Járnkarl í stjórnmálin

„Hafnarfjörður ætti að leggja áherslu á aðgengi allra íbúa að íþróttum og heilsueflingu óháð efnahag. Það á ekki að skipta máli á hvaða aldri fólk er. Það á að ríkja fjölbreytt val þar sem iðkendur geta látið styrkleika sína njóta sín en um leið búið sér betri framtíð með skipulagðri hreyfingu.“

Steinn Jóhannsson konrektor við MH og íþróttagarpur með meiru æfði eitt sinn líkamsrækt í 7 ár samfleytt án þess að missa úr einn einasta dag. Hann ferðast alltaf til vinnu á hjólinu og nú er hann kominn í stjórnmálinn, eldhress að venju.

Hvenær byrjaðir þú fyrst að hjóla af krafti?

Ætli áhuginn hafi ekki vaknað strax þegar ég var krakki. Ég er úr Þykkvabæ í Rangárvallasýslu þar sem ég er alinn upp af ömmu og afa sem voru kartöflubændur. Sem barn hafði ég mjög gaman af silungsveiði sem ég hóf að stunda 10 ára gamall og þá fór ég á hjólinu langa vegalengd niður í Ós sem rennur út í Þjórsá og þar eyddi maður löngum stundum á hverju sumri, á hjólinu og að veiða. Eitt skiptið fékk ég mjög vænan silung og þurfti þá að flýta mér heim að flytja fréttirnar. Á leiðinni heim byrjaði ég að finna fyrir skerandi sársauka og skildi ekkert hvað var að. Svo kom í ljós að í öllum hamaganginum hafði öngullinn farið í hnéð og fest sig. Ég reif hann úr og hjólaði svo áfram heim eins hratt og ég gat og fiskurinn var svo eldaður daginn eftir.

Hvenær fluttir þú svo í fjörðinn?

Ég flutti í bæinn til móður minnar til að fara í framhaldsskóla og æfa íþróttir en þessi möguleiki var ekki fyrir hendi í sveitinni. Ég bjó fyrst um sinn í Reykjavík og hóf að stunda frjálsíþróttir með ÍR. En ég skipti fljótt yfir í FH enda átti ég marga vini í Hafnarfirði og þar kynntist ég jafnframt eiginkonunni Súsönnu Helgadóttur en hún er fædd á Sólvangi og alinn upp í Hafnarfirði. Í dag eigum við saman þrjú börn, Helgu Rut og tvíburana Hinrik Snæ og Þórdísi Evu.

Hvaða íþróttir hefur þú verið að æfa?

Millivegalengdir lágu vel fyrir mér enda hafði ég gaman af því í sveitinni að hlaupa á eftir sauðfénu okkar. Ég var lánsamur að æfa með góðum hópi hlaupara þ.á m. Finnboga Gylfasyni, Jóhanni Ingibergssyni, Frímanni Hreinssyni, Gísla Ásgeirssyni, Birni Traustasyni og Magnúsi Haraldssyni. Það var oft fjör á æfingum hjá okkur og mikið keppnisskap í hópnum. Síðar á lífsleiðinni fór ég að stunda garpasund með SH og svo fylgdi þríþrautin í kjölfarið þar sem minn helsti æfingafélagi var Torben Gregersen. Síðustu ár hef ég verið mest í sundinu en á tímabilinu 2008-2014 var þríþrautin í öndvegi og lauk ég m.a. fjórum járnkörlum á því tímabili.

Á tímabili mátti ég ekki missa úr dag og m.a. æfði ég í sjö og hálft ár samfellt án þess að missa úr einn einasta dag. Þetta gekk svo langt að ef ég átti flug snemma að morgni þá æfði ég kl. 02:00 um nóttina til að missa ekki úr því ég gat ekki tekið sénsinn á því að seinkun myndi raska æfingum.

Hvað æfir þú oft?

Ég hef alltaf haft gaman af því að stunda æfingar sama hvort það eru hlaup, hjólreiðar eða sund. Suma daga æfi ég kannski tvisvar á dag. Á tímabili mátti ég ekki missa úr dag og m.a. æfði ég í sjö og hálft ár samfellt án þess að missa úr einn einasta dag. Þetta gekk svo langt að ef ég átti flug snemma að morgni þá æfði ég kl. 02:00 um nóttina til að missa ekki úr því ég gat ekki tekið sénsinn á því að seinkun myndi raska æfingum.

Hver var stærsta áskorunin?

Ég veit það ekki alveg. Eitt sinn skráði Gísli Ásgeirsson góður vinur minn okkur báða í Íslandsmót í 6 klukkutíma hlaupi. Undan því var ekki skorast og hlupum við þessa keppni við Öskjuhlíðina í roki, rigningu og 4 stiga hita. Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef gert og þurfti maður að pína sig vel síðasta klukkutímann með alvarlega sinadrætti í kálfum og orðinn ískaldur. Árangurinn var kannski vonum framar því ég fór tæpa 70km í þessum ömurlegu aðstæðum og setti Íslandsmet. Eftir þessa áskorun tók þríþrautin við og auðvitað tókum við félagarnir Gísli og ég járnkarla saman erlendis og var það mikið ævintýri. Þegar keppt er í járnkarli þá lítur maður á það sem gott dagsverk, þ.e. synda 3,8 km, hjóla 180 km og hlaupa maraþon 42,2 km í lokin. Þetta var sannarlega áskorun sem reyndi mikið á hugann. Oft þegar manni líður illa og er orðinn vel þreyttur þá er ekkert að gera nema bíta á jaxlinn og halda áfram. En ætli stærsta áskorunin sé ekki framundan; stjórnmálin og að reyna að bæta samfélagið?

Hvað er svo framundan?

Framundan er Íslandsmót Garpa í sundi í Ásvallalaug. Þar er stefnt á góðan árangur og að ná aftur Íslandsmeistaratitlinum sem Ægir náði af okkur í fyrra.

Hvað færðu út úr hreyfingu og íþróttum?

Ég lít á íþróttir sem slökun og hugarhreinsun. Þegar ég hjóla t.d. í vinnuna þá er það minn jógatími. Ég hef hjólað í vinnuna í tæp 10 ár og það er frábær hreyfing og ég gleðst yfir því að sjá að sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu eru stöðugt að bæta aðstöðuna. Svo er félagsskapurinn dýrmætur í kringum hreyfinguna og þar hef ég eignast marga af mínum bestu vinum.

Hvað á Hafnarfjörður að leggja áherslu á þegar kemur að heilsueflingu?

Hafnarfjörður ætti að leggja áherslu á aðgengi allra íbúa að íþróttum og heilsueflingu óháð efnahag. Það á ekki að skipta máli á hvaða aldri fólk er. Það á að ríkja fjölbreytt val þar sem iðkendur geta látið styrkleika sína njóta sín en um leið búið sér betri framtíð með skipulagðri hreyfingu. Einnig þarf að ríkja jafnræði milli niðurgreiðslna til íþrótta og tómstunda og ég tel að frístundastyrkir ættu að vera hærri þar sem íþróttir og tómstundir eru besta forvörnin fyrir börn og unglinga. Einnig er mikilvægt að bæjarfélagið styðji vel við ólíkar íþróttagreinar og gæti jafnræðis þar. Ég gleðst yfir því að eldri borgarar eru t.d. að nýta frjálsíþróttahúsið í Kaplakrika og það mætti einnig nýta önnur íþróttamannvirki meira í þágu íbúanna. Ég vil líka sjá bæjarfélagið setja upp leiðarvísa um hlaupa- og hjólaleiðir í bæjarfélaginu því sá hópur fer ört vaxandi sem heimsækir bæjarfélög og leitar eftir íþróttatengdri afþreyingu. Ég vil meina að Hafnarfjörður sé stærsta almenningsíþróttafélag landsins þar sem við erum með tvo af stærstu hlaupahópum landsins, þ.e. í FH og Haukum. Í lokin hvet ég foreldra til að taka þátt í starfi íþróttafélaganna og fjölga þannig samverustundum með börnunum sínum. Gott starf íþróttafélaganna mæðir oft á fáum útvöldum og nýtt fólk er alltaf velkomið í starfið.

 Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: