Skipulagsslys í uppsiglingu?

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sniðganga skipulagslýsingu fyrir Flensborgarhöfn og samþykkja að háhýsi rýsi á hafnarkantinum.

Á fundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag var til afgreiðslu tillaga að breyttu deiliskipulagi á Flensborgarhöfn.

Breytingin felur í sér breytta hámarkshæð, breytta húsagerð, stækkun á byggingarreit og nýtingarhlutfalli á einni lóð við Hafnarfjarðarhöfn.

Samkvæmt tillögunni verður heimilt að reisa skrifstofu- og þjónustuhús allt að 5 hæðum og einnig heimilað að mænishæð geti verið 3,5 metrum hærri en það. Það má því gera ráð fyrir að umrædd bygging geti orðið allt að 18,5-22 metra há.

Það er að ósk lóðarhafa sem óskað er eftir þessari breytingu og þessu mikla byggingarmagni á lóðinni.

Gert er ráð fyrir að Hafrannsóknarstofnun flytji í umrætt húsnæði, sem er þó óháð þessari breytingu, enda er stækkunin langt umfram húsnæðisþörf stofnunarinnar.

Athygli vekur að fyrir rétt um ári síðan var samþykkt skipulagslýsing fyrir Flensborgarhöfn sem nær m.a. til umræddrar lóðar. Þar voru lagðar ákveðnar línur um uppbyggingu á svæðinu þar sem áhersla væri á lágreistar bygginar sem yrðu í sátt við umhverfið og nærliggjandi byggð.

Umrædda skipulagslýsingu var hins vegar ekki að finna í gögnum málsins og má því velta fyrir sér hvort fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar hafi ákveðið að hafna þeim áformum sem þar koma fram og fara aðra leið.

Það má ljóst vera að deiliskipulagstillagan hlýtur að vera fordæmisgefandi fyrir aðra lóðarhafa á svæðinu og því hætt á að við Flensborgarhöfn rísi háhýsi sem ekki endilega tengjast hafnarstarfsemi. Það er því eðlilegt að velta upp spurningum um framtíð Flensborgarhafnar.

Nýja deiliskipulagstillögu og skýringarmyndir er hægt að sjá í gögnum með fundargerð bæjarstjórnar.

Upptöku af fundi bæjarstjórnar má finna hér.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: