Vilja ekki annan Norðurbakka við Flensborgarhöfn

Guðmundur Ingi Markússon íbúi í suðurbæ Hafnarfjarðar hefur staðið fyrir undirskriftasöfnun gegn byggingum fimm hæða blokka við Flensborgarhöfn. Bærinn okkar heyrði í Guðmundi og ræddi við hann um áhyggjur hans af fyrirliggjandi framkvæmdum.

Hvað varð til þess að þú fórst af stað með þessa undirskriftasöfnun?
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti að byggja fimm hæða háhýsi á hafnarkanti Flensborgarhafnar í trássi við nýlega skipulagslýsingu. Húsin geta orðið allt að tuttugu og tveggja metra há. Fyrir það fyrsta mun þetta byrgja sýn. Íbúar suðurbæjar hafa einstakt útsýni út á hafið og yfir Snæfellsjökul og Garðaholt. Það eru lífsgæði sem þessi tuttugu og tveggja metra háhýsi munu draga úr. Í öðru lagi eiga þessar byggingar eftir að verða mjög áberandi og á meðal helstu kennileita Hafnarfjarðar. Ég spyr, viljum við að það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar minnst er á Hafnarfjörð séu blokkir? Blokkabærinn Hafnarfjörður? Þetta snýst líka um ásýnd bæjarins. Þar að auki sé ég ekki þörfina á þessu en stærð bygginganna er langt umfram húsnæðisþörf Hafrannsóknastofnunar sem áætlað er að flytji aðeins í hluta húsnæðisins.

Hverju vonar þú að undirskriftasöfnunin skili?
Við vonum auðvitað að bæjaryfirvöld taki málið til endurskoðunar. Það er búið að kæra framkvæmdina og kæran býður meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Síðast þegar ég vissi var ekki búið að taka kæruna fyrir. Það sætir því furðu að framkvæmdir séu hafnar. Manni svíður hvernig athugasemdir íbúa voru afgreiddar sem hvert annað hjóm og talað um að þetta snúist um þéttingu byggðar. Það er öllum ljóst sem vilja sjá að svo er ekki. Þetta snýst einfaldlega um að hámarka hagnað verktaka á hvern fermetra.

GIM_Brx

Lengi hélt maður að yfirvöld hefðu lært eitthvað af Norðurbakkanum. Þegar skipulagslýsing var samþykkt árið 2016 þar sem talað er um lágreistar byggingar í sátt við nærliggjandi byggð hélt ég í einfeldni minni að farið yrði eftir þeim og að fagleg stjórnsýsla fengi einu sinni að ráða. Þess vegna tók ég þessar hugmyndir ekki alvarlega í fyrstu og mig grunar að þannig hafi það verið með marga bæjarbúa. Til hvers að fara í samráð við íbúa, ráða verkefnisstjóra og vinna tillögur ef ekki er farið eftir þeim? Góð samantekt á þessari góðu vinnu er á síðunni: https://flensborgarhofn.wordpress.com/
Það skiptir máli að láta heyra í sér núna þar sem þessi háhýsi gætu hæglega skapað fordæmi um framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Við viljum ekki annan Norðurbakka.

Hvað margir hafa skrifað undir mótmælin?
Facebook-síðan og undirskriftalistinn eru einstaklingsframtak. Hugmyndin kviknaði á þræði inn á Facebook-síðunni Hafnarfjörður og Hafnfirðingar þar sem margir lýstu áhyggjum sínum. Þeir nálgast hundraðið sem hafa skrifað undir listann og líkað við síðuna. Fjöldinn vex hægt og þétt dag frá degi. Ég hvet fólk til að skoða listann og þær athugasemdir sem fólk hefur sett inn.

gim_mengi_7april2018

Guðmundur að spila með hljómsveitinni Reptilicus Ljósmyndari: Steinn Þorkelsson

Hvernig sérð þú sjálfur fyrir þér að framtíðarskipulagið á höfninni?
Fyrir það fyrsta vil ég að hún sé í samræmi við skipulagslýsinguna sem var samþykkt árið 2016: lágreistar byggingar í sátt við nærliggjandi byggð. Annars sé ég fyrir mér skemmtilega starfsemi í framhaldi af Drafnarhúsinu og Íshúsinu, eitthvað sem gestir og gangandi geta notið líkt og maður sér við hafnir víða erlendis. Margar góðar hugmyndir komu fram þegar skipulagslýsingin frá 2016 var undirbúin.
Ég hvet fólk til að ganga með fram ströndinni frá slippnum niður í miðbæ og virða fyrir sér bæjarmyndina. Fjörður og nærliggjandi byggingar og Norðurbakkinn blasa við og girða fyrir gamla bæinn. Það er nánast eins og verið sé að reyna að fela hinn sögulega Hafnarfjörð.
Það kveður við annan tón þegar maður gengur til baka. Gamli Suðurbærinn er enn vel sýnilegur. Þar er hæð nýbygginga stillt í hóf. Tónlistarskólinn og safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju eru góð dæmi um vel heppnaðar nýbyggingar. Við fyrstu sýn virðast tillögurnar á Dvergsreitnum vera nokkuð góðar. Nýju háhýsin við höfnina munu kannski ekki draga fyrir Suðurbæinn en þau verða á skjön við byggðina, tala nú ekki um ef þau skapa fordæmi og haldið verði áfram á sömu nótum.

Hvernig er að búa í Hafnarfirði?
Ég hef búið í Hafnarfirði í fimmtán ár og er giftur inn í gamla Gaflarafjölskyldu eins og maður segir. Við hjónin eigum þrjú börn sem öllum hefur liðið vel í bænum. Ég starfa á skrifstofu inni í Reykjavík og get yfirleitt ekki beðið eftir því að komast heim í fjörðinn þar sem ég vil helst vera.

Hvað er svo framundan hjá þér?
Ég hef mikinn áhuga á tónlist og hef verið í rafsveitinni Reptilicus í brátt 30 ár. Við erum í hinum og þessum verkefnum, nú um stundir mest með Kanadamönnum. Í byrjun apríl spiluðum við í Mengi í sambandi við eitt slíkt verkefni. Þetta er jaðartónlist sem gengur meira út á að skapa hljóð en tónlist. Góð tilbreyting frá skrifstofunni.

Slóðir:
https://www.petitions24.com/ekkihahysiFlokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: