Verklausir starfshópar kosta bæjarsjóð milljónir

Alls eru fimm starfshópar sem hafa engin erindisbréf og þar af leiðandi ekki útgjaldaheimild. Samanlögð útgjöld þeirra nálgast tvær milljónir króna.

Alls eru fimm starfshópar sem hafa engin erindisbréf og þar af leiðandi ekki útgjaldaheimild. Samanlögð útgjöld þeirra nálgast tvær milljónir króna.

Samkvæmt yfirliti sem lagt fram á fundi bæjarráðs í dag skilar meirihluti þeirra starfshópa sem skipaður hefur verið á þessu kjörtímabili ekki afrakstri í samræmi við upphafleg markmið. Þrátt fyrir fjölda funda og umtalsverðan kostnað fyrir bæjarsjóð skilar stór hluti þeirra engri niðurstöðu.  Í mörgum tilfellum hefur einnig verið stofnað til útgjalda þeirra í heimildarleysi.

Krýsuvíkin sett ofan í skúffu

Til dæmis var starfshópur sem skipaður var til að gera tillögu um framtíðarnotkun Krýsuvíkursvæðisins stofnaður í maí 2015. Samkvæmt erindisbréfi átti hann að skila niðurstöðu fyrir 30. október sama ár. Nú bráðum tveimur árum eftir að hópurinn var stofnaður hefur starfshópurinn engri niðurstöðu skilað. Kostnaður vegna funda hópsins er nú þegar orðinn rúmar 731 þúsund krónur.

Á svipuðum tíma var stofnaður starfshópur um Hótel í miðbæinn. Samkvæmt erindisbréfi átti hann að skila tillögum sínum í 1. október sama ár. Hópurinn hélt þrjá fundi en skilaði aldrei neinni niðurstöðu. Kostnaður vegna funda hópsins var tæpar 100 þúsund krónur.

Starfshópur um endurskoðun á félagslegu húsnæði í eigu bæjarins var jafnframt stofnaður í september 2015. Samkvæmt erindisbréfi átti hann að skila tillögum innan 6 mánaða. Nú rúmu ári síðar hefur hópurinn engri niðurstöðu skilað en kostnaður vegna hans er orðinn rúmar 260 þúsund krónur.

Dýr starfshópur um stofnun markaðsstofu Hafnarfjarðar

Þá vekur athygli að starfshópur sem settur var á laggirnar til að undirbúa stofnun svokallaðrar Markaðsstofu Hafnarfjarðar  kostaði rúmlega 1,4 milljónir króna í þóknanir til þeirra sem sátu í hópnum sátu.

Launagreiðslur í heimildarleysi

Í yfirlitinu vekur einnig athygli að nokkrir hópar virðast hafa verið starfandi eða eru starfandi án þess að fyrir liggi samþykkt erindisbréf fyrir þá né sérstök útgjaldaheimild.  Það á til að mynda við um starfshóp um skólastefnu, starfshóp um Flensborgarhöfn og starfshóp um heilsdagsskóla. Alls eru fimm starfshópar sem hafa engin erindisbréf og þar af leiðandi ekki útgjaldaheimild. Samanlögð útgjöld þeirra eru hátt í tvær milljónir króna.

Starfshópur um gjaldfrjálsan leikskóla hættur að hittast

Fljótlega eftir meirihlutaskipti boðaði nýr meirihluti svokallaðan gjaldfrjálsan leikskóla. Þegar leitað var eftir frekari skýringum á hvað það þýddi kom í ljós að foreldrar barna sem dvelja lengur en 6 klukkustundir á dag í leikskóla áttu að greiða áfram sama gjald en foreldrar barna sem væru innan við sex stundir ekki neitt . Þessi ákvörðun vakti ekki mikla hrifningu meðal foreldra en í stað þess að draga ákvörðunina til baka var stofnaður starfshópur um málið. Hópurinn var stofnaður í febrúar 2016 og átti samkvæmt erindisbréfi að skila niðurstöðu í júní sama ár. Hópurinn hittist tvisvar en virðist síðan hafa lagt niður störf. Hann hefur því aldrei skilað neinni niðurstöðu.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: