann eftir þar og leyfa honum að bjarga sér sjálfum til byggða. En þetta var ótrúlega flottur hópur. Við fjármögnuðum okkur nánast alveg sjálf og fengum frábæran stuðning frá baklandi eldri félaga. Ég hóf svo nýliðaþjálfun í björgunarsveitinni þegar ég var 16 ára og var komin á útkallslista strax 18 ára. Ég hef lent í ótal ævintýrum með sveitinni. Ég man t.d eftir einu skipti þegar við ætluðum að sigla niður Tungnaá á gúmmíbát nokkur saman. En það var svo lítið vatn í ánni að við enduðum á að ganga 25 km í vatni með gúmmíbát í bandi. Ég hef lengst af verið í landflokki en seinni árin í leitartækni og þjálfun nýliða.“

Nýliðaþjálfunin mest gefandi

„Það sem er skemmtilegast við það að vera félagi í björgunarsveit er að í gegnum starfið hef ég eignast frábæra vini og félaga. Ég hef haft tækifæri til þess að sinna útivist, bæta við þekkinguna mína á því sviði og gera ótal frábæra hluti í þessum félagsskap. Það hefur gefið mér mikið að fá að taka þátt í að þjálfa nýliða. Ég er alltaf að kynnast nýju og skemmtilegu fólki og fæ að sjá fólk skora á sig, yfirstíga takmarkanir og uppgötva styrkleika sína og veikleika. Björgunarsveitin er frábær vettvangur fyrir fólk sem vill koma að gagni í samfélaginu og fá til þess markvissa þjálfun.“

Starfar við að kenna skyndihjálp

Sigrún vann í Sparisjóði Hafnarfjarðar í nokkur ár en stofnaði svo fjölskyldu. Í dag starfar hún við kennslu í skyndihjálp, meðal annars í Björgunarskólanum.

„Ég fór að vinna í Sparisjóði Hafnarfjarðar þegar ég var unglingur og vann þar í 5-6 ár. Ég stofnaði fjölskyldu og ég og maðurinn minn eigum í dag samtals þrjú börn. Það var svo ekki fyrr en ég var orðinn 26 ára að ég dreif mig í nám og fór í Flensborg og kláraði stúdentinn. Ég var svo gæfusöm að þá var ekki komin á þessi 25 ára regla, sem þýddi að ég gat skráð mig í dagskóla á meðan ég var enn í fæðingarorlofi. Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagið okkar styðji við fólk sem vill mennta sig, ekki síst fólk sem af einhverjum orsökum hafði ekki tök á því að fara í nám strax að loknum grunnskóla. Eins og þetta er í dag þá getur það verið gríðarlega kostnaðarsamt að fara í nám eftir 25 ára aldur. Þau samfélög sem við viljum bera okkur saman við leggja áherslu á að fólk geti menntað sig. Það er staðreynd að menntun er undirstaða góðs samfélags. Það græða allir á því að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum menntatækifærum. Ég blómstraði í Flensborg og kláraði stúdentinn með trompi. Að loknu námi þar hóf ég störf hjá Íslandsbanka þar sem ég starfaði þangað til ég flutti í Árneshrepp. Í dag starfa ég svo sem verktaki við að kenna skyndihjálp, m.a fyrir Björgunarskólann.“

Tók þátt í að reka minnsta sveitarfélag landsins

Aðspurð um pólitíska þátttöku segir hún að þetta sé í fyrsta sinn sem hún bjóði sig fram.

„En fyrir nokkru tók ég þátt í að reka minnsta sveitarfélagið á landinu, Árneshrepp. Það kom þannig til að ég og Davíð, maðurinn minn, réðum okkur til þess að sjá um Krossneslaug árið 2014. Þetta er alveg dásamleg sveitalaug sem er staðsett niðri í fjöru. Okkur hafði lengi langað að breyta til og þegar sumarið var liðið ílengdumst við. Ég réði mig á skrifstofu Árneshrepps og þar tók ég þátt í öllu sem tengist því að reka sveitarfélag. Því þó að sveitarfélag sé jafn lítið og Árneshreppur þá hefur það öllum sömu skyldum að gegna og stóru sveitarfélögin. Þarna var ég einn daginn að panta ormalyf fyrir hunda, þann næsta að reka höfn og skóla og þann þriðja að skipuleggja réttir og allt þar á milli.“

Hvers vegna bæjarstjórn?

„Ég vil að bærinn verði samkeppnishæfur búsetukostur. Að það sé ekki dýrara að búa í Hafnarfirði en í sveitarfélögunum í kring. En sem dæmi þá er í dag mun dýrara fyrir barnafjölskyldur að búa í Hafnarfirði en í nágrannabæjunum. Hér hafa fasteignaskattar hækkað, leikskólagjöld eru há, það hefur lítið verið byggt af nýju húsnæði o.s.frv. Það á að vera best að búa í Hafnarfirði og ég ætla að stefna að því. Það verður áskorun, en ég er vön áskorunum og hræðist þær ekki.“Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: