Amman vildi að kötturinn yrði nefndur eftir meintum þýskum hermanni

Amman vildi að kötturinn yrði nefndur eftir meintum þýskum hermanni

Sverrir Jörstad Sverrisson aðstoðarleikskólastjóri hefur talað fyrir því að bærinn móti sér stefnu um verndun og viðhald á menningarminjum í Hafnarfirði og vinni markvisst að því að forða þeim frá skemmdum og geri þær aðgengilegri almenningi. Á dögunum skrifaði hann grein í Fjarðarfréttir þess efnis þar sem hann sagði m.a: ,,Þessar minjar eru vitnisburður um gríðarlega umbrotatíma í sögu Hafnarfjarðar. Í dag eru þessar minjar illa merktar og liggja undir skemmdum“. Bærinn okkar tók Sverri tali og ræddi við hann um menningarminjar og tengsl hans við Hvaleyrina og hernámið í Hafnarfirði.

Prentun-Dagblod

Hvernig vaknaði þessi áhugi þinn á menningarminjum í Hafnarfirði?

„Ég geng mikið og hef gaman af hvers konar útivist. Á ferðum mínum um bæinn og upplandið verð ég reglulega var við þessar minjar enda á Hafnarfjörður sér mikla og áhugaverða sögu. Á undanförnum árum hef ég hreinlega séð sumar þessara menningaminja, sem ekki falla undir lög um minjavörslu þar sem þær teljast ekki til fornminja en eru engu að síður gríðarlega merkilegir vitnisburðir um sögu okkar, grotna niður. Mér finnst það mjög miður því í mínum huga eru þetta mikilvægar sögupersónur í sögu bæjarins. Svo er ég líka forvitinn að eðlisfari og þegar ég geng fram á áhugaverða hluti langar mig til að vita hvað það er sem ég er að skoða, hvaðan það kemur og hver var tilgangur. Tökum hleðslurnar í Kaldárseli sem dæmi. Ég var búinn að ganga mörgum sinnum upp á Helgarfell þegar mér var bent á þessar hleðslur. Þarna var vatni frá Kaldárbotnum veitt með trélögn einhverja hundruði metra og látið renna í hraunið. Síðan kom það upp í Lækjarbotnum þar sem því var veitt áfram niður í bæ. Á Hvaleyrinni eru svo hellingur af stríðsminjum og gríðarleg saga sem þar varð til en það er ekkert skilti sem segir söguna. Mamma mín ólst fyrstu árin upp á Hvaleyrinni þar sem var mikil byggð hermanna á stríðsárunum. Ég var að reyna að finna upplýsingar um hernámið í Hafnarfirði en fann nánast ekkert um það á netinu heldur.“

 

Nú tengist fjölskylda þín Hvaleyrinni, segðu okkur frá því?

 

„Helgi Þórðarson afi minn var bóndi á Hvaleyri og leigði jörðina af Flensborgarskóla. Það var um 1925 sem hann flutti þangað. Þá voru á Hvaleyrinni þar sem nú er golfvöllur fimm bæir; Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyri, Vesturkot og Halldórskot. Í stríðinu kom breski herinn og setti upp kamp á Hvaleyrinni en bandaríska setuliðið tók síðan við kampnum þegar það kom. Mamma, sem er fædd árið 1940, bjó því fyrstu ár ævi sinnar með setuliðið í túnjarðinum hjá sér. Það var lítið talað um herinn á mínu heimili. Afi var alltaf á móti setuliðinu og almennt var það illa þokkað af bæjarbúum. Talað var um að konur færu í ástandið og eitthvað var um það í minni fjölskyldu sem og öðrum. Það þótti ekki fínt á tímum þegar kvenfrelsi var fótum troðið. Ég vildi að ég hefði spurt ömmu meira út í þessi ár sín á Hvaleyrinni meðan hún var á lífi. Eina sagan sem ég man frá henni er svona: Ég eignaðist kött þegar ég var 10 ára, og amma vildi endilega að kötturinn yrði skírður Nazaróvík í höfuðið á þýskum hermanni sem hún sagði að hefði búið á Hvaleyrinni og hefði verið svo mikill vinur hennar. Það var svo ekki fyrr en löngu seinna, löngu eftir að gamla konan var dáinn að ég áttaði mig á því að það var ekkert í þessu sem gat staðist. Það hefði aldrei verið þýskur hermaður á Hvaleyrinni á stríðsárunum. Sennilegast hefur hann verið Breti eða Bandaríkjamaður, kannski af þýskum ættum og svo hefur tungumálið ekki verið að hjálpa til. En eftir stendur spurningin, hvað í ósköpunum hét maðurinn, þessi mikli vinur ömmu minnar? En kötturinn var alltaf bara kallaður Nasi. Hann var skemmtilegur og hef ég verið mikill kattavinur alla tíð síðan.“

DSC00619

Hvar ólstu upp í bænum?

 

„Ég ólst upp í norðurbænum og gekk í Víðistaðaskóla og Engidalsskóla. Helstu leiksvæði okkar krakkanna voru hraunið og nýbyggingar. Þá voru ekki gerðar sömu öryggiskröfur og í dag enda fékk ég á tímabili svo oft gat á hausinn að mamma notaði stundum ferðina á slysó, þegar átti að loka einum skurðinum, til að taka síðustu saumana í burtu. Það var svo mikið af börnum í norðurbænum á þessum tíma að vinahópurinn samanstóð bara af götunni og í mesta lagi næstu götu við hliðina. Ég minnist æskunnar úr norðurbænum með hlýju. Í minningunni var þetta tímabil fullt af gleði og ævintýrum. Sumt af því sem við vorum að bralla fær mann sem foreldri til að svitna við tilhugsunina. Eins og það að fara 11 ára gamall á puttanum til Reykjavíkur sem þótti ekki tiltökumál. Eða að teika á Breiðvangnum. Og þegar maður hugsar til baka efast maður um að allt timbrið sem við ,,fundum við nýbyggingar” þegar við vorum að safna í áramótabrennur hafi í raun verið rusl.“

 

En hvar býrðu þá núna?

 

„Ég hef síðan alla tíð búið norðan megin við læk, þar til fyrir 6 árum, þá flutti ég tímabundið suður fyrir læk. Það verður leiðrétt nú í sumar en ég og kærastan mín erum búin að kaupa okkur hús á Sunnuveginum. Hún er reyndar sunnan-lækjar kona en þetta snýst víst um málamiðlanir og samþykkti hún því að kaupa norðan meginn við lækinn og að ég fengi kött. Ætli við nefnum hann ekki Nazaróvík. En talandi um sunnan lækjar og norðan lækjar, þá erum við hvorugt hefðbundin, þar sem ég norðan lækjar maðurinn er mikill Haukari, en hún sunnan lækjar konan er FH-ingur.“

20228249_10155672511416052_5137764958184328307_n(2)

Nú ertu aðstoðarleikskólastjóri, hvað heillaði þig við leikskólann?

 

„Það var röð tilviljana sem leiddi mig í leikskólakennaranámið. Þar fann ég mig. Ég hafði fram að því ekki talið mig mikinn námsmann, en komst að því að ég hafði rangt fyrir mér og gott betur en það. Mér gekk mjög vel í náminu og uppgötvaði þar það sem í raun hefur einkennt minn kennsluferil síðan. Það er að ef nemendur eiga að ná tökum á námi, þarf námið að höfða til þeirra. Ég brenn fyrir málefnum leikskólans og mikilvægi þess að hann sé fyrir alla. Góður leikskóli þarf að endurspegla samfélagið, með fyrirmyndir af öllum kynjum í starfshópnum, fólki sem hefur búið hér í aldaraðir og þeim sem eru nýkomnir osfrv. Ég hef látið til mín taka á sviði stéttarbaráttunnar í gegnum starf mitt á vegum KÍ, verið í samninganefndnum bæði hjá FL og FSL auk þess að hafa verið í stjórn FSL. Nú hef ég snúið mér að bæjarpólitíkinni og markmið mitt er að vinna að málefnum menntunnar í Hafnarfirði hvort sem er á leik- grunn- eða framhaldskólastigi. Auk þess sem ég vil að æskulýðsstarfi sé yfir höfuð gert hærra undir höfði í bænum. Helstu áskoranir í mennta- og æskulýðsmálum er að skapa starfsaðstæður þess eðlis að fólk kjósi sér störf á sviði menntunar og æskulýðsmála sem framtíðarstörf.“

 

Hvað líkar þér best við bæinn okkar?

 

„Upplandið, það eru ekki mörg sveitafélög á landinu sem geta státað af jafn stórkostlegu útivistarsvæði við túngarðinn hjá sér. Þangað fer ég til að sækja mér orku og hugarró.“Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: