Hafnarfjörður stenst ekki samanburð í þjónustu við aldraða

Bæjarstjórinn kennir ríkinu og sveitarfélögum á landsbyggðinni um hvernig komið er fyrir Hafnarfirði í uppbyggingu þjónustu við aldraða. Fulltrúi minnihlutans segir að málflutningur bæjarstjórans endurspegli fyrst og fremst flótta meirihlutans undan eigin ábyrgð í málinu.

Ef nýr meirihluti með núverandi bæjarstjóra í broddi fylkingar hefði ekki ákveðið að gera það eitt af sínum fyrstu verkum að stöðva byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð þá hefði það tekið til starfa í ársbyrjun 2016. Í dag er Hafnarfjörður langt á eftir öðrum sveitarfélögum í uppbyggingu hjúkrunarheimila og telur bæjarstjórinn að það sé einkum ríkinu og landsbyggðarsveitarfélögum um að kenna. Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi segir að það sé ekki rétt heldur sé ábyrgðin fyrst og fremst bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og þeirra sem fara þar með meirihlutavaldið í bæjarstjórn. Þeir hafi ákveðið að rjúfa langvarandi þverpólitíska samstöðu um uppbyggingu í þessum málaflokki í þeirri von að innleysa pólitískan skammtímagróða í aðdraganda síðustu kosninga. Afleiðingarnar af þeirri vegferð sitji hins vegar í fanginu á bæjarbúum í Hafnarfirði sem séu í allt annarri og lakari stöðu en íbúar nágrannasveitarfélaganna þegar kemur að uppbyggingu þjónustu við aldraða íbúa.

„Ef bygging hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð hefði ekki verið stöðvuð væri staða bæjarins í viðræðum við ríkið um næsta áfanga í nauðsynlegri uppbyggingu þjónustu við aldraða í bænum allt önnur og betri en hún er í dag.“ – segir Gunnar Axel

„Til þess að koma endanlega í veg fyrir að hægt yrði að koma verkefninu í Skarðshlíð aftur af stað síðar, t.d. með nýjum meirihluta í bæjarstjórn, var gripið til þess ráðs að breyta skipulagi hverfisins og taka hjúkrunarheimili alfarið út af því korti. Það er því heldur ódýr söguskoðun sem bæjarstjórinn ætlar að bjóða okkur upp á núna þegar hann bendir á Framkvæmdasjóð aldraðra sem sökudólginn í málinu og reynir um leið að stilla hlutunum þannig upp að íbúar á suður- og vesturlandi hafi oftekið úr sameiginlegum sjóðum á kostnað okkar sem búum á höfuðborgarasvæðinu.“

Þetta segir Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn og vísar til viðtals við bæjarstjórann sem Morgunblaðið birti í morgun.

„Ef bygging hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð hefði ekki verið stöðvuð væri staða bæjarins í viðræðum við ríkið um næsta áfanga í nauðsynlegri uppbyggingu þjónustu við aldraða í bænum allt önnur og betri en hún er í dag.“ – segir Gunnar Axel

„Það er því frekar ódýrt að mínu mati hjá bæjarstjóranum að reyna að draga upp þá mynd að það sé ríkinu að kenna að Hafnfirðingar séu í lakari stöðu en önnur sveitarfélög þegar kemur að uppbyggingu á þessu sviði. Þar liggur ábyrgðin fyrst og fremst hjá hafnfirskum pólitíkusum sem hafa frekar valið að stökkva á átakavagninn í kringum kosningar frekar en að vinna að langtímahagsmunum bæjarbúa í þessum málaflokki.“ Segir hann ennfremur og vísar til viðtals við Harald L. Haraldsson í Morgunblaðinu í dag.

Aðspurður hvað hann eigi við með því segir Gunnar Axel að umræðan um þessi mál hafi verið með ólíkindum fyrir síðustu kosningar og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lagt mikið á sig til að leggja stein í götu byggingu nýs hjúkrunarheimilis í bænum.

„Það var í raun ótrúlega sorglegt að fylgjast með framgöngu þeirra bæjarfulltrúa sem gerðu allt sem þeir gátu til að stilla málum þannig upp að nýtt hjúkrunarheimili á Völlum væri ógn við sögu og framtíð Sólvangs. Og þeim tókst það, því miður.

„Þessi hópur stóð meðal annars á bak við stofnun félags sem beinlínis hafði það á stefnuskrá sinni að stöðva framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili í Skarðshlíð. Það var stofnað undir merkjum Hollvinafélags Sólvangs en á stofnfundi sem haldinn var í aðdraganda síðustu kosninga brá mörgum í brún þegar stjórn fundarins reyndist í höndum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og aðalmálið á dagskránni var að samþykkja ályktun gegn byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Því miður held ég að það hafi ekki allir áttað sig á þýðingu þessa fyrir framtíðaruppbyggingu þjónustu við aldraða í bænum okkar en með þessu vorum við í raun færð mörg ár aftur á bak og aftar í röðina þegar kemur að uppbyggingu á þessu sviði.“

Teikningar að nýju heimili lágu fyrir og hafinn var undirbúningur að framkvæmdum vorið 2014. Hönnun heimilisins tók mið af nútíma kröfum um heimilislegt yfirbragð og fulla virðingu fyrir einkalífi aldraðra íbúa hjúkrunarheimila.

Hið nýja heimili sem rísa átti í Skarðshlíð byggði á undirbúningi sem hafði staðið yfir í nærri áratug og þverpólitísk samstaða hafði verið um frá upphafi. Staðarvalið var langt í frá einhver tilviljun enda var lagt upp með það að byggja heimili samkvæmt ýtrustu kröfum og þeirri hugmyndafræði sem hefur sem betur fer rutt sér til rúms á þessu sviði síðustu ár þar sem reynt er að skapa eins heimilislegar aðstæður og hægt er og full virðing er borin fyrir rétti íbúa til að njóta einkalífs. Teikningar af hinu nýja heimili voru tilbúnar snemma árs 2014 en þær voru unnar í umboði þverpólitískrar verkefnastjórnar með þátttöku m.a. Félags eldri borgara og Öldungaráðs.  Verkefnastjórnin leitaði fyrirmynda og ráðgjafar víða og kynnti sér hönnun hönnun sambærilegra mannvirkja hér á landi síðustu ár og stefnur og strauma í þjónustu af þessu tagi.  Í stað þess að jarðvegsframkvæmdir hefðust sumarið 2014 eins og áætlanir stóðu til ákvað nýr meirihluti að slá verkefnið út af borðinu og skoða aðra kosti varðandi staðsetningu. Í framhaldinu var lögð fram tillaga að breyttu skipulagi í Skarðshlíð þar sem leyfi fyrir byggingu hjúkrunarheimilis í þessum bæjarhluta var afmáð.

Bæjarstjórinn í viðtali við Morgunblaðið.

En er ekki rétt hjá bæjarstjóranum að Hafnfirðingar hafi greitt meira en þeir hafa fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra?

„Jú ef því er stillt þannig upp en það er ekki málefnalegt að mínu mati að gera það. Framkvæmdasjóður aldraðra er ekki sjóður sem sveitarfélög greiða inn í og eiga að fá samsvarandi til baka. Það er bara einhver tilbúningur sem stenst enga skoðun og er að mínu mati varla ætlaður til annars en að draga athyglina frá aðalatriði málsins sem er ábyrgð bæjaryfirvalda sjálfra.

Málefni hjúkrunarheimila er eins og önnur heilbrigðisþjónusta á ábyrgð ríkisins og sú þjónusta dreifist að sjálfsögðu ekki í einhverju beinu samhengi við það hvað fólk greiðir í skatta eða gjöld heldur skilgreinda þörf á hverjum stað á hverjum tíma. Eða dettur einhverjum í hug að stilla málum þannig upp að vegna þess að íbúar á Djúpavogi hafi bara greitt svo og svo mikið inn í ríkissjóð síðustu tíu ár þá eigi þeir ekki rétt á heilsugæslu eða þjónustu Landsspítalans? Sem betur fer er fjármögnun grunnþjónustunnar ekki hugsuð svona heldur þvert á móti á grundvelli samábyrgðar þar sem aðgengi allra á einmitt að vera jafnt óháð því hvað íbúar tiltekinna sveitarfélaga greiða samanlagt í ríkissjóð.

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði dregur Suður- og Vesturland sérstaklega út í þessum samanburði og telur að þar hafi uppbygging síðustu ára verið á kostnað annarra, m.a. Hafnfirðinga. Það er vond pólitík að stilla málum þannig upp að staða Hafnarfjarðar sé þannig alfarið á ábyrgð ríkisins og íbúa annarra sveitarfélaga á landsbyggðinni. Það er ekki beinlínis til þess fallið að skapa pólitíska samtöðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eða samstöðu meðal fólks almennt um uppbyggingu í þessum mikilvæga málaflokki, heldur þvert á móti“ segir Gunnar Axel að lokum

 Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: