Skrifa fyrir synina

Bergrún Íris Sævarsdóttir rithöfundur og myndskreytir gaf nýverið út bókina Elstur í bekknum og er tilnefnd til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna fyrir hana. Bergrún hefur verið á ferð og flugi að undanförnu og las m.a úr bókinni á jólafundi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði á dögunum við mikinn fögnuð viðstaddra. Að því tilefni tók Bærinn okkar hana tali og spurði hana út í nýju bókina, jólin og daginn og veginn.

Hefur þú búið lengi í Hafnarfirði?

Ég fæddist í Reykjavík, sleit barnsskónum í Vesturbænum í Kópavogi, átti stutt stopp í Garðabæ og hef svo haft lögheimili í Hafnarfirði í 10 ár. Ég var því alltaf á leiðinni hingað frá fyrsta degi þó leiðin úr Reykjavík hafi tekið dálítinn tíma. 17 ára gömul eignaðist ég hafnfirskan kærasta sem varð svo eiginmaður minn nokkru síðar. Hann lagði mikið upp úr því að selja mér Hafnarfjörð sem besta mögulega búsetukostinn. Ég hef fyrir löngu sannfærst og er farin að stunda trúboðið sjálf við hvern sem hlustar, enda Hafnarfjörður dásamlegur bær. Það besta við Hafnarfjörð er án efa að þetta er alvöru bær með öllu tilheyrandi. Ég bý á Herjólfsgötu og er í göngufæri við allt sem mig gæti mögulega vantað.

 

Eru þið hjónin með einhverjar sérstakar jólahefðir?

Okkar hefðir eru fyrst og fremst samvera. Við förum með foreldrum mínum og systkinum á jólahlaðborð snemma í desember og skerum út laufabrauð með tengdafjölskyldunni. Báðir þessir viðburðir eru algjörlega fastur punktur og mikilvægir til að koma sér í gírinn.

Ég fer alltaf með eiginmanni og strákunum okkar tveimur í sund á aðfangadagsmorgun og þá er gott að eiga fullkomna innilaug á Ásvöllum. Jólaþorpið er líka stór hluti af aðventunni og í ár sér Andri, maðurinn minn, um jólaþorpið og því er auðvitað skyldumæting alla dagana. Ég hef tvisvar lesið upp úr bókum á Jólamarkaðnum í Heiðmörk og þykir strax orðið dálítið vænt um þann fallega stað, sérstaklega Rjóðrið þar sem börnin sitja við varðeld og hlusta af miklum áhuga.

 

Hvenær byrjaðir þú að skrifa sögur?

Ég hef alltaf teiknað myndir og dreymt um að starfa sem myndskreytir svo það var stór stund þegar ég snéri mér alfarið að því árið 2014. Rithöfundadraumurinn var vissulega til staðar en ég var dálítið feimnari við hann. Ég skrifaði fyrstu bókina mína árið 2014 og síðan þá hefur rithöfundaegóið vaxið þó ég sé enn skjálfandi á beinunum þegar ég sendi frá mér handrit. Sögur fæðast nær alltaf fyrst sem myndir, ég sé eitthvað fyrir mér og langar að vinna meira með það. Það er líka alltaf barn í herberginu þegar ég fæ hugmynd að nýrri sögu. Fyrsta bókin mín var næstum orð fyrir orð samtal sem ég átti við eldri son minn um vindinn og veðrið (Vinur minn, vindurinn 2014) og seinni bækur verða til í mikilli samvinnu okkar mæðgina því ég er í raun alltaf að skrifa fyrir hann. Eftir því sem hann eldist skrifa ég efni fyrir eldri börn og hver veit nema ég endi í hnausþykkum krimma einn daginn.

 

Segðu okkur aðeins frá nýjustu bókinni, Elstur í bekknum

Sagan segir frá Eyju sem er að byrja í skóla og hlakkar mikið til að læra að lesa. Hún er hinsvegar nýflutt í hverfið og dálítið smeyk enda þekkir hún engan í bekknum. Við hlið hennar í skólastofunni situr Rögnvaldur, 96 ára gamall karl sem er fastur í fyrsta bekk því hann neitar að læra að lesa! Þau verða góðir vinir og gera með sér samning sem hjálpar þeim báðum að komast yfir sínar hindranir. Bókin er bráðfyndin, þó ég segi sjálf frá. Það segja allavega börnin sem ég hef lesið fyrir síðustu vikur í skólaheimsóknum, og kennarnir skemmta sér líka vel enda hugmyndin um að halda nemanda aftur um bekk í 90 ár jafn fyndin og hún er fáránleg. Bókin er ekki löng, með góðu letri og fjölda litmynda enda veit ég hvað myndir skipta miklu máli þegar við reynum að vekja áhuga barna á lestri. Hún er fullkomin fyrir 5-9 ára en ég veit um nokkra unglinga sem hafa lesið hana og hún virðist ná til breiðs hóps. Ég frétti líka af bókasafnsfræðingi sem neitaði að lána hana fyrr en hún væri búin að komast að því hvort Rögnvaldi tækist að læra að lesa.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég vakna um 7 leytið og vek strákana mína. Okkur finnst öllum gott að sofa lengur og morgnarnir eru frekar fyndnir þegar við reynum að koma hvert öðru á fætur. Einn fer í leikskólann, annar í grunnskólann, eiginmaðurinn í sína vinnu og ég kemst loks inn í Íshús Hafnarfjarðar þar sem ég er með vinnustofu. Suma daga eru fundir og upplestrar og ég á miklum þeytingi. Einstaka sinnum næ ég heilum góðum degi við að teikna og hlusta þá gjarnan á hljóðbók á meðan. Ég vinn með fullt af skemmtilegu fólki og því auðvitað nauðsynlegt að næla sér í góðan morgunkaffibolla með hinu listafólkinu. Upplestratörnin er gjarnan löng og ströng og suma daga hitti ég nokkur hundruð börn sem er mjög skemmtileg. Þá er orkan orðin ansi takmörkuð þegar ég sæki yngri drenginn minn á leikskólann um kl.16:00. Sá eldri fer oft á sundæfingu á meðan ég er að elda og ég reyni að vera sem mest til staðar og ekki með hugann við annað seinnipartinn og þangað til strákarnir fara í háttinn. Við lesum mjög mikið saman og hver dagur endar með bók hjá okkur mæðginum. Svo bíður auðvitað þvottur og annað fullorðins.

Hvað verður í jólamatinn?

Ábyggilega hamborgarhryggur en þessi jól verðum við með tengdó uppi í sumarbústað í fyrsta sinn svo kannski breytum við eitthvað til. Ég er samt alltaf hrifnust af hamborgarhrygg með brúnuðum og öllu tilheyrandi.

Getur þú sagt okkur einhverja óvenjulega staðreynd um þig?

Ég er mikill hryllingsmyndaaðdáandi og sérstaklega sjúk í myndir um uppvakninga og vírusa. Held að það sé nauðsynlegt til að hafa smá jafnvægi í lífinu þegar ég skrifa og teikna fallegar barnabækur allan daginn.

Mannstu eftir einhverri nýlegri bók sem snerti þig?

Pétur og Halla við hliðina eftir Ingibjörgu Vals. Ég las hana með syni mínum sem er 8 ára og okkur leið báðum eins og bókin væri skrifuð um hann og fyrir hann. Það er eitthvað svo æðislegt að finna sjálfan sig í bók og ég sá hvernig hann fékk glampa í augun að lesa lýsingarnar á rólega stráknum sem elskar fjöruna.

 

Við óskum Bergrúnu til lukku með bókina og tilnefninguna til Fjöruverðlaunanna og góðu gengi í framtíðinnFlokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: