Verktakar gagnrýna kyrrstöðu í Hafnarfirði

Samkvæmt talningunni eru aðeins 150 íbúðir í byggingu og verktakar í Hafnarfirði sjá engin verkefni í kortunum næstu árin. Fram kom í máli formannsins að hafnfirskir verktakar væru farnir að leita til nágrannasveitarfélaga eftir verkefnum en það hafi ekki gerst áður í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður rekur lestina á meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að íbúðum sem eru í byggingu. Verktakar í Hafnarfirði gagnrýna stöðuna harðlega og sjá engin verkefni í kortunum næstu árin. Frambjóðandi Samfylkingarinnnar telur stöðuna algjörlega óviðunandi og að bæjarfélagið verði að standa sig í því að tryggja nægt framboð af lóðum og ýta þannig undir fjölbreytta valkosti í húsnæðismálum. Varabæjarfulltrúi og frambjóðandi Samfylkingarinnar segir að meginástæða stöðnunarinnar í Hafnarfirði sé ósamstaðan innan núverandi meirihluta sem hafi hamlað allri vinnu frá fyrsta degi.

Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði, MIH, stóð fyrir fundi þann 26. apríl sl. þar sem öllum framboðum til sveitarstjórnar í Hafnarfirði var boðið að kynna áherslur sínar í byggingar– og mannvirkjamálum. Á fundinum fór formaður félagsins yfir talningu Samtaka iðnaðarins á fjölda nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu. Þar kom fram að Hafnarfjörður stendur lakast allra sveitarfélaga hvað varðar nýframkvæmdir íbúðabygginga. Samkvæmt talningunni eru aðeins 150 íbúðir í byggingu og verktakar í Hafnarfirði sjá engin verkefni í kortunum næstu árin. Fram kom í máli formannsins að hafnfirskir verktakar væru farnir að leita til nágrannasveitarfélaga eftir verkefnum en það hafi ekki gerst áður í Hafnarfirði.

Sigrún Sverrisdóttir, sem skipar 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, segir að staðan á húsnæðismarkaði sé algerlega óviðunandi.

Verðum að tryggja nægt framboð af húnsæði á viðráðanlegum kjörum

Sigrún Sverrisdóttir, sem skipar 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, segir að staðan á húsnæðismarkaði sé algerlega óviðunandi. „Það eru stórir hópar sem geta einfaldlega ekki fótað sig við núverandi aðstæður. Mörg sveitarfélög hafa verið að gera töluvert til þess að reyna að bæta stöðuna en því miður er Hafnarfjörður ekki þar á meðal. Hafnarfjörður sker sig raunar úr hvað þetta varðar. Borið saman við nágrannasveitarfélögin Reykjavík, Garðabæ og Kópavog þá hefur mjög lítil uppbygging átt sér stað í Hafnarfirði síðustu fjögur ár, eða á meðan núverandi meirihluti hefur verið við völd í bænum. Þessu verðum við að breyta,“ segir Sigrún Sverrisdóttir um þetta brýna mál.

Samfylkingin setur húsnæðismálin í fyrsta sæti

Sigrún heldur áfram að tala um mikilvægi þess að skapa jarðveg í sveitarfélaginu til þess að bjóða upp á fjölbreytta valkosti í húsnæðimálum. „Samfylkingin er velferðarflokkur sem leggur áherslu á húsnæðisöryggi allra og til þess að stuðla að því verður sveitarfélagið einfaldlega að tryggja nægt framboð af lóðum og bjóða upp á fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði,“ segir Sigrún og hún minnir einnig á að Samfylkingin vill stofna til samstarfs við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni um margvíslega húsnæðisuppbyggingu. „Við viljum leita til þessara félaga um samstarf um uppbyggingu stúdentaíbúða, íbúðum fyrir eldri bæjarbúa og tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga,“ segir Sigrún að lokum um húsnæðismálin sem hafa verið mikið til umræðu í kosningabaráttunni.

 

„Orsakir þeirrar stöðnunar sem hefur orðið í uppbyggingu í Hafnarfirði er ekki að finna í skorti á faglegum undirbúningi, vandinn hefur miklu frekar legið í stefnuleysi núverandi meirihluta.“

Ósamstaða innan meirihlutans undirrót vandans

Friðþjófur Helgi Karlsson, sem skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar, hefur verið verið varabæjarfulltrúi á yfirstandandi kjörtímabili auk þess að vera fulltrúi Samfylkingarinnar í Umhverfis– og framkvæmdaráði. Hann hefur kynnt sér húsnæðismálin mjög vel á undanförnum árum og látið til sín taka í þeim. „Orsakir þeirrar stöðnunar sem hefur orðið í uppbyggingu í Hafnarfirði er ekki að finna í skorti á faglegum undirbúningi, vandinn hefur miklu frekar legið í stefnuleysi núverandi meirihluta. Þar hefur hver hendin verið upp á móti annarri frá fyrsta degi og flokkarnir tveir í meirihlutanum hafa haft gjörólíka sýn á þróun byggðar í bænum. Þetta hefur hamlað uppbyggingu og við sjáum nú að verktakar gagnrýna mjög harðlega kyrrstöðuna í Hafnarfirði og eru farnir að leita yfir í nágrannasveitarfélögin. Núverandi meirihluti undir forystu Sjálfstæðisflokksins ber alla ábyrgð á þessari vondu stöðu og það verður ærið verkefni fyrir nýjan meirihluta að taka til í þessum málaflokki og koma hreyfingu á hann eftir að hann hefur svo rækilega verið vanræktur af Sjálfstæðisflokknum og fyrrum Bjartri Framtíð síðastliðin fjögur ár,“ segir Friðþjófur Helgi um stöðuna á framkvæmdum við íbúaðabyggingar í Hafnarfirði í dag.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: