Skertur opnunartími sundlauga: bæjarstjórinn segist koma af fjöllum

Fulltrúar Samfylkingarinnar ætla að leggja til að ákvarðanir meirihlutans um skertan opnunartíma og skert laun starfsfólks verði leiðréttar strax.

Nokkuð sérkennileg uppákoma átti sér stað á síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar spurði bæjarstjóra um fyrirhugaðar breytingar á opnunartíma sundlauga og málefni sem snerta launakjör starfsfólks í sundlaugum.

Málið hefur frá upphafi verið kynnt fyrir bæjarstjórn sem um væri að ræða lengri opnunartíma og bætta þjónustu. Hvergi í afgreiðslum bæjarstjórnar kemur fram að í reynd sé verið að hagræða opnunartímanum í þeim tilgangi að draga úr launakostnaði.

Í máli Gunnars Axels, sem m.a. vísaði til fyrirliggjandi minnisblaða sem lögð höfðu verið fyrir íþrótta- og tómstundanefnd og fræðsluráð, kom meðal annars fram að þrátt fyrir að reynst hafi nauðsynlegt að segja upp samningum allra starfsmanna lauganna til þess að hrinda breytingunum í framkvæmd og starfsfólk hafi ítrekað mótmælt meintri aðför að réttindum sínum og starfskjörum, hafi bæjarstjóri ekki enn séð ástæðu til að upplýsa bæjarráð eða bæjarstjórn um málið.

Gunnar Axel segir það kaldar kveðjur sem núverandi meirihluti sendi starfsfólki sundlauga á baráttudegi verkafólks þetta árið en á þeim degi er einmitt meiningin að umræddar breytingar taki gildi, þ.e. 1. maí nk. Þá eigi að þvinga í gegn breytingar á þjónustu sundlauga Hafnarfjarðarbæjar sem fela í sér skerðingu á starfskjörum þeirra sem þar starfa. Að mati Gunnars Axels er þetta enn eitt dæmið um skort á vilja núverandi meirihluta til að hlusta á og taka tillit til sjónarmiða þeirra sem starfa fyrir sveitarfélagið og sinna beinni þjónustu við bæjarbúa.

Opnað seinna á morgnana og opnunartími á föstudögum styttur

Í máli Gunnars Axels kom einnig fram að þær upplýsingar sem fram komi í greinargerð með fjárhagsáætlun væru algjörlega á skjön við þá framkvæmd sem síðan hafi verið boðuð og hrint í framkvæmd, m.a. með uppsögnum á starfskjörum starfsfólks sundlauga. Málið hafi ávallt verið kynnt þannig fyrir bæjarfulltrúum að ætlunin væri að endurtaka sumaropnun sundlauga eins og hún hafi verið framkvæmd sumarið 2017. Þegar betur séð að gáð og rýnt í minnisblöð sem lögð voru fram á fyrri stigum en aldrei birt almenningi, þá sé ætlunin þvert á móti að stytta opnunartímann milli ára.

Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri brást ókvæða við fyrirspurn Gunnars Axels og sagðist ekki hafa fengið tækifæri til að undirbúa sig undir umræðuna. ´“Ég hef nánast ekkert komið nálægt þessu máli“, sagði bæjarstjórinn í svari sínu og bætti því síðan við að fullyrðingar um fyrirhugaðar breytingar á opnunartíma og á starfskjörum starfsmanna sundlauga væru rangar.

Gunnar Axel segir viðkvæði bæjarstjórans og fullyrðingar sem hann setti fram í beinni útsendingu vægast sagt dæmi um óvenjulega framkomu embættismanns

Bæjarstjóri á hálum ís

Gunnar Axel segir viðkvæði bæjarstjórans og fullyrðingar sem hann setti fram í beinni útsendingu vægast sagt dæmi um óvenjulega framkomu embættismanns. „Í fyrsta lagi gerði ég ekki annað en að lesa uppúr málskjölum og greinargerð með fjárhagsáætlun sem hann sjálfur bar ábyrgð á að skrifa og leggja fram og gagnrýndi að mínu áliti réttilega þau vinnubrögð sem hann auðvitað ber fulla ábyrgð á, þ.e. að láta þetta mál fara svona langt án þess að sinna upplýsingaskyldu sinni við bæjarráð og bæjarstjórn. Ég tek þeim ávirðingum sem hann setti fram á fundinum ekki mikið nærri mér en mér finnst verra að framkvæmdastjóri bæjarins skuli leyfa sér að koma fram með þessum hætti gagnvart þeim fjölda fólks sem starfar í sundlaugunum og auðvitað gestum lauganna líka sem margir hverjir sækja þær daglega og horfa nú fram á skerta þjónustu. Virðingarleysið er fyrst og fremst gagnvart þessum hópum, sjálfur hef ég alveg nægilega þykkan skráp til að þola svona uppákomur.“

Munum leggja til að breytingarnar verði afturkallaðar

Ég hafði ætlað mér að leggja fram tillögu á fundinum um að framkvæmd fyrrnefndra skerðinga á opnunartíma og starfskjörum yrði frestað þar til bæjarstjórn hefði fengið tækifæri til að fara yfir málið í heild, leggja mat á fyrirliggjandi rökstuðning, skoða áhrif á starfskjör starfsmanna sundlauga og kanna raunverulegan hug notenda þjónustunnar en það var ekki vilji hjá fulltrúum meirihlutans til að leyfa umræðunni að halda áfram. Lagði ég því fram tvær spurningar til bæjarstjóra sem ég auðvitað ætlast til þess að hann svari skriflega fyrir næsta fund bæjarráðs. Þar munum við jafnframt leggja til að stytting á opnunartíma verði afturkölluð og opnunartími lauganna verði a.m.k. jafn langur og hann var síðasta sumar. Eftir kosningar munum við svo skoða leiðir til að auka í reynd opnunartíma sundlauganna þannig að opnunartími þeirra standist samanburð við það sem tíðkast í nágrannasveitarfélögunum.

Umræðu um opnunartíma sundlauga og starfskjör starfsmanna sundlauga má sjá á meðfylgjandi upptöku. Umræðan hefst á mínútu 01:58:00

https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/baejarstjorn/baejarstjornarfundur/Flokkar:Stjórnmál, Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: