Ályktun um að skilyrða framlög til íþrótta- og tómstundastarfs í kjölfar #metoo

Sveitarfélögin hafa bæði fjárveitingar- og stefnumótunarvald í þessum málaflokki og eiga að tryggja að jafnréttismál séu sett á oddinn.

Það er mikið fagnaðarefni að samstaða hafi náðst um tillögu fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar um skilyrði fyrir fjárveitingum til íþróttafélaga og þeirra sem bjóða upp á tómstundaiðkun fyrir börn og unglinga.

Skilyrði fyrir framlögum

Meðal þeirra skilyrða sem sett hafa verið er að þeir aðilar sem bjóða upp á íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga setji sér siðareglur, geri viðbragðsáætlanir og fræði sitt fólk um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Stofnuð verði óháð fagráð sem taki á móti ábendingum og kvörtunum iðkenda.

Einnig skal sýnt fram á að farið sé eftir jafnréttisáætlunum og jafnréttislögum í öllu starfi og að aðgerðaráætlanir séu skýrar. Séu jafnréttisáætlanir ekki fyrir hendi, ber að gera þær sem og aðgerðaráætlanir um framkvæmd.

Sveitarfélögin hafa ríkum skyldum að gegna

Íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga er að langmestu leyti rekið í gegnum opinberar fjárveitingar. Sveitarfélögin hafa bæði fjárveitingar- og stefnumótunarvald í þessum málaflokki og eiga að tryggja að jafnréttismál séu sett á oddinn.

Hafnarfjarðarbær hefur sett sér jafnréttis- og mannréttindastefnu sem ætlað er að taka til ólíkra hlutverka sveitarfélagsins. Þar er lögð áhersla á að inntak stefnunnar sé samþætt með virkum hætti inn í aðra stefnumótum á vegum bæjarins. Það er því alveg ljóst að Hafnarfjarðarbæ ber að sýna ábyrgð og frumkvæði í jafnréttismálum á öllum sviðum sem tengjast bænum með einum eða öðrum hætti.

————————————————————————-

Ályktunin sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn

„Hafnarfjarðarbær áskilur sér rétt til að skilyrða fjárveitingar til íþróttafélaga og þeirra sem bjóða upp á tómstundaiðkun fyrir börn og unglinga, því að félögin setji sér siðareglur, viðbragðsáætlanir og fræði sitt fólk um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Einnig skulu sömu aðilar stofna óháð fagráð sem taki á móti ábendingum og kvörtunum iðkenda. Einnig skulu þeir sem Hafnarfjarðarbær styrkir eða gerir samninga við sýna fram á að farið sé eftir jafnréttisáætlunum sínum og jafnréttislögum í starfi sínu og aðgerðaráætlun sé skýr. Hafi félag ekki gert jafnréttisáætlun með aðgerðaráætlun skal það gert. Hafnarfjarðarbær hefur eftirlit með því að fyrrgreind atriði séu uppfyllt og fjárveitingar skilyrðast við.“Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: