Íslensk hönnun umhverfisvænni

Íslensk hönnun umhverfisvænni,
Dóra Hansen húsgagna- og innanhússarkitekt rekur teiknistofu í Hafnarfirði. Þessa dagana tekur hún þátt í Hönnunarmars og sýnir verk í PopUp verslun sem opnar í dag 17. mars. Bærinn okkar tók hana tali.

01 jakob og Ronja

Hvers vegna valdir þú að búa í Hafnarfirði?
Ég flutti til Hafnarfjarðar með fjölskylduna árið 1990 en þá var ég að koma úr námi í Kaupmannahöfn. Ég á þrjú uppkomin börn og þau gengu öll í Víðistaðaskóla. Ég flutti síðan burt árið 2000 og kom aftur 2016. Ég er mjög sátt við að vera komin aftur í Fjörðinn. Mér finnst ég vera komin heim þó að ég hafi bara búið hér í 10 ár áður. Hafnarfjörður er fallegur bær með fallegt bæjarstæði og sjórinn heillar mig. Þetta er bær en ekki úthverfi. Ég held að Hafnarfjörður eigi eftir að verða enn skemmtilegri með auknu mannlífi í miðbænum og við höfnina. Það þarf að tengja sjóinn, höfnina og miðbæinn betur saman og þar með skapa aukið mannlíf á því svæði.

Hefur þú starfað lengi við hönnun?
Ég er menntuð sem húsgagna- og innanhússarkitekt. Ég rek teiknistofu hér í Hafnarfirði og hef unnið við innanhússhönnun síðan árið 1995. Svo er ég einnig með kennsluréttindi og kenndi um tíma við listnámsbraut Iðnskólans í Hafnarfirði.

TINDUR 2 Spessi 2. póstur

Hvaða þýðingu hefur Hönnunarmars fyrir íslenska hönnun?
Hönnunarmars skiptir miklu máli fyrir okkur hönnuði, því við fáum möguleika á að kynna og sýna okkar nýjustu hönnun en það er einmitt markmiðið, ásamt því að kynna hönnun sem atvinnugrein og verðmætasköpun.
Staðan hefur breyst mikið og úrval íslenskrar hönnunar aukist síðan Hönnunarmiðstöð varð til en hún stendur að Hönnunarmars. Persónulega finnst mér að við þurfum að hafa enn meiri metnað og fara að nota íslenska hönnun í allar stofnanir, svo sem skóla, ráðuneyti og aðrar opinberar byggingar. Ég tel að næsta skref sé að Hönnunarmiðstöð, Samtök iðnaðarins og ríkisvaldið ásamt stærstu sveitafélögunum taki sig saman og geri þetta að veruleika. Í þessu sambandi er ég að tala um íslenska hönnun og framleiðslu á húsgögnum. Þetta er alveg hægt. Það eru t.d. til góð íslensk skóla- og skrifstofuhúsgögn. Í stærra samhengi og til að efla hönnunartengda framleiðslu og atvinnusköpun ættum við að halda samkeppni um húsgögn t.d fyrir þjóðarsjúkrahúsið okkar. Með því að gera þetta er hægt að þróa vöru og styðja við framleiðslu á íslenskum gæða húsgögnum. Ég tel þetta bestu leiðina til að ýta undir gæði og nýjungar í íslenskri húsgagnahönnun og framleiðslu. Þegar við veljum íslenska hönnun fram yfir innflutta erum við að stuðla að aukinni umhverfisvernd og draga úr kolefnaspori okkar Íslendinga. Þess vegna er svo mikilvægt að við sækjum hönnun í nærumhverfi okkar.

Hvaða verkefni ert þú með á Hönnunarmars?
Ég er að taka þátt í PopUp verslun í tengslum við 10 ára afmæli Hönnunarmars. Þar mun ég selja og sýna lampahönnun mína. Annars sel ég mína hönnun að mestu leyti í gegnum vefsíðuna http://www.dorahansen.is
PopUp verslun er verslun sem poppar upp tímabundið á mismunandi stöðum. Að þessu sinni í gamla Nýló-salnum á jarðhæðinni hjá Kexhostel. Og opnar hún í dag, laugardaginn 17. mars.

mamma10

Hvernig færðu hugmyndir að verkum þínum?
Það er mismunandi. Stundum fæ ég hugmyndir út frá efninu sem ég ætla að vinna með. Stundum út frá þörf á einhverju sem mig vantar eða mér finnst vanta. Íslensk náttúra spilar líka þarna inn í. Í hönnunarnámi lærir maður meðal annars að vinna úr hugmyndum. Hugmyndir koma og fara en sumar sækja á mann aftur og aftur þar til að maður raungerir þær.
Ég er þannig gerð að ég verð að hafa einhvern dýpri tilgang með því sem ég geri en bara að hanna hlut og bæta við neysluna. Í minni húsgagnahönnun hef ég farið þá leið að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Með því að nota íslenskan við (eða annað íslenskt hráefni) og íslenska framleiðslu. Viðurinn sem ég nota í lampana er annars vegar lerki frá Hallormsstað eða rekaviður frá Ströndum. Það eru tveir aðilar sem framleiða lampana fyrir mig. Viðarhlutinn eða skermarnir eru smíðaðir á Við og Við trésmíðaverkstæði en allt annað hjá Flúrlömpum í Hafnarfirði. Flúrlampar eru með vottaða framleiðslu og þannig þarf það að vera ef maður ætlar að selja fólki eitthvað með rafmagni.

Áttu þér eitthvað lífsmottó sem hefur nýst þér í lífi og starfi?
Já, ég vil vera virkur samfélagsþegn og helst gera gagn. Svo er nú alltaf best að vera maður sjálfur og fylgja innsæinu. Að lokum hvet ég alla til þess að láta sjá sig á Hönnunarmars.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: