Launahækkanir bæjarfulltrúa í brennidepli

"Þeir verða þá að svara því af hverju þeir eiga rétt á rúmlega 40% launahækkun en ekki grunnskólakennarar svo dæmi sé tekið“, segir Adda María Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi

„Þeir verða þá að svara því af hverju þeir eiga rétt á rúmlega 40% launahækkun en ekki grunnskólakennarar svo dæmi sé tekið“, segir Adda María Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi

Munu fulltrúar meirihlutans þiggja 44% launahækkun?

Á síðasta fundi bæjarráðs þann 3. nóv. sl. lögðu fulltrúar Samfylkingar og VG til að bæjarráð myndi staðfesta að launahækkanir skv. úrskurði kjararáðs um launkjör þingmanna og æðstu embættismanna ríkisins myndu ekki hafa áhrif á launakjör bæjarfulltrúa í Hafnarfirði. Flest bæjarfélög sem hafa fjallað um málið hafa þegar sagt að þau muni sjá til þess að úrskurður kjararáðs muni ekki leiða til hækkana hjá bæjarfulltrúum þeira sveitarfélaga. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar í bæjarráði voru ekki tilbúnir til þess að samþykkja tillöguna á fundinum og var afgreiðslu hennar því frestað. Minnihlutinn telur hins vegar mikilvægt að fá fram afstöðu flokkanna í meirihlutanum til málsins sem fyrst og leggur því tillöguna fram á nýjan leik í bæjarstjórn á morgun, miðvikudag.

Eiga bæjarfulltrúar rétt á meiri launahækkunum en grunnskólakennarar?

Fyrr á þessu ári var samþykkt að laun kjörinna fulltrúa hjá bæjarfélaginu yrðu útfærð sem hlutfall af þingfararkaupi. Það var sameiginleg niðurstaða forsetanefndar að útfærslan myndi ekki leiða til hækkana en að tenging við þingfararkaup væri í samræmi við tillögur sem höfðu komið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í forsetanefnd, telur að úrskurður kjararáðs feli í sér algjöran forsendubrest á samþykkt forsetanefndar á sínum tíma. Þess vegna sé nauðsynlegt að taka málið upp og bíða ekki eftir því hvað Alþingi gerir í málinu. „Úr því að meirihlutinn treysti sér ekki til að taka afstöðu til tillögunnar á síðasta fundi bæjarráðs þá leggjum við tillöguna fram að nýju í bæjarstjórn. Enda er mikilvægt að fá fram opna og lýðræðislega umræðu um málið. Við sjáum að það er mikill kurr í grunnskólakennurum vegna kjaramála og þessi ákvörðun kjararáðs er sem olía á þann eld. Og í því ljósi er mjög mikilvægt að kjörnir fulltrúar taki afstöðu til þessa stóra máls sem varðar hagsmuni þeirra beint. Þeir verða þá að svara því af hverju þeir eiga rétt á rúmlega 40% launahækkun en ekki grunnskólakennarar svo dæmi sé tekið“, sagði Adda María.

„Meirihlutinn hlýtur að taka efnislega afstöðu til tillögunnar“

Bæjarstjórnarfundur fer fram á morgun, miðvikudaginn 9. nóv. og verður tillaga minnihlutans þá tekin til umræðu ásamt ýmsum öðrum málum. Það er ljóst að minnihlutinn ætlar sér að fylgja þessu máli stíft eftir á fundinum. „Já, við teljum mjög mikilvægt að eyða allri óvissu um afstöðu bæjarfulltrúa til þessara ríflegu launahækkana sem kjararáð skammtaði alþingismönnum núna í byrjun mánaðarins. Það er mikið talað um mikilvægi stöðugleika í efnahagslegu tilliti en það er erfitt að sjá hvaða hlutverki þessi ákvörðun kjararáðs gegnir í því að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, hvað þá stöðugleika á vinnumarkaði. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að fulltrúar Bjartrar Framtíðar og Sjálfstæðisflokks muni ekki taka efnislega afstöðu til þessarar tillögu á fundi bæjarstjórnar á morgun. Meirihlutinn hlýtur að taka efnislega afstöðu til tillögunnar. Frekari tafa – og biðleikir koma ekki til greina“, sagði Adda María að lokum.

 Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: