Ákvörðun um skerðingu á opnunartíma sundlauga dregin til baka

Fræðsluráð samþykkti á fundi sínum í dag að draga til baka fyrri ákvörðun sína um að skerða opnunartíma sundlauga í sumar en málið var tekið til umfjöllunar að frumkvæði fulltrúa minnihlutans á síðasta fundi bæjarstjórnar. Þar aftók bæjarstjóri með öllu að nokkur skerðing á opnunartíma væri fyrirhuguð og sakaði fulltrúa minnihlutans um rangfærslur og óheiðarlegan málflutning.

Fulltrúar minnihlutans höfðu sett málið aftur á dagskrá bæjarráðs sem fundar á morgun og lá fyrir þeim fundi tillaga frá fulltrúum Samfylkingar og VG um að fyrirhuguð skerðing á opnunartíma yrði dregin til baka. Málið var hinsvegar ekki á útsendri dagskrá fræðsluráðs sem fundaði í dag en fulltrúar meirihlutans óskuðu eftir því að málið yrði tekið þar á dagskrá með afbrigðum og lögðu fram efnislega sömu tillögu og var á dagskrá bæjarráðs.

Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar segir þó það sé auðvitað broslegt að Rósa Guðbjartsdóttir formaður fræðsluráðs, sem jafnframt gegnir formennsku í bæjarráði, hafi ekki getað unað því að tillaga minnihlutans fengi eðlilega afgreiðslu í bæjarráði og hafi valið að fara frekar þessa leið sé það efnilega niðurstaðan sem skipti máli. Ákvörðunin hafi verið dregin til baka og um leið staðfest að bæjarstjóri hafi farið algjörlega fram úr sér í umræðu um málið í bæjarstjórn í síðustu viku.

„Við munum eftir sem áður fylgja því eftir að opnunartími sundlauga í Hafnarfirði verði lengdur til samræmis við það sem tíðkast í nágrannasveitarfélögunum, enda teljum við að frekari nýting sundlauganna sé einhver sú besta ráðstöfun sem sveitarfélagið geti ráðist í varðandi bætta lýðheilsu fólks á öllum aldri. Við munum sömuleiðis fara fram á að allt þetta ákvarðanatökuferli verði yfirfarið og kjör starfsmanna sundlauga verði varin og eftir atvikum leiðrétt í þeim tilvikum sem þau hafa verið skert í tengslum við þessar aðgerðir“.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: