Innanríkisráðuneytið: ekki rétt staðið að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar

Haraldur Líndal Haraldsson er bæjarstjóri og ber ábyrgð á því að framkvæmd fjárhagsáætlunar sé í samræmi við lög og reglur.

Bæjarstjóri ber ábyrgð á því að afgreiðsla fjárhagsáætlunar sé í samræmi við lög, reglur og vandaða stjórnsýsluhætti.

Í bréfi sem Innanríkisráðuneytið hefur sent bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar og tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í dag er staðfest að ekki hafi verið staðið rétt að framkvæmd fyrri umræðu um fjárhagsáætlun bæjarins þann 28. október 2015. Af þessu tilefni áréttar ráðuneytið hvaða reglum ber að fylgja við undirbúning og afgreiðslu tillagna að fjárhagsáætlunum í sveitarstjórnum. Jafnframt býðst ráðuneytið til þess að leiðbeina sveitarfélaginu um framkvæmdina verði eftir því leitð.

Komið í veg fyrir lýðræðislega umræðu

Á fundi bæjarstjórnar þann 28. október 2015 gerðu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna athugasemd við það hversu seint gögn hefðu verið send út fyrir fundinn sem að mati fulltrúa minnihlutans gerði þeim ókleift að undirbúa sig og gegna þannig þeim skyldum sem þeir eru kjörnir til. Á umræddum fundi bæjarstjórnar lögðu fulltrúar minnihlutans til að afgreiðslu yrði frestað um viku til þess að geta kynnt sér þær tillögur sem lagðar voru fram. Sú tillaga var felld af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar. Var það mat fulltrúa minnihlutans að með því hefðu fulltrúar meirihlutans komið markvisst í veg  fyrir eðlilega og lýðræðislega umræðu um stefnumótun í málefnum sveitarfélagsins.

Innanríkisráðuneytið áréttar gildandi reglur

Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að það telji ástæðu til að skerpa á reglum sem fylgja ber við afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Í bréf ráðuneytisins er minnt á að fundarboð skuli berast bæjarfulltrúum eigi síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund og að fundarboði skuli fylgja dagskrá fundarins og önnur þau gögn sem nauðsynleg teljast til að bæjarfulltrúar geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind.

Í bókun fulltrúa minnihlutans í bæjarráði í dag segir að þeir telji mikilvægt að vakin sé athygli á þessari niðurstöðu og réttur fulltrúa til að kynna sér nauðsynleg gögn fyrir fundi bæjarstjórnar sé virtur.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: