Hinsegin fræðslan hófst í dag

Ugla Stefanía. Myndin er samsett.

Ugla Stefanía. Myndin er samsett.

Starfsfólk Víðistaðaskóla fékk í dag hinsegin fræðslu frá Samtökunum ’78. Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, fræðslufulltrúi Samtakanna, hélt fyrirlestur fyrir starfsfólk skólans. Fræðslan er hluti af samkomulagi sem Hafnarfjarðarbær gerði við Samtökin ’78 í kjölfar tillögu Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Í samtali við Bæinn okkar segir Ugla Stefanía enga spurningu um mikilvægi fræðslu fyrir starfsfólk grunnskóla. „Vegna þess að hinsegin fólk er partur af okkar samfélagi og hinsegin fólk eru kennarar, nemendur, foreldrar, starfsfólk og svo framvegis. En fyrst og fremst eru þau manneskjur sem eiga að geta notið sín og eiga ekki að þurfa að lenda í fordómum. Þess vegna er þessi fræðsla besta vopnið til að uppræta fordóma, því fordómar eru afurð fáfræði.“

Ugla segir að viðbrögðin við fræðslunni í dag hafi verið mjög góð. „Ég bið kennara um að fylla út miða þar sem þau meta fræðsluna og var niðurstaðan gríðarlega jákvæð úr fræðslunni í dag.“

Víðistaðaskóli er fyrsti skólinn sem fær heimsókn frá Samtökunum ’78 í þessum tilgangi og segir Ugla að starfsfólk allra grunnskóla í Hafnarfirði eigi að vera búið að fá fræðslu fyrir lok skólaársins.

Fræðsla fyrir starfsfólk grunnskóla er einn liður af fjórum í samkomulagi sem Hafnarfjarðarbær gerði við Samtökin ’78. Samkomulagið felur einnig í sér eftirfarandi atriði:

  • Starfsfólk frá Samtökunum ´78 verði árlega með fræðslu í 8. bekk.
  • Samtökin ´78 verði til ráðgjafar fyrir bæjaryfirvöld varðandi námskrárgerð sem tengist málefnum hinsegin fólks og þætti þeirra innan námssviðs samfélagsgreina í grunnskólunum.
  • Ungmenni úr Hafnarfirði geti leitað eftir þjónustu Samtakanna ´78 eftir þörfum án endurgjalds.

Ungir jafnaðarmenn áttu frumkvæði að tillögu um eflingu hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar. Eva Lín Vilhjálmsdóttir, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði tillöguna fram á sínum fyrsta bæjarstjórnarfundi í fyrravor. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og í kjölfarið hófst mikil umræða um hana í samfélaginu. Síðan þá hefur Samfylkingin lagt fram viðlíka tillögur í mörgum sveitarfélögum um allt land.Flokkar:Uncategorized

1 reply

Trackbacks

  1. Hinsegin fræðslan byrjuð í Hafnarfirði – Fréttastofa.is
%d bloggurum líkar þetta: