Hagsmunaskráningu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ábótavant

Einungis tveir af fimm bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hafa farið eftir reglum bæjarstjórnar um hagsmunaskráningu. Allir bæjarfulltrúar annarra flokka hafa farið eftir reglunum.

Að frumkvæði bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var komið á fót reglum um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa hjá Hafnarfjarðarbæ. Meginmarkmið reglnanna er að veita almenningi upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf bæjarfulltrúa og fulltrúa í ráðum á vegum bæjarstjórnar til þess að að auka gagnsæi á störfum bæjarstjórnar. Eftir miklar umræður um reglurnar í bæjarstjórn, þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu margvíslegar athugasemdir við málið og tilgang þess, voru reglurnar loksins samþykktar sumarið 2016. Tæp tvö ár eru því liðin frá samþykkt reglnanna. Í 7. gr. þeirra kemur fram að reglurnar taki gildi þegar í stað og að skráðar upplýsingar muni verða aðgengilegar á vef Hafnarfjarðarbæjar frá 1. september 2016. 2. gr. þeirra kveður á um að innan mánaðar frá því að ný bæjarstjórn er kjörin þá skuli fulltrúar gera opinberlega grein fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og trúnaðarstörfum utan bæjarstjórnar, ráða og hafnarstjórnar.

Árni rúnar segir að virðingarleysi Sjálfstæðisflokksins gagnvart reglum bæjarstjórnar valdi vonbrigðum en það sé hins vegar algjörlega í takti við það sem hafi sést frá meirihlutanum undir forystu Sjálfstæðisflokksins á síðustu vikum og mánuðum.

Virðingarleysi Sjálfstæðisflokksins veldur vonbrigðum

Árni Rúnar Þorvaldsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Hafnafirði, sem skipar 5. sætið á lista flokksins, segir það koma á óvart að minnihluti bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins skuli vera búinn að gera grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum á meðan allir bæjarfulltrúar annarra flokka eru búnir að gera skilmerkilega grein fyrir sínum. Einungis tveir af fimm bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hafa séð ástæðu til þess að fara eftir reglum bæjarstjórnar sem hafa verið í gildi í tæp tvö ár. „Eitt mikilvægasta atriðið fyrir bæjarstjórn er að hún njóti trausts og gagnsæi í vinnubrögðum fulltrúa hennar er ein af meginforsendum þess að hún njóti trausts. Virðingarleysi Sjálfstæðisflokksins gagnvart þessum mikilvægu reglum sem ætlað er að auka gagnsæi í störfum bæjarstjórnar, veldur því verulegum vonbrigðum. Það er því ekki óeðlilegt að einhverjir kunni að spyrja sig hvort flokkurinn eða fulltrúar hans hafi eitthvað að fela vegna þess að þetta eru upplýsingar sem er mjög eðlilegt að kjósendur í Hafnarfirði – almenningur – hafi aðgang að,“ segir Árni Rúnar Þorvaldsson um stöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu veigamikla máli.

Glundroðinn að verki

Árni Rúnar vill halda áfram að auka gagnsæi í störfum bæjarstjórnar á næsta kjörtímabili. „Það er mikilvægt að bæjarbúar geti gengið út frá því að kjörnir fulltrúar gangi aldrei erinda annarra en umbjóðenda sinna, þ.e. almennings í bænum. Fólk á rétt á því að vita hverjir hagsmunir kjörinna fulltrúa eru og að þeir segi sig þá frá þeim málum þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum. Glundroðinn hefur verið aðaleinkennið á störfum meirihlutans undir forystu Sjálfstæðisflokksins á yfirstandandi kjörtímabili. Og það er mjög alvarlegt að hann skuli vera slíkur að bæjarfulltrúarnir skuli láta undir höfuð leggjast að gera grein fyrir mikilvægum fjárhagslegum hagsmunum sínum og öðrum mikilvægum hagsmunum og rýra þannig traust almennings á bæjarstjórn Hafnarfjarðar. En það rímar svosem algjörlega við þau vinnubrögð og þann glundroða sem við höfum orðið vitni að í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á undanförnum mánuðum,“ segir Árni Rúnar Þorvaldsson og vísar hér til mála sem nú er búið er að kæra til Samgöngu – og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna brottreksturs varabæjarfulltrúa fyrrum Bjartrar Framtíðar úr öllum nefndum og ráðum bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: