Hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Eyrún Ósk Jónsdóttir, varabæjarfulltrúi og rithöfundur hlaut á dögunum Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabók sína Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa. Við tókum Eyrúnu Ósk tali og ræddum við hana um bókina og skrifin.

mynd-fyrir-milano

Segðu okkur aðeins frá bókinni

Já, ég skrifaði hana eiginlega í einum rykk nú í febrúar. Það kom þannig til að sonur minn, sem er fjögurra ára, var að leika sér að snúa sér í hringi. Ég var að fylgjast með honum og þá mundi ég allt í einu eftir því þegar ég var lítil að einhverjir fullorðnir sögðu við mig að ef maður sneri sér í hringi eða velti sér niður brekku fengi maður garnaflækju. Svo ég þorði ekki að snúa mér í hringi né velta mér niður brekkur þegar ég var lítil. Ég hafði ekki hugsað um þetta í 30 ár en fór í kjölfarið að velta fyrir mér af hverju fullorðið fólk hefði verið að ljúga þessu að mér. Ég fór meira að segja inn á google og leitaði að því hvort það væri yfir höfuð eitthvað til sem heitir garnaflækja. Þá sá ég að fullt af fólki hefur spurt þessarar sömu spurningar inni á vísindavefnum. Fólk sem hefur heyrt þessa sömu lygi þegar það var barn, um eitthvað sem er svo ekki einu sinni til. Þetta kveikti svona í mér og ég fór að safna saman og skoða alls konar lygi sem fullorðið fólk segir við börn; „ef þú lýgur verður tungan í þér svört, ef þú gleypir tyggjó verður það í sjö ár í maganum á þér, ef þú horfir of mikið á sjónvarp verða augun í þér ferhyrnd“ og svo framvegis. Ég fór líka að muna eftir hlutum sem ég hafði sjálf búið til í hausnum á mér, til að útskýra orðatiltæki og hugtök sem barnið ég skyldi ekki og hættulega leiki sem við krakkarnir lékum til að reyna að skilja heiminn betur. Og sumar af þessum lygum og mistúlkunum á samfélaginu urðu svo jafnvel að fordómum eða rasisima og stundum grimmd, sem þurfti svo að yfirstíga þegar maður komst til vits og ára. Sem dæmi var alltaf verið að segja þegar ég var lítil að maður ætti að klára matinn sinn og hugsa um aumingja börnin í Afríku. Svo var það ekkert útskýrt betur og ég man eftir að hafa velt því fyrir mér af hverju ég þyrfti að passa mig á þessum börnum frá Afríku og hvað þau myndu eiginlega gera við mig ef ég kláraði ekki matinn minn og allt í einu verða til einhverjir furðulegir fordómar.

Er hún þá að miklu leyti byggð á þinni barnæsku

Já það mætti segja að ljóðin séu einhvers konar æskuminningar. Stundum mínar eigin, stundum frá systkynum mínum og vinum og auðvitað allt saman stórlega ýkt. Þau eru einlæg og frekar svört á köflum. Það var rosalega gaman að vinna hana og rifja upp ýmsa atburði frá því maður var krakki. En líka erfitt. Það er skrýtið þegar maður skoðar aftur atburð frá því að maður var lítill sem fullorðinn þá sér maður þá í allt öðru ljósi. Eitt ljóðið fjallar til dæmis um það hvað ég var sár yfir því að einn strákur í hverfinu vildi ekki leyfa mér að prófa nýja rafmagnshjólastólinn sinn. Mér fannst hann ótrúlega ósanngjarn og hljóp á eftir honum og nuðaði í honum aftur og aftur um að fá að prófa. Ég bað meira að segja mömmu um að gefa mér rafmagnshjólastól í jólagjöf. Þegar ég hugsa til þess í dag dauðskammast ég mín auðvitað og langar að sökkva ofan í jörðina bara við tilhugsunina, en fimm ára mér fannst þetta mjög ósanngjarnt.

Þú hefur áður gefið út nokkrar bækur

Já, ég skrifaði tvær unglingabækur í samstarfi við Helga Sverrisson kvikmyndagerðarmann; Hrafnar, Sóleyjar og myrra og Söngur snáksins. Og svo gaf ég út hinsegin ástarsögu sem heitir Lórelei. Ég hef einnig skrifað bæði leikrit og kvikmyndahandrit og svo er þetta þriðja ljóðabókin mín.

Hvaða þýðingu hafa svona verðlaun fyrir þig

Ég er auðvitað mjög upp með mér. Ég hef alltaf haft þörf fyrir að skapa eitthvað. Fyrir mér er það jafn mikilvægt og að borða eða hreyfa mig. En það er ekki einfalt þegar maður er líka í fullri vinnu, að ala upp börn, halda heimili og taka þátt í samfélaginu. Ég er stundum að skrifa seint á kvöldin þegar sonur minn er sofnaður og reyni að nýta hverja lausa stund í skriftir og sköpun. Þetta tekur stundum á og ég þarf oft að hvetja sjálfa mig áfram. Svo það er algjörlega stórkostlegt þegar maður fær að upplifa að þessi mikla vinna skili árangri. Ég er mjög þakklát fyrir það.

Notar þú einhverja sérstaka aðferð þegar þú skrifar

Já, ég til dæmis trúi ekki á neitt sem heitir ,,meðfæddur hæfileiki“, ,,að bíða eftir að andinn komi yfir þig“ eða ,,ritstífla“. Fyrir mér er það að skrifa ekki ósvipað því að fara út að hlaupa. Fyrst þegar þú ferð út að hlaupa ertu móð og másandi en ef þú heldur áfram að setja aðra löppina fram fyrir hina þá kemstu að lokum í gegnum einhvern vegg og þú getur hlaupið mun lengra en þú hélst. Ef þú heldur því svo áfram, dag eftir dag, kemstu í form. Það situr enginn heima og bíður eftir að hlaupa andinn og þolið komi yfir sig. Þú ferð bara út að hlaupa. Hjá mér er þetta eins með skriftirnar. Ég sest niður og byrja að skrifa, og stundum er það jafnvel sársaukafullt og ég þarf að neyða mig til að skrifa einhver orð og það gengur brösulega. En ég held áfram. Og þegar ég næ að halda þessu við kemst ég í form og þá, eins og nú í febrúar, verður kannski til eitt verðlaunahandrit á einum mánuði. Mér finnst uppörvandi að líta á þetta svona. Þetta þýðir að svo lengi sem ég held áfram, þó það séu bara nokkur orð í dag, eftir að ég set strákinn í rúmið og áður en ég tek úr þurrkaranum, þá tekst mér að skapa eitthvað að lokum. 

Hvað er svo framundan hjá skáldinu? Er önnur bók á leiðinni?

Nú ætli það sé ekki bara að halda áfram að skapa? Gengur ekki lífið út á það? Að skapa minningar, að skapa góðar stundir með fólkinu sínu og að reyna að skapa betri heim með einhverjum hætti? Það mætti segja að í raun er þetta sami hluturinn. Við erum öll að reyna að lifa skapandi lífi. Að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins, skrifa okkar eigin sögu, þar sem við erum í aðalhlutverki og leggjum okkur fram við að skapa þann heim sem við viljum fyrir okkur og börnin okkar. En jú það eru einhver handrit í tölvunni minni sem bíða eftir að komast á prent.  Næst verður það líklegast myndskreytt barnabók sem mun heita Stjarnan sem týndi geislanum sínum.   

Það er greinilega nóg í pípunum hjá Eyrúnu Ósk. Við óskum henni innilega til hamingju með viðurkenninguna og bókina.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: