Skiptist á snöppum við forsetann

 

Tryggvi Rafnsson vakti mikla athygli fyrir stórkostlega túlkun sína á forsetanum í áramótaskaupinu. Bærinn okkar tók þennan efnilega leikara tali og heyrði í honum hljóðið.

Hefur þú alltaf búið í Hafnarfirði? Ég er fæddur og uppalinn 220-Hafnfirðingur, og er samblanda af Norðurbænum og Setberginu. Ég byrjaði í Víðó og fór þaðan í Setó og svo í Flensborg. Það er enginn háskóli í Hafnarfirði og því lá beinast við að fara erlendis og ná sér í gráðu og ég lærði leiklist í London.

Hvernig var að alast upp í Hafnarfirði? Það var auðvitað algjör draumur að leika sér með álfunum í hrauninu í Norðurbænum og flytja svo í Setbergið þegar það var að byggjast upp. Ég elti Atla eldri bróðir minn út um allt og þegar við gerðum eitthvað af okkur var það oft hann sem þurfti að taka skellinn frekar en litli saklausi ég.

Hvenær kviknaði leiklistarbakterían? Ég held að hún hafi kviknað strax í sex ára bekk í Víðistaðarskóla þegar ég fékk að leika kaupmanninn sem klippti klæðin fyrir Stínu í jólaleikritinu. Ári seinna var ég strax kominn með sterkar skoðanir á því hvernig leikritið okkar ætti að vera og ég hef ekki ennþá fyrirgefið kennaranum sem skemmdi sýninguna okkar það árið þegar hann stoppaði í miðri sýningu, greip sjálfur míkrafóninn og fór að lýsa leikritinu. Ég man ennþá hversu ósáttur ég var, enda var ég bara að leika einhvern læk sem kom varla við sögu í leikritinu. Það svíður að tala um þetta en síðan þá hefur leiklistarbakterían verið sprelllifandi hjá mér.  

Tryggvi og Ágústa Backman í verkefni í Rose Bruford

Eftir Flensborgarskólann gekk ég í Leikfélag Hafnarfjarðar og starfaði með þeim í nokkur ár. Þar lærði ég heilan helling af miklum snillingum. Ég sótti tvisvar um í LHÍ en komst ekki inn. Þá datt ég inn í inntökupróf fyrir Rose Bruford leiklistarháskólann í London og komst inn. Skólinn heldur áheyrnarprufur hér á landi á hverju ári og er einmitt með inntökupróf hér helgina 18-19. mars. Þetta er líklegast ein mesta gæfa sem ég hef orðið fyrir í lífinu. Þessi skóli er algjör snilld og margir þekktir og frábærir leikarar og leikkonur hafa komið þar við.

En ég vil samt líka meina að ég hafi lært alla mínu bestu leiklistartakta af Kalla æskuvini mínum sem hefur nennt að vera vinur minn alveg frá því að við vorum níu ára og þolað alla þá vitleysu sem ég hef boðið honum upp á. Enn þann dag í dag, er ég að gera símaat í mömmu hans, þrjátíu og þriggja ára gamall.

Hvernig var að fara í nám erlendis?

Það er efni í margar bækur að rifja það upp. Það sem tengist náminu beint er kannski helst hversu svakalega skemmtilegt það var. Maður lærir endalaust nýja hluti um sjálfan sig og var alltaf að prófa eitthvað nýtt. Einnig að fá að vera umkringdur leiklistarlífinu alla daga, allan daginn, var ómetanlegt. Stundum var maður með alls konar meik-up málningu á sér og stoppaði í búð eða á barnum á leiðinni heim úr skólanum og gleymdi að maður var með málað glóðurauga, grænan augnskugga eða jafnvel gervisár á höfðinu eða framan í sér. Það var svo sérstaklega skemmtilegt að fara í skiptinám til Barcelona, sýna leikrit á leiklistarhátíð í Póllandi og svo auðvitað að kynnast því að leika á öðru tungumáli en móðurmálinu. Þetta var gríðarlega þroskandi en fyrst og fremst spennandi.

Tryggvi með Joan Baixas kennara og leikstjóranum hans í Barcelona. Baxais er heimsfrægur listamaður sem hefur haldið sýningar í mörgum þekktustu sýningarhúsum heims.

Hvernig var að búa í borg eins og London?

Ég held að fyrir alla sem flytja erlendis sé það stór áskorun að koma sér fyrir í nýju landi, langt frá fjölskyldu og vinum. Það vandist samt frekar fljótt og mér leið mjög vel úti. Skólinn var frábær og ég kynntist mörgum af mínum allra bestu vinum á þessum tíma. Áður en ég flutti út var enskukunnátta mín ekkert sú allra besta og það var mikil áskorun fyrir mig að hella mér út í námið og berjast við að skilja allt sem var verið að segja manni og gera sjálfan sig skiljanlegan. Það kom þó furðu fljótt.          Það reyndi svo heldur betur á Íslendinginn þegar veturinn kom og illa einangruðu húsin í Englandi breyttust í frystikistur. Það kom oft fyrir að maður þurfti að sofa með tvær sængur, í föðurlandinu, lopapeysu og með bæði húfu og vettlinga. Það kostaði handlegg og fótlegg að kynda húsin þannig að þetta var það eina í stöðunni.

Ég get nánast ómögulega verið nálægt dúfum og er í rauninni alveg skíthræddur við þær. Það var því ein mín versta stund í lífinu þegar meðleigjandi minn í London gleymdi að loka svalahurðinni og ég vaknaði með dúfu flögrandi um stofuna mína! Skelfileg upplifun, alveg skelfileg.

Hvað hefur þú verið að fást við síðan þú útskrifaðist? Ég hef unnið mikið fyrir viðburðarfyrirtæki, sett upp leikrit, veislustýrt og verið að skemmta á árshátíðum. Ég hef einnig unnið sem flugþjónn síðastliðin fjögur ár og bæði verið að kenna og leikstýra leiklist í grunnskólum. Ég hef landað nokkrum hlutverkum í auglýsingum og bíómyndum, hef sett upp leikrit og leikið í öðrum. Svo núna um áramótin fékk ég það skemmtilega hlutverk að leika sjálfan forseta Íslands í áramótaskaupinu, sem var auðvitað alveg gríðarlega skemmtilegt og vakti mikla athygli.

Með Jóni Gnarr leikstjóra áramótaskaupsins

Hvernig kom það til? Þetta byrjað allt þegar félagi minn og æskulýðsmógúllinn Andri Ómarsson benti mér á það á kosninganótt hvað við erum líkir við Guðni. Hann póstaði mynd á vegginn minn og sagði að nú væri leikferlinum borgið næstu árin. Þá fór boltinn að rúlla og þegar Gunnar Björn leikstjóri og félagi minn úr LH benti á mig í könnun sem var birt á Nútiminn.is um hver ætti að leika Guðna í áramótaskaupinu fór þetta að vekja svolitla athygli hvað við Guðni erum líkir. Síðan þegar Helga Braga vinnufélagi minn og vinkona var komin í handritshópinn ásamt öðrum fóstbræðrum var allt sett á fullt að reyna að landa hlutverkinu. Ég fór að pæla mikið í Guðna, fasi hans, talandanum og í rauninni öllu sem honum tengdist. Svo þegar ég fékk að koma í prufu fyrir hlutverkið var þetta komið og daginn eftir var ég mættur á fund með Jóni Gnarr og við fórum yfir það hvernig við vildum gera þetta. Þetta var gríðarlega skemmtilegt og alger draumur fyrir mig sem mikinn fóstbræðraaðdánda að fá að leika með og á móti svona snillingum.

Hver voru viðbrögð Guðna við skaupinu? Hann tók þessu virkilega vel, sendi mér skilaboð á nýársdag og þakkaði mér fyrir góða og skemmtilega frammistöðu. Það hefur svo hist þannig á að í gegnum annað fólk höfum við sent snapchat skilaboð hvor á annan og ég er nokkuð viss um að við eigum eftir að verða góðir félagar í framtíðinni, enda sammála um hin alvarlegustu málefni eins og að það sé gjörsamlega galið að fá sér ananas á pizzu.

Tryggvi í skiptinámi í Barcelona

Hvað er svo á döfinni hjá þér? Svona fyrir utan það að vera á leiðinni út í búð og elda kvöldmatinn þá eru mörg spennandi verkefni framundan, sum á teikniborðinu og önnur lengra komin. Ég er að fara að veislustýra nokkrum árshátíðum og öðrum samkomu, en forsetinn er einmitt vinsæll gestur á árshátíðum. Það stendur til að koma leiklistarferlinum á gott flug og hella sér á kaf í listamannslífið. Ætli fyrsta skrefið í því sé ekki að byrja loksins að drekka kaffi.

 

Hver er draumurinn? Draumarnir eru ansi margir og það hefur komið í ljós að draumar geta svo sannarlega ræst þannig að ég mun halda áfram að láta mig dreyma. Ég ætla mér að láta sem flesta af mínum draumum rætast, hvort sem það er stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu, Hollywood eða að geta sofið til hádegis alla daga. Svo væri stærsti draumurinn auðvitað sá að börnin mín geti sloppið við allt sem heitir rugl, vesen, stress og kvíði í framtíðinni og lifað góðu og skemmtilegu lífi.

Eitthvað að lokum? Ef þig dreymir um eitthvað áttu bara að skella þér í það! Það að búa erlendis er klárlega eitt það allra besta sem að ég hef gert í lífinu og ég mæli fullkomlega með því að sem flestir prufi það. Í dag á ég virkilega góða vini út um allan heim sem er ómetanlegt. Svo er bara um að gera að taka stökkið, stækka þægindarammann og láta reyna svolítið á sig. Leiklistarnámið er svo ótrúlega skemmtilegt að það er varla til orð yfir það, en það er líka krefjandi og maður uppgötvar endalaust nýjar hliðar á sjálfum sér. Höldum áfram að láta okkur dreyma og eltum drauminn. Það er enginn sem stoppar þig nema þú.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: