Einkaskóli á kostnað hvers?

Bæjarstjóri staðfestir að kostnaðarauki bæjarins sé um 70% á hvern nemanda hins nýja einkaskóla.

Bæjarstjóri staðfestir að kostnaðarauki bæjarins sé um 70% á hvern nemanda hins nýja einkaskóla.

Nokkrar umræður spunnust á fundi bæjarstjórnar í gær um nýjan einkaskóla á unglingastigi í Hafnarfirði Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar samþykkti í desember sl. tillögu um að veita skólanum starfsleyfi án þess að fjárheimildir væru fyrir því í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016. Bæjarstjóri staðfesti að tilkoma skólans muni leiða til umtalsverðra viðbótarútgjalda fyrir bæjarsjóð eða niðurskurð í hinu almenna skólakerfi.

Framlag bæjarins allt að 150 milljónir
Í þeirri tillögu sem samþykkt var kemur fram að forsvarsmenn skólans, Framsýn, skólafélag, telji slíkan skóla þurfa 120 nemendur til að bera sig rekstrarlega. Samkvæmt viðmiðum sem notast er við til að ákvarða framlag sveitarfélaga til einkarekinna skóla má því gera ráð fyrir að árlegt framlag Hafnarfjarðarbæjar verði um 150 milljónir króna.

Lítill sparnaður á móti
Samkvæmt upplýsingum frá fræðslusvið segir að gera megi ráð fyrir að einungis þriðjungur þess kostnaðar sem bærinn greiðir sparist á móti við það að nemendur fari úr skólum sem sveitarfélagið rekur yfir í þennan nýja skóla. Það þýðir að að sveitarfélagið mun alltaf þurfa að greiða u.þ.b. 100 milljónir til skólans og jafnvel meira.

Kostnaðaraukning um 70%
Þetta staðfestir bæjarstjóri, Haraldur Líndal Haraldsson, í fyrirspurn sem til hans var beint á fundi bæjarstjórnar um áhrif stofnunar einkaskóla á rekstrarkostnað, en þar segir hann að ef ekki verði lækkun á rekstrarkostnaði í öðrum skólum þá sé ljóst að kostnaður bæjarfélagsins muni aukast sem þessu nemur. Upplýsingar frá sviðsstjóra fræðslumála sýni ennfremur að í ljósi reynslunnar sé kostnaðaraukningin um 70% á hvern nemanda við það að reka einkaskóla.

Á kostnað hvers?
Það er því ljóst að kostnaðaraukinn vegna stofnunar slíks skóla mun alltaf verða töluverður, allt frá 100-150 milljónir króna. Spurningin er hins vegar hvaðan þeir peningar eigi að koma. Verða þeir teknir af almennu rekstrarfé til skólamála í Hafnarfirði eða munu þeir birtast í auknum álögum á bæjarbúa?

Hér er hægt að sjá upptöku frá fundi bæjarstjórnar á vef Hafnarfjarðarbæjar. Fyrirspurn til bæjarstjóra 01:17:00.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: